20.10.2007 | 19:29
Amrískt jórturleður - ungdómurinn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.10.2007 | 19:25
Fjallaferð
Núna tókum við lest upp í fjöllin og krakkarnir losnuðu við bílveikina og almenn leiðindi. Þarna er svissneskt landslag og töluverð yndislegheit. Við gengum eina 10 km og krakkarnir líka (þau geta ekki gengið í borgarlandslagi, mjög merkilegt). Grímur stoppar við hvern stein og snýr honum við og kallar sig rannsóknarmann.
Í lok göngutúrsins var meiningin að finna hinn fullkomna fjallaveitingastað, sem við síðan fundum, nema hvað að hann var ekki fullkominn heldur fullkomlega öh. Þetta var sosum ekki slæmt meðan á því stóð. En þegar maður var búinn að leggja saman sína líðan, líðan annarra, almennt hreinlæti og almenna stemningu að mat loknum, þá var niðurstaðan vonbrigði eins og alltaf. Við höfum varla fengið góðan mat hérna á veitingastöðum. Reyndar grunar mig að sushiið á sushi-staðnum hefði verið gott, hefði það verið til. Hér eru mörgþúsund staðir og 95 prósent þeirra er drasl. Og kaffið er vont. Hræðilegt. ,,Enga neikvæðni" Ha?. Vale. Appelsínurnar eru góðar, sólarupprásin er góð. Húsverðirnir eru góðir (merkilegt með húsverði, þeir eru alltaf góðir, en vallarverðir geðveikir). Það er gott að hlaupa í skóginum og rauðvínið er gott og margir krakkar eru svakalega vel uppaldir og kurteisir og dagblöðin eru góð og eflaust fótboltinn og fjöllin - þau eru falleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.10.2007 | 19:05
Paddel, tennis fyrir alþýðuna

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2007 | 18:59
Golf - íþrótt fyrir alþýðuna
Makalaust helvítis helvíti. Við Árni og pabbi eyddum heilum degi í að glíma við golfelítuna sem sameinaðist um að meina okkur aðgang að kjötkötlunum. ,,Þið þurfið að vera með skírteini frá Golfsambandi Spánar". Já, einmitt. ,,Og hvar fær maður svoleiðis?" Bla. Og umsóknarferlið tekur tvær vikur. Já, takk. Nei, takk. Á nokkrum stöðum samþykkja menn skírteini frá heimalandinu. Árni bróðir sótti þá upplýsingar um forgjöf og slíkt um þá feðga á netinu og bjó til lagleg skírteini. Ég fór síðan á prentstofu Boadilla og plastaði draslið. ,,Hérna eru skírteinin". Takk, og gjörið svo vel.
Þeir feðgar tóku 18 holur á ágætum velli nálægt flugvellinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2007 | 18:12
Jón Gnarr og ,,sushi"
Við fórum í bæinn á laugardaginn - meiningin var að gefa Hönnu sushi í afmælismat en í staðinn fékk hún Jón Gnarr.
Ímyndið ykkur eftirfarandi aðstæður: maður gengur inn á MacDonalds og segir: ,,Ég ætla að fá einn ostborgara, takk". Og þá svarar afgreiðslupersónan: ,,Því miður, það eru ekki til hamborgarar". Einhvern veginn svona asnalegar voru aðstæðurnar á sushi-staðnum sem við vorum búin að hlakka til að fara á. ,,Því miður, í dag er ekki til sushi".
En í staðinn rákumst við á Jón Gnarr, villtan á götuhorni. Þess má geta að 14 ár eru síðan ég hitti síðast frægan mann í útlöndum; það var hann Bono í Dublin, sbr. setninguna fleygu: ,,Excuse me, mister Bono". Jú, einn í viðbót, ég talaði við Adenauer jr. (90 ára) í veislu í sendiráðinu í Bonn einhvern tímann. Og mér fannst ég sjá Max von Sydow í Luxembourg, en kannski var ég búinn að drekka of marga espressóa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.10.2007 | 12:12
Rafræn afmælisgjöf handa Hönnu
Við erum orðin svo nægjusöm og umhverfisvæn að við notum ruslið í afmælisgjafir.
Þessi mynd er afmælisgjöf handa Hönnu. Listaverkið heitir ;,Hinn nýi íslenski fáni - eða - einu sinni var töggur í landanum"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.10.2007 | 08:11
Fjallaferð
Um síðustu helgi náðum við loksins að gabba krakkana í bílferð upp í fjöllin. Þau hafa erft akstursógleði frá föður sínum og hlustað aðeins of oft á Diddú syngja "Ekki bííííl". Fjallgarðurinn hér fyrir norðan borgina kallast Sierra Norte og virðist vera afar spennandi dæmi. Enda kom í ljós að þetta er hin mesta paradís og Fjalla-Grímur og systir hans nutu sín til fullnustu í líttsnortinni náttúrunni, enda komin af hálftröllum og altröllum í allar ættir.
Í framhaldi af fjallaferðinni ókum við sem leið liggur til Segovia, sem er afar fallegt túristahreiður. En mikið finnst börnum leiðinlegt að ráfa um bæi, allavega mínum.
Látum myndirnar tala sínu máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2007 | 18:09
Nautaat I
Undanfarna daga hafa verið hátíðahöld hér í bæ. Eitthvað sem tengist einhverri Virgen (já, einmitt) Rosaria. Hér er dæmigert sveitt og þreytt tívolí með kandíflossi og karrúseli - allskyns tónleikar og skemmtilegheit. Sjálfur er ég frekar andsnúinn miðstýrðri skemmtun og hef litla þörf fyrir að skemmta mér utandyra. Mín hugmynd um hina fullkomnu skemmtun er plötuspilari, plata, gin og tónik og kannski einn aðkeyptur vinur eða aðþrengd eiginkona. En nú er maður í útlöndum og maður verður að gera eitthvað, ha. Það verður að sjá hlutina og upplifa, ha.
Ég ákvað sem sagt að kíkja á þessa hátíð. Ég vissi að það ætti að fara fram einhvers konar afbrigði af nautaati sem heitir ,,Recortes" (held ég) og menn geta lesið sér til um einhvers staðar. Aðalmálið er það að nautið er ekki sært (stórt ?) og ,,nautabanarnir" eru margir og gera allskyns kúnstir (stökkva til dæmis yfir nautið) og síðan stendur einn bani uppi sem sigurvegari (hefur líklega fengið flest stig - ég hef ekkert vit á þessu).
Við drógum sem sagt krakkana grátandi framhjá hoppi / hoppuköstulum, kandíflossi og gasblöðrum þangað sem þau vildu ekki fara; á nautaat. Hringleikahús, steikjandi hiti, pöpullinn í Boadilla bergjandi á viskí í kók og framundan eitthvað diet-nautaat. Útvatnaður andskoti, hin stolta steik orðin að þreyttum hamborgara. Hvað nútíminn er leiðinlegur, hugsaði ég og geispaði.
Svo byrjaði ballið og ég verð að segja að mér stóð ekki á sama - og ég tuldraði í sífellu: ,,Þetta eru snarvitlausir menn". Þetta var nefnilega alvöru. Þarna var bullandi lífhætta á ferðinni. Krakkarnir skildu ekki þann þátt málsins og fannst þetta frekar leiðinlegt. En ég hef ekki verið jafn hress í langan tíma.
Mér skilst að þessi tegund nautaats sé á uppleið; enda verulega flott sýning. En djöfulli barbarísk. Eins og sjá má á myndinni eru menn tilbúnir með skurðstofuna ef eitthvað klikkar. Ef Unnar kemur í heimsókn datt mér í hug að við færum á nautaat og síðan á góðan grænmetisstað á eftir. Eitthvað fyrir alla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.10.2007 | 09:51
Heilaþvottur sem nær hálfa leið
Þegar ég var unglingur og ungmenni þótti skoska veitingahúsakeðjan MacDonalds bara fín. Allavega var það þannig í hugum flestra Íslendinga. Á ferðalögum í villimannalöndum átti MacDonalds að vera örugg höfn; þar fengi maður ekki matareitrun etc. En Íslendingar hafa aldrei verið snöggir að stökkva upp á gagnrýnisvagna.
Ég viðurkenni það fúslega að hafa snætt nær daglega á Mac í útskriftarferðinni góðu haustið 1991.
En næsta áratuginn fóru að berast allskyns fréttir af óvönduðum vinnu- og bellibrögðum Skotanna og maður fór að efast um að borgarinn væri góðborgari.
Nú reynir maður að hafa það fyrir börnunum að þessir staðir Mac og Burger King séu svona lala. Það er í lagi að skreppa einstaka sinnum; ,,En krakkar, þarna á djöfullinn heima, ha".
Grímur lét eftirfarandi út úr sér í gær í óspurðum fréttum: ,,MacDonalds er er ógeð (þögn) en samt gott".
Ég veit reyndar ekki hvort hann hefur borðað á MacDonalds. En um daginn fórum við félagarnir á Burger King. Ég hélt reisn minni að mestu leyti; við keyptum borgara en sleppti frönskum og gosi... eða... já við slepptum frönskum. Þetta var þokkalegur borgari, alúðlegur afgreiðslumaður og ekki yfir neinu að kvarta. En að mínu mati var þetta allhversdaglegt. En seinna kom í ljós að Grími þótti þetta allmikil upplifun.
Tveimur vikum síðar erum við á gangi fyrir utan mollið sem hefur að geyma Burger King. Þá segir Grímur og bendir á rusladall nokkurn, all-hversdagslegan, og segir: ,,Hér henti ég ruslinu af hamborgaranum". Það voru liðnar tvær vikur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)