Leiðinlegar laugarnar - laug Arnar

Ég hef verið að vinna að brúnkunni með töluverðum árangri, þið verðið ekki svikin þegar þið sjáið mig í Laugunum eftir mánuð. Bjórinn sér ístrunni fyrir fyllingu og er það vel. Svei þeim karlmönnum sem berjast við ístruna eins og óvin, svei þeim hégóma. Best er þegar maginn er fullur af hráskinku, ostum, pylsum, bjórum og í hálsinum og munninum er ekki pláss fyrir orð bara dæs, bara dæs.

Og ég sem ætlaði að ganga út með Eyjafirði og gista í tjaldi. Nú þori ég því ekki. Ég vil ekki vakna upp með órökuðum Birni eða hugsanlega ekki vakna upp. Ha? Reyndar á ég svissneskan vasahníf með sög og naglaþjöl og þótti beita Osoto Otoshi af töluverðri natni. Og hver er munurinn á Óda og ísbirni? Enginn. Ef ég mætti Birni órökuðum myndi ég finta hann eins og það heitir á handboltamáli - finta að hætti Eggertsonar Þorleifssonar Valsmanns, eða Halldórs Haukamanns. Anthony Hopkins lék í Nóbelsverðlaunamynd fyrir nokkrum árum. Þar leikur hann mógul sem týnist í óbyggðum ásamt nokkrum öðrum. Þar lenda þeir í slag við skógarbjörn, skógarbjörninn hefur bara áhuga á svarta manninum í hópnum og endar með því að éta hann. Ekki fallegur boðskapur það. Nú lít ég út eins og svarti maðurinn - kannski mæti ég ísbirni með hvítan strýtuhatt og kyndil uppi á heiðum.

Óskaplega geta stórþjóðirnar kúkað í buxan sín í fótbolta; vonarstjörnurnar Portúgal og Holland með kúk upp á bak. Rússland var vopnað blautklútum og barnasálfræði og Holland sofnaði vært úti í vagni. Spánverjar gætu farið á límingunum í kvöld; þeir eru bestir en þeirra eigin haus er þeirra versti óvinur. Ítalir eru þeirra Svíagrýla. Þær falla reyndar á endanum.

Unnur og Grímur kláruðu skólann á föstudaginn. Námsárangur frábær. Unnur þótti sýna einstakan árangur í spænsku. Lokahóf var síðan haldið að skóla loknum og var það prýðileg skemmtan. Unnur tók þátt í danssýningu og Grímur fékk medalíu fyrir þáttöku í fótbolta sem hann reyndar gafst upp á á endanum. Magnað hvernig þessi grey hafa sigrast á einu og öðru undanfarið ár. Það er ekki lítið á þetta fólk lagt.  

Hvað er verst þegar maður er að læra tungumál? Að fá símhringingu; kannski frá banka, eða skólanum eða íþróttadeild bæjarins sem tjáir manni að hugsanlega sé maður kominn inn af biðlista og blah blah. Oft skilur maður ekkert fyrstu mínútuna - síðan kemur eitthvað stikkorð, aha. Svo giskar maður á erindið út frá samhengi og reynir að hiksta eitthvað. Spánverjar eru reyndar afar kurteisir og þolinmóðir við þessar aðstæður. Margur íslendingurinn væri margbúinn að skella margsinnis á þennan helvítis útlending.

Bretarnir okkar eru í heimsókn. Unnur sýnir góða tilburði í enskunni og Grímur skellti flottu thank you út úr sér þegar hann fékk einhverja gjöf.  

Hitinn þessa dagana er rosalegur. Madridíngar tala um"höggið". Því sumarhitinn skellur eiginlega á í kringum miðjan júní. Allt í einu. Og síðan fer hann ekkert. Það eru engar sveiflur. Bara 35 stig í þrjá mánuði. 

Ég elska tennis. Wimbledon fer að byrja. Og ég mun sitja með gin og tónik og njóta þess. Stúdera teoríuna og rassskella síðan Nafna og Örra þegar ég hitti þá næst. Já, meðan ég man, í vikunni tók ég stöðupróf í tennis. Bullandi stressaður tók ég við uppgjöfum frá kennaranum og leið eins og bólugröfunum unglingi í stæ 102. Reyndar er ekki ljóst á þessu stigi hvort einhver pláss eru eftir en við skululum sjá til. Ég gæti líka keypt mér borðtennisborð og stuttar buxur a la Guðjón og sett annan borðshelminginn upp og spilað við sjálfan mig. Ekkert að því að spila við sjálfan sig ef annað þrýtur.

Langt síðan ég hef heyrt í Mo Shark og Ljót og Guð-jón er enn að glíma við 9-11 árasirnar á tvíburasörverinn í MA. 

"Yes, until 1989 beer was banned in Iceland" "Why?" Uh. Stundum verður manni svarafátt.

Spænsk götufyllerí. Þau heita Botellón. Reyndar hef ég aldrei orðið beint vitni að þeim. En mig grunar að þau fari fram með eftirfarandi hætti: spánskir unglingar hittast á leiksvæðum og hafa meðferðis plastpoka með Mahou bjórflöskum brúnum (lítri) og Don Simon-fernurauðvíni (lítri). Og svo er sötrað. Ég var frekar rólegur í tíðinni í den en þá eins og ná var stíll yfir kalli; Absolut vodki í appelsínusafa. Don Simon-fernurauðvín (lítri) kostar innan við evru. Absolut-aumingi kostar örugglega vel yfir 2000.

Ágætu lesendur (báðir) ef einhver vill skella sér til heitu landanna frá 1.-20. júlí. Opið hús. Öl, ostar, skinkur og sundlaug. Gin og tónik úti á svölum.

Lifi Spánn. Niður með Rómverja! 

 

 

 


Myndir frá heimsókn Arnheiðar von Heineken

sm�ri og gr�murHildurHeidarnar_jun08 075Heidarnar_jun08 081

"Burn, baby burn (disco inferno)"

Alltaf vanmetur maður sólina - náði að brenna á mér lappirnar.

Var einn í lauginni í kringum hádegið - þá kom þessi líka guggan og ég þurfti sífellt að vera að kæla mig. Erfitt líf.

Hvenær fóruð þið síðast í stöðupróf? Ég man eftir einhverjum stöðuprófum í Heidelberg á sínum tíma í þýskunni. Á morgun fer ég í stöðupróf í tennis. Ja hérna hér. Bærinn býður upp á billeg námskeið á sumrin og ég virðist vera kominn inn af biðlista í tennis, en þarf að mæta í prufu á morgun. Tennis er betra en kynlíf segir páfinn og svei mér ef maður tekur ekki undir það. Allavega tennis með Nafna. Swing.

Merkilegt með þessar fréttir. Samkvæmt íslenskum fréttum er rétt tæplega byggilegt á Íslandi; dýrtíð og skelfing. Samkvæmt spænskum fjölmiðlum er Ísland draumalandið þar sem létt og laggott drýpur af hverrri ösp. 

Ef lífið snérist bara um gott veður og gott verð væri ég til í að búa hér í Madríd. Ég held hins vegar að lífið snúst um það að drekka vont kaffi með góðu fólki. Hér er vont kaffi en því miður hitti ég sjaldan fólk og enn sjaldnar gott fólk.  í blokkinni eru bara rúmenskar, keðjureykjandi, símakjaftandi barnapíur.  Af hverju er Magnús Teitsson ekki hér, ha?

Ef þú ert skemmtilegur einstaklingur máttu koma hingað og ég skal hýsa þig. 

Vatnið í lauginni er svo kalt að ég efast um að Ási Angantýs þyrði útí, hvað þá Skeiðarvogsskáldið kulsækna.  En kosturinn er að það lækkar á manni risið sjái maður guggur.

Var ég búinn að segja ykkur að ég er kominn með miða á Bonnie "Prince" Billy. Líklega mesti tónsnillingur núlifandi. 

Annars segir fátt af einum

best er að elska sjálfan sig í meinum

það er vont að moga boginn, en reynum

ég elska ilminn af steiktum kleinum. 

 


Leikþátturinn: "Gervilegur herramaður á Amtsbókasafninu"

Við erum stödd á Amtbókasafninu á Akureyri. Gervilegur herramaður á fimmtudagsaldri í rykfrakka og með sólgleraugu skoðar auglýsingar á korktöflu í andyri safnsins, yfirgefur safnið en snýr síðan við og heldur rakleitt að afgreiðsluborðinu.

G.H. (Gervilegur herramaður)

A.M. (Afgreiðslumaður).

G.H.: Góðan daginn

A.M: Góðan daginn, get ég aðstoðað?

G.H.: Tja, ég er nú reyndar að leita að bókum handa krökkunum, þú veist til að taka með í fríið.

A.M.: Þá er nú af nógu að taka. Hvað eru krakkarnir gamlir?

G.H.: Þetta er á öllum aldri, frá fjögurra og upp í sextán.

A.M. Aha.

G.H. Er þessi þarna Þorgrímur Þráinsson ekki dálítið góður, hann var nú afbragðsfótboltamaður og ekki reykir hann.  Hann hefur að ég held skrifað bækur fyrir krakka á öllum aldri.

A.M.: Já, Þorgrímur, hann rennur út þessa dagana.

G.H: Kannski ég taki bara það sem þú átt eftir Þorgrím, litla fólkið mitt spænir í sig bækur og það gengur ekki að vera bókalaus í bústaðnum. Blindur er bóklaus maður í bústað.

A.M.: Aha, ha, ha. Já, við skulum sjá. Best að fletta upp á kalli. Við skulum nú sjá, 10 færslur: Tár, bros og takkaskór, Sorgmædda konan, Skrúfur og skrúfutakkar. Það er töluvert inni. 

G.H: Láttu mig bara fá allan pakkann. Þetta er svo magnaður höfundur.

A.M: En þessi nýja eftir hann, sem kennir þér að láta kellinguna tísta, he, he. Ekki viltu hana?

G.H. Ha? Ég er ekki alveg með, best að taka allt með, þetta er svo helvíti magnaður höfundur. 


Ein lítil atburðaskrá ok tíðindaupptalning

Það var fólk í heimsókn hjá okkur. Fólk var í heimsókn okkur hjá. Í heimsókn hjá okkur var fólk. Og nú er það farið. Og Grímur grét en gaf stórvini sínum, Smára, hvíta Spidermann-skyrtu að skilnaði, en Smári þessi hafði einmitt gefið Grími forláta kúrekaskyrtu skoskmynstraða.

Skógarferð 

Á meðan Unngrímur var í skólanum fórum við hin (Nafni, Nafli, Heiðdís, Hanna, Hildur og Smári) í skógarferð. Það var góð skógarferð. Hún byrjaði samt ekki vel. Í litlu rjóðri við lítinn stíg fundum við lítinn mann með stórt vararskegg. Hann tók kveðju okkar dauflega en sagðist þó heita Brús og vera í skógarferð. Vinur hans Tékk var þarna líka, með knapahjálm á höfði og grét á mili þess sem hann húðstríkti sig með feitum kaktusi.

Nú allsskyns blóm fundust og allskyns hjólreiðamenn sáust og ein golfkúla fannst í fjöru.

Lakkrís 

Ég fékk lakkrís og lýsi frá gestunum. Lenti reyndar í kappáti við minnsta gestinn. Hann vann.

Flamencojazz og Café Central

Í fyrsta skipti sá ég Madrid í myrkri. Eftir kvöldverð sótti á mig syfja mikil og tók því til þess ráðs að bryðja kaffibaunir. Ég, Nafni og Heiðdís héldum síðan í bæinn á kaffihúsið Café Central og sáum þar tónleika ágæta með flamenco-jazz-kvartetti. Prýðilegt. Undir tónleikunum kneifuðum við öl og Capirinha sem er brasilískur hollusturdrykkur. Sofnaður tvö. Schlimm.

Tennis

Nafni er hraðlyginn. Þóttist hafa farið í tennis kannski 1-2 á ævinni. Svo kom í ljós að á háskólaárum sínum í Bandaríkjunum hafði hann búið á vist með hálf-atvinnumönnum í greininni og stundað hana af kappi. Ég lét hann samt hlaupa fram og til baka og hann átti fullt í fangi með að taka við gríðarföstum uppgjöfum mínum. En hann grísaði á það og vann eitthvað.

Við fórum líka í Paddel með spúsunum og fór það vel fram og drengilega. Ég lenti með Heiðdísi í liði sem var góð í handbolta í gamla daga, en þetta var önnur íþrótt og því fór sem fór.

Flatsæng

Börnin sváfu í/á flatsæng og voru eins og ljós á milli þess sem þau gerðu alla vitlausa.

Colón

Við nafni fórum niður á Plaza de Colón og sáum Spánverja merja sigur á Svíum ásamt 50.000 Spanjólum. Inni í mér hélt ég með frændum vorum enda er líkami minn 80% prósent vatn og bjór og restin hrökkbrauð og kjötbollur. Mér finnst ég líka þekkja Svíana: Henrik Larsson kemur frá sama bæ og Bo kærasti Bjargar Norðurbyggðarbörsungs, þ.e. Helsingborg.

José Tomás 

Frægasti nautabani Spánar lét næstum því drepa sig í gær. Honum mun takast það á þessu ári.

Sundlaugin

Sundlaug blokkarinnar opnaði á laugardaginn. Nú er stuð. Framundan sól og 30 gráður. Nú verður safnað brúnku og horft á guggur.  

Föstudagsdjammið 

Hanna leiddi gestaparið um öngstræti Madrídar og dældi í það tapasi, vatni með gasi og rauðvíni í pappaglasi. Nú var það á minni könnu að hugsa um börnin. Ég hugsaði mig tvisvar um og lét vídjóið hugsa um börnin á meðan ég horfði á Holland rassskella Frakka með blautri bagettu og sinnti minni ölkönnu. Börnin lognuðust síðan út af og var þetta hin auðveldasta pössun. Hanna og gestaparið komu heim undir morgun og lognaðist eitthvað af því fólki út af úti á svölum og vöknuðu einhverjir skaðbrenndir í morgunsárið undir morgunsól.

Retiro

Er almenningsgarður í Madríd; fallegur og fjörugur. Þangað fórum við í piknikk með hráskinku, empanandas, öl og íste. Börnin sulluðu í vatni, við Nafni héldum bolta á lofti og Smáradætur tóku jóga og fimleikaæfingar í grasinu. Í garði þessum er tjörn og við Nafni fórum með skrílinn í bátsferð á meðan S.dætur fóru í bæinn. Var bátsferðin hin prýðilegasta skemmtun í alla staði. 

 

MacDonalds-afmæli

Áður hef ég minnst á sið innfæddra að halda barnaafmæli á McDon. Tveir vinir Gríms úr skólanum, þeir Pablo og Carlos, buðu nú til leiks. Nafni kom ásamt Hildi og Smára og vorum við í hæfilegri fjarlægð frá skrílslátunum. Áreitinu verður best lýst með eftirfarandi líkingu: Eins og að vera staddur inni í hausnum á ipodunglingi að borða morgunkorn og hlusta á Korn. Kannski ekki góð líking. En vont var það. Grímur þurfti að bíða í klukkutíma eftir langþráðri næringu og var farinn að titra. Þetta er nú bara aumt, það verður að viðurkennast. José spjallvinur minn sem er tæplega þrítugur hélt upp á afmælið sitt heima sem krakki og heldur að þetta hafi breyst á undanförnum 10 árum. Hann er jafnvel á því að nú þori fólk ekki að halda afmæli heima því þá haldir hinir að viðkomandi hafi ekki efni á MacDonalds-partíi.

Ég segi bara: lifi skúffukakan og pylsurnar/pizzurnar heima hjá karli og kerlingu í Furulundi, Eyrarvegi eða Snægili.

Annars bara þokkó 

Við skiluðum gestunum af okkur á lestarstöðina í morgun og nú er hálftómlegt í kotinu. Hafi þau þökk fyrir gestvænsku, eðalmennsku og allt það.

Annars er þetta síðasta vika krakkanna í skólanum og lokahátið á föstudaginn.

 

 

 

 

 

 


"Við vorum sviknir um stelpur"

"Við vorum sviknir um stelpur sem við stóluðum lengi á,

við höfðum staðið í skilum með innborganir og þær ekkert smá

við vorum píndir í afvötnun innvið sundin blá

við fórum út þaðan hálfu verri og skelltum okkur beint á krá"

Ekki veit ég af hverju þessar ljóðlínur Megasar koma upp í hugann, kannski er það þessi svikapæling.

Í dag átti allt að verða gott í Madríd, í dag átti sumarið að byrja en það rignir brennisteins hundum og köttum úr fötu. Og við erum að fá heimsókn frá góðu fólki sem mun horfa á okkur ásökunaraugum með samanbitnar varir og eins og hugsandi: "Þetta er þér að kenna."

Annars texti sem kemur upp í hugann:

"Helgin var ömurleg

sáum Moldrok leika í festi

en Lolla Matt og Vala Buff

stungu af með kókgæjunum sætu"

Löng unga fólsins með Unun; eitt besta popplag Íslandssögunnar, hugsanlega ásamt 90.kr perlunni með Maus.

En annars var helgin ekkert ömurleg - byrjaði reyndar með hressilegri ælu af Gríms hálfu á fimmtudaginn (Heins baunir í dós blær á útkomunni). Við héngum því heima við félagarnir fyrri part föstudags. Minn maður var ósáttur við að fara ekki í skólann, til stóð að bekkurinn hans færi niður í Madríd á náttúrugripasafn - hann var hinsvegar búinn að fara á safnið fyrr í vetur og þetta gerði því ekki mikið til.

Og ég missti mig í ikea. Keyrði til Alcorcon þar sem skrattinn á heima. Var mættur fyrstur í ikea með gulan poka, blýant og minnisblokk. Varð hugsað til martraðakenndra heimsókna í ikea fyrir tæpu ári; þá vissi ég ekki hvað borð var á spænsku. Nú hinsvegar þurfti ég ekki að kaupa borð þannig að ég hef ekkert grætt á þessari spænsku. Upphafsskrefin voru erfið og í mér glímuskjálfti og til þess losa kvíðahnútinn hætti ég við allt í bili, gekk frá gula pokanum, og því og fór beint í sjoppuna og keypti mér pylsu, salmonrúllu og sódastrím. First things first.  Og svo var haldið áfram. Ég vann sigur á sjálfum mér og ikea og kom glaður út með dýnur og stóla og lampa og hrökkbrauð og Kallekavíar. Lifi Svíþjóð.

Í framhaldinu átti ég stefnumót við Jose spjallbróður minn í molli einu þar rétt hjá. Við tókum heljarspjall um líf og tilverur, 65% enska og 35% spænska. Við ræddum meðal annars um nautaat; en þau tíðindi urðu í vikunni að aðalbaninn, José Tómas, átti ægilega endurkomu í Las Ventas (aðalstaðurinn í Madrid) og var borinn út um stóra hliðið á gullstól eftir að hafa fengið fjögur eyru. Sem þýðir að "bardaginn" var nánast fullkominn. Spjallbróðir minn var á því að nafni hans væri einfaldlega geðsjúklingur, og líklega er það rétt. Hugsanlega gætuð þið fundið þennan bardaga á Youtube.

Það er gaman að vaska upp. Í því felst hugleiðsla. Eins er gott að vaska upp og hlusta á Andrarímur sem eru á sunnudagskvöldum í umsjón Guðmundar Andra Thorssonar. Í gærkvöldi var uppsafnað uppvask í kjölfar matarboðs og hafði ég uppi á Andrarímum frá því á sjómannadag og skora ég á ykkur að hlusta á þáttinn (1.júní). Í þættinum voru leikin lög með Þremur á palli þar sem textar Jónasar Árnasonar voru í forgrunni. Þess utan las Guðmundur hrakningasögur og spilaði viðtal frá 1974 við gamlan jaxl frá Grundarfirði ef ég man rétt. Mikið eru gömlu sjómannalögin skemmtileg "...á Dalvík og Dagverðareyri..." og ekki er síðra þegar ungir og reiðir menn fóru að efast um raunsæi þessara laga og hendingar eins og þessar fóru að heyrast:"...varð hann undir toghlera er burtu vildi tóg skera" (Bubbi) og "Sjómanns, sjómanns, sjómannslíf engin ævintýr" (S.H. draumur).

Nú varð konunni litið út um gluggann og um veðrið sagði hún þessi orð: "Eins og Raufarhöfn í janúar". Og við erum að fá gesti. Vesalings fólkið búið að kaupa rándýrt far, og rándýr hrukkukrem og rándýr ennisbönd. Og hvað fær það? 12 gráður og rigningu með köflum.  Það má alltaf spila kana og horfa á fótbolta. Ég horfi á hálfleik og hálfleik á Evrópumótinu núna, merkilegur leikur í kvöld Holland og Ítalía. Dennis Bergkamp er sérlega spenntur fyrir leiknum. Dennis sem nú er búsettur í Ameríku er búinn að vera á leið á leikinn síðustu tvær vikur á skipi sínu "Hollendingnum fljúgandi." Megi hann skemmta sér vel.

Spánverjar eru jafnsorglegir hvað varðar fótboltaliðsvæntingar og Íslendingar varðandi júróvisjónvæntingar. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir skoruðu ekki mark eins og Frakkar gerðu um árið. Skott á milli lappa, drekkjum sorgum í Grappa og hendum flöskutappa.

Spænska knattspyrnusambandið lagði til á síðasta Fifa-fundi að lið sem nær 20 snertingum án þess að andstæðingurinn komu við sögu fái víti. Þeir lögðu líka til að 3 hendi væru í víti og að ekki væri hendi á liggjandi mann.  Þeir lögðu að lokum til að ekki mætti sparka með tánni en Brasilíumenn lögðust gegn því.

Móðir vor átti afmæli í gær.  Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í hana í síma. Hér með staðfestist að heiðarleg tilraun var gerð til að ná af henni.

Merkilegt þetta með krakka og tungumál. Grímur er búinn að læra einhvern rapptexta sem þau voru að æfa í skólanum. Ég tek hatt minn ofan:

"Dentro mi cuarto no puedo andar

se amontonan las cosas y eso es fatal

necesito ordenar para poder pisar.

Hoy es el gran día y lo voy a lograr

no sé qué hacer pero voy a empezar.

Tengo unos amigos que molan total

seguro que una mano me pueden echar.

Muchos lapiceros tenemos que guardar.

Es como un juego que te va a gustar.

Canicas y cromos hay que juntar

veras que gusto te sentiras

juguetes y ropas hay que colocar

ordena y ordena con este rap."

 

Vá. Þetta þylur piltur upp úr sér. Í stuttu máli fjalla textinn um það að laga til í herberginu sínu.

Annars þarf ég aftur að fara í ikea í dag. Það þarf að kaupa hlutina. Það hlakkar mér til.

 

 

 


Það sem ég hefði beðið Heiðdísi að koma með hefði ég munað það

Heiðdís og hennar fjölskylda eru á leið í heimsókn - nú eru þau að ég held í Barcelona.

 

Þetta hefði ég beðið Heiðdísi að koma með hefði ég munað það:

 

Ég myndi hafa viljað munað

að láta hana kaupa

ýmiskonar munnlegan unað

líkt og lakkrís og prins og kannski harðfisk utanað

vík þeirri sem kennd er við Greni.

 

Hefði ég nokkuð kæst

yfir hákarli kæstum

og hrútspungum (næstum)

ég ætla að muna það næst.

 

Frábært hefði verið 

að fá með rjóma skerið

og við nögl skorið bláberið

og naturligvis sykrið.

 

Eins hefði ég viljað flot

siginn fisk á leiðinni í rot

og auðvitað brennivínsskot

...................................Not.

 

Þó gott verði að fá í heimsókn Heiðdísi

betra hefði verið hákarlalýsi

en kannski hún lumi á svörtum draumi (eða Rísi)

eða frá 66 gráðum norður flísi.

 

En hei, kannski hún komi með lúðu

eða úr kristjánsbakaríi súkkulaðisnúðu

en eflaust fæ ég í staðinn slúðu (r)

 

Kannski, já kannski fæ ég Kalda

eða kaldan Víking

can't beat the feeling

swing.


Rækjusalat fagurt með eggjum

brauðtertu skreytta skinkumanni

á aspasleggjum

og bóndadóttur með blæju

sem læðist með fram veggjum.

 

 ekki gleyma borgara úr Gellunesti

og gellur í nesti.

 

 Maður gerir fátt annað en skrimta

fínt hefði verið að fá Friðrik fimmta

en kannski væri það heldur frekt

 

Hundakex og kannski maltölsdós

og volga Gunnars kokteilsós

og fari menn enn til sjós

væri fínt að fá þyrskling.

 

En auðvitað er hér allt til alls

(hef samt ekki séð mola frá Hals)

Hráskinkan gleður drengi fróma

og ostana bera þeir fram með sóma.

 

 Ég hefði hana beðið að koma með Guðjón

en hann er upptekið snuð-flón

eða kannski pabba hans, Hauk,

og rauðan víking-bauk.

 

Jú, og kannski eina góða glæpasögu

og fjórðungspart úr þykkvabæjarflögu

og steik og Asna frá Grillinu á Sögu

og kaffilús frá Brögu.

 

Á endanum íslenskt mont og uppskafning

hangikjöt, grænar Ora og jafning. 

 

 

 

 

 


Og dagarnir líða

 Af skjálfta

Hlustaði á fréttir af jarðskjálftum í gær og horfði á kvöldfréttir. Það sló mig að hlusta á hástemmd lýsingarorðin. Vissulega er þetta vont. Vissulega er illt að hús skemmist, eldhúsinnréttingar endi úti á gólfi og barinn á veitingahúsinu splundrist. Hins vegar virðist vera meiri ástæða til að senda blöðrur á loft og flugelda og slá upp veislu og hrósa happi. Enginn virðist hafa dáið eða slasast lífshættulega. Að barma sér yfir skemmdum á eignum er hálf aumt - ég býst við að menn muni enn myndirnar frá Kína frá því fyrir nokkrum vikum.

 

Af Grími

Matsboxbíll slæddist með í þvottavélina í gær. Þetta þóttu Grímsa spá ansi merkilegt og plantaði sér fyrir framan þvottavélina í gær og horfði spenntur með nýjasta þættinum af Löðri.

Vinur Gríms af leikskólanum, hann Sancho, er á leið til Íslands í sumar. Í tilefni af því ætlar fjölskylda hans að kíkja í heimsókn og ég ætla að ljúga einhverju að þeim. Veit samt ekki hvernig ég á að færa þeim fréttirnar af skjálftanum.

Að fá að klippa svartar neglur drengsins kostar sitt. Í þetta sinn mútaði ég honum með skyndibita. Svona er maður orðinn. 

Af Unni

Búin að læra chiki-chiki og fullkomna dansinn.  

Af slysagötum

 Það er ljúft þegar maður á eitthvað inni; til dæmis góða bíómynd sem allir hafa séð. Ég ætla að horfa á Apocalypto í kvöld. Ég held að Nafni Jónsson sé eini Íslendingurinn fyrir utan Gísla á Uppsölum sem ekki hefur séð Með allt á hreinu. Gísli mun ekki sjá hana úr þessu en spurning með að tríta nafna þegar hann kemur í heimsókn. 

Af eikum

Við búum í útjaðri einhvers konar verndarsvæðis. Hér eru samt engir indjánar en hins vegar ansi gamlar eikur. Hér við hliðina er golfvöllur og til stendur að stækka hann. Á sunnudaginn verður því mótmælt að fella þurfi 325 eikur ef til stækkunar kæmi. 325. 

Andrarímur

Ég hlustaði á ágætan þátt Guðmundar Andra sem er stundum eða alltaf á rás 1 á sunnudagskvöldum. í þetta skipti las hann nokkra lausamálspistla eftir Stein Steinarr. Það var gaman. Eins lék hann gamalt viðtal við Alla ríka sem talaði um þegar hann fékk brauðsneið með kjötáleggi þegar hann var 5 ára. Það var ekki eins gaman. Inni á milli var síðan leikin grísk tónlist. Sérkennileg blanda en gekk upp. Guðmundur er raddgóður maður og skrifar líka stundum vel. Stundum verður hann hins vegar of angurvær. Góð pistlabókin sem hann gaf út fyrir nokkrum árum og ég man ekki hvað heitir. 

Af Sigur Rós

Það kom að því. Nú er Sigur Rós komin upp úr jeppahjólförum átta mínútna laganna og komin út á hraðbraut roppsins. Finnst þetta myndband samt leiðinlega hippalegt. Á svipuðum slóðum og MGMT sem eru með vinsælt hippalag. Allsbert fólk sem reykir hass og flýr heiminn og situr einhvers staðar í kringum eld er leiðinlegt. Hunskisti til að vinna, ha. Ég er til dæmis að vinna í því að fara að vinna. Kannski.

Plötur

Hver hefði spáð því að vínilplatan risi aftur úr gröf sinni?

Kvölin og völin

Það er ekki þverfótað fyrir uppákomum og festivölum hér í sumar. Ég enda með því að gera ekki neitt.

Nautaat

Þurfti spánska ríkissjónvarpið að sýna þegar nautið stakk horninu upp í endaþarminn á nautabana og hljóp með hann eins og fána um völlinn?

 

 

 


TF-Stuð

Ég þykist muna eftir mánudagsmorgnum í Árnagarði þar sem orð sem þessi féllu: "Djöfull var gaman í partíinu - ég man ekki neitt."

Helgin var góð og ég man flest - þrír eða fjórir bjórar lágu í valnum - sæææmilegt.

Júróvisjónkrakkapartí var prýðilegt og þessi keppni er í alla staði dásamlegt sjóv - en sleppa mætti þessari símakosningu og fá bara Sean Penn, Tarantino og Mary Robinson í dómnefnd. Allir sáttir? Allir sáttir. í dag fengum við Hanna síðan brúðuleikhússútgáfu af fjórum lögum: Spáni, Tyrklandi, Íslandi og Finnlandi. Unnur er búin að læra spænska textann utanbókar sem verður að teljast gott. Grímur fann djöflabrúðu og túlkaði finnska lagið sérlega vel. Hann á reyndar eftir að læra textann.

Við reyndum að "gleðja" börnin í dag. Fórum í imax-þrívíddarbíóið og sáum Risaeðlumynd. Grímur horfði á lófana á sér fyrir 7 evrur og 50 sent. Unnur sat stjörf og ég - enda ansi flott að láta Marc Bolan anda ofan í hálsmálið á sér...

Í framhaldinu fórum við á skásta veitingahúsið í Húsi djöfulsins og vorum afar spaunsk í háttum: Patatas bravas, spænsk eggjakaka, krókettur og kolkrabbi á kartöflum. Spænskt eldhús: mikil olía, mikil sterkja.

Þegar heim var komið reyndi ég að lesa blöðin og rómana uppi í rúmi en Grímur hélt fyrir mér vöku í næsta herbergi. Sá hafði dottið niður í einsmannsleik með dótið sitt og lék allar persónur sjálfur og það á spænsku! Spurning um að gera slíkt hið sama. Ég skil og les eins og moððerf. en er jafn tungulipur Gísli á Uppsölum. Fúlt er það en því miður svo - ég þarf ekki að tala spænsku mér til lífs (allavega sjaldan) og er ekki að stúdera málið djúpt en þetta sleppur til.

 Já, Rússarnir unnu Júróvisjón og líklega átti skautadansarinn stóran hlut í sigrinum. Hvernig væri að fá Einar Vilhjálms eða Skúla Óskars til að dansa með spjót og lóð á sviðinu, kannski undir söng Sverris Stormskers og Eyfa?

 


This is my lime

já, eitthvað munu menn bergja á límonaði í kvöld horfandi á herlegheitin. Hér verður "partí" aðallega krakkadæmi; blöðrur og skröll - skro og skrúfur.

Jóhann Svarfdælingur kom Dalvík á kortið og nú er Friðrik Ómar búinn að bródera nafn bæjarins á heimskortið forever. Já, eflaust verður dansað í Sæluhúsinu í kvöld og hver veit nema beinagrind Jóhanns takið sporið þar sem hún stendur við esso-stöðina í útjaðri bæjarins.

Ég gær var mikill menningardagur hjá undirrituðum. Ég fór í bæinn á Thyssen-safnið. í vetur fór ég á Reina Sofia sem hýsir meðal annars Guernica og fleira gott. Thyssen er ekki síðra. Í þetta skiptið leigði ég mér rafrænan gæd sem sagði mér eitt og annað skemmtilegt um valin verk. Ég klikkaði aðeins á því og byrjaði á því besta; 20. öldinni. Lucian Freud, Francis Bacon og Giacometti; brútal og flottir. Kurt Schwitters. Á hæðinni fyrir ofan nokkrir flottir van goghar og mismunandi skemmtilegir impressionistar. Á efstu hæðinni var guð mættur og jesúbarnið og þá fór ég.

Annars hef ég því miður lítið vit og litla tengingu við myndlist. Sýndi ekki mikil tilþrif í myndíð eða hvað það hét í den en var svo heppinn að vera með Einar Helga sem kennara í Gagganum. Það var ótrúlegt hvað honum tókst að láta okkur gera - synd að vera búinn að farga þessum listaverkum öllum.

Framundan eru einmitt Endurfundir "Gagnfræðinga" frá 1988. Ég verð fjarri góðu gamni. Ég fæ líka skrýtið bragð í munninn þegar ég hugsa til áranna í Gagganum. Það var eilífur hringlandaháttur með bekki á þessum þremur árum og engin bekkjarstemning sem myndaðist. Ég held líka að skólinn hafi verið í kreppu á þessum tíma; hluti kennaraliðsins forn í skapi og háttum, skólabyggingin orðin þreytt og stjórnin gamaldags.  

Ég hef áhyggjur af veðrinu hér. Sundlaugin í portinu opnar 9. júní og til þess að hún þjóni hlutverki sínu þarf í það minnsta 35 stiga hita og sól. Annars er hún pyntingatæki voðalegt. Þessa dagana er "umhleypingasamt," 15-22 stiga hiti og töluvert um skúrir.  Sjáum hvað setur.

Góðir Íslendingar, megi Grillið vera með ykkur í kvöld og majónesað kartöflusalatið, svínakótelettur og lamba, farið sparlega með Víking og Kalda. Farið sparlega með væntingarnar og druslist til að dansa með spænska laginu: uno: el brikindans, dos: el crusaíto, tres: el maiquelyason (michael jackson!), quatro: el robocop.

En við Grímur segjum: "Áfram Finnland!" 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband