Færsluflokkur: Bloggar
13.12.2007 | 14:15
L - S - Y VII Barnauðar strendur nema mín
Á meðan fölu ensku börnin horfðu á barnaefni og stunduðu fjöldmorð í tölvunni notuðum við tækifærið og gerðum strandhögg. Börn þurfa ekki mikið meira en sand, fötur og skóflur.
Kannski var kalt og kannski voru ensku börnin þess vegna inni. En þetta er dapurleg þróun, líka á Íslandi. Þeir voru ófáir vetrardagarnir í brakandi frosti og stillum sem við vorum nánast ein að vesenast í jólasveinabrekkum og kjarnaskógum.
Á Spáni virðast börnin hætta að leika sér úti í byrjun nóvember; kannski byrjar þá stíf dagskrá í skóla og íþróttum - ég veit það ekki. Og síðan furða menn sig á því að börn fitna - og bæta við þriðja leikfimistímanum á viku! Ég vona að spænsku börnin komi út í byrjun mars - það hlýtur bara að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 13:22
L - S - Y VI Óður til Dalís og co
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 13:07
L - S - Y IV
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 10:37
Liverpool - Scarborough - York III
Hvað er England?
Til dæmis volgur bjór og oft á tíðum veikur.
Til dæmis teppi á baðherbergjum - þægilegt að ryksuga piss.
Fiskur og franskar, city og united, indverskt og kínverskt.
Regnhlífar og legghlífar - illaklæddar unglingsstelpur með skólabindi.
Fyndnar fyrirsagnir blaðanna sem einatt missa marks.
Lík í frystikistum - morð á elliheimilium. Kuldi og niðurníðsla.
Shortbread - yorkshire te og crumpets.
Og tungumálið - maður minn.
Hjá sumum er diner lunch - og kvöldmatur tea, þeir nota steina og pund.
Búð sem heitir Iceland - má það?
Krikket, veðreiðar og rugby -
Í Liverpool sá ég bara umferð - og bítlana límda utaná strætó.
Lennon er flugvöllur og stór stytta.
Kannski opna þeir Bingó-höll sem kennd er við Ringo.
Kannski útibú frá SPRON sem kennt er við Harrison.
McCartney - það verður ferja til íslands - mikið fley.
Sem farþegi í framsæti set ég ávallt í handbremsu - the reflex, flex, flex...
Í madríd keyra menn citroen, seat, renault - Vauxhall, was ist das?
Við eigum Jórvík - reynið að muna það.
Ég rakst á Egil í gær undir pappakassa.
Gunnhildur var þarna líka gargandi við búðarglugg.
Ensk kurteisi er mátulega óþolandi - það þarf ekki að hafa orð um allt.
Thank you , thank you, please.
Quando beginder den striptease?
En teið fer betur með mann en kaffi - það má ljóst vera.
Og Guð gaf okkur framhaldslíf til að geta borðað enskan morgunverð.
Það má reyndar líka fá hann á hinum staðnum og blóðpylsu að auki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2007 | 09:40
Liverpool - Scarborough - York II
Það er plebbalegt að vera lengi að pakka niður í töskur og búa til einhverja listgrein úr því að raða og gleyma engu. Ég pakka á 5 mínútum og það klikkar sjaldnast. Það bjargast alltaf þó maður gleymi einhverju. Einu sinni gleymdi ég einu sinni að taka með mér tannbursta út á sjó - það var lítið mál - ég notaði bara tannbursta klefanautarins/nautsins? og sagði honum það síðan í lok túrsins.
Í þetta sinn gleymdi ég að taka nærbuxur á Grím. Það var því okkar fyrsta verk að kaupa búnt af slíkum klæðnaði á herramanninn. Í þetta sinn greip ég boxer-brækur sem reyndar eru fáránleg verkfæri, en Grími leist vel á. Í búntinu voru þrennar brækur hver annarri glæsilegri;köflóttar, svartar, hvítar. Grímur mátar þær allar og er afar stoltur. ,,Þú ert algjör gaur í þessum" sagði ég um þær svörtu. Grímur klæðir sig síðan í þær köflóttu og segir að braggði: ,,Þessar eru miklu gaurari."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2007 | 09:32
Liverpool - Scarborough - York I
Næstu færslur verða tileinkaður stórmerku ferðalagi okkar krakkanna til Bretalands. Frásögnin verður skreytt með allskyns myndum í lit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2007 | 21:28
Athugasemdir við blogg
Ég geri mjög sjaldan athugasemdir við blogg. Ég vil að aðrir sendi mér athugasemdir. Þarna er visst ósamræmi á ferðinni.
En staðan er þessi: Ég hitti mjög sjaldan fólk og athugasemdir ykkar koma í staðinn fyrir mannleg samskipti. Ég talaði við einhverja afgreiðslukonu á Burger King áðan og annað hvort kann ég ekkert í spænsku eða hún er frá Brasilíu. Samræðurnar voru eins og uppúr Ionescu eða Beckett. En allt gekk þetta upp; hún fékk pjening og ég fékk fitu, salt og sykur.
Ég borga Florence 20 evrur fyrir að kenna mér spænsku; tvisvar í viku. Samskipti? Fuss.
Ef þið sendið ekki athugasemdir hætti ég að blogga.
Ég rífst mikið við fólk í huganum; til dæmis er ég núna að rífast við gleraugnasalann sem seldi mér gleraugu sem einfaldlega eru með röngum glerjum.
Annað: það er mikið um ,,brýr" á Spáni; þ.e. frídagur á fimmtudegi; svo taka menn brú á föstudeginum. Við þurfum meira svona á Íslandi.
Okkur var óvænt boðið á jólaball íslendinga um síðustu helgi; dæmigert; gestgjafinn (sem við þekktum ekki fyrir fram) reyndist kunnuglegt andlit frá Akureyri. Undarlig er Íslendings tilvera.
Grímur áttaði sig á því áðan að hann gæti lyft systur sinni og sagði í framhaldi af því: ,,Ég er sterkur eins og fimm ára". Sjálfur er ég svo óheppinn að vera í slagtogi með innsveitarfanti sem er bæði eldri og sterkari en ég.
Systir Hönnu, Auði skortir heldur ekki kraftana; enda komin af aflraunamönnum eyfirzkum. Enn tala gamlir menn í Glaðheimum (þar sem við bjuggum í Rvk) um kvenmanninn sem bar ofnana. Við bjuggum í þríbýli í Glaðheimunum, dásamlegt í minningunni en óþolandi meðan á því stóð. Einhverju sinni stóðu yfir einhverjar framkvæmdir í íbúðinni okkar og við fleygðum út gömlum, níðuþungum ofni. Auður var að hjálpa okkur einu sinni sem oftar og tók þennan 80 kg ofn undir hendina og hljóp með hann út á stétt. Halli nágranni var afar imponeraður yfir þessu og upp frá því var alltaf talað um ,,konuna sem kyndir ofninn minn (undir hendinni)".
Guðjón vinur minn er mjög sterkur... andlega. Ég náði að meiða hann í júdó án þess að snerta hann. Og þar sem hann reynir alltaf að grípa körfubolta með einum fingri er hann alltaf að fingurbrotna. Þeir sem aðhyllast sálafræði Freuds þykjast sjá þarna dulda þrá tölvusérfræðingsins eftir veikindafríi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.12.2007 | 10:14
Enn af fiskum
Arngrímur lærði lét einhverja útlendinga ekki komast upp með að brúka ósannindi um Ísland. Í þá tíð var mjög í tísku að tengja Ísland við helvíti og stunda allskyns lygar um íbúa þess; við áttum að vera skítug og drykkfeld. Skítug hefur þessi þjóð aldrei verið. Arngrími sveið þetta mjög (hann fattaði ekki að bad publicity er betri en engin) og skrifaði varnaðarrit þar sem hann hrekur þessar lygar.
Nú líður mér eins og Arngrími. Á spjallsíðu einni er verið að spjalla um gengi Barselóna liðsins og þar er talað um Eið Smára sem ,,el bacalao Islandés" og að hann sé mjög til óþurftar. Þetta verður ekki liðið. Þetta er ósanngjörn samlíking. Ég þekki hann persónulega, og af góðu einu. Við eyddum saman nokkrum sumrum á Halamiðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2007 | 10:31
Um stéttaskipun fiska
Í Guðsgjafaþulu, síðustu skáldsögu Halldórs Laxness, má finna afar næma úttekt á fiskneyslu Íslendinga á fyrri tíð. Hugsanlega hefur smekkur okkar lítið breyst.
"Fiskneysla þeirra [Íslendinga] hefur gegnum tíðina auðkenst af reglu í matvendni sem ekki mátti brjóta nema menn vildu hætta þar til virðingu sinni. Til að mynda var víti á því að éta fiska sem voru ófríðir í andliti. Þorskfiskar, einkum þorskur og ýsa, virðast hafa verkað jákvætt á bragðtaugar íslendínga vegna fríðleiks fiska þessara í andliti, stillilegs augnaráðs og geðugs vaxtarlags, þó öðrum þjóðum finnist kabeljá heldur leiðinlegur matur, amk ókryddaður. Fiskum sem öðrum mönnum þykja eftirsóknarverðir köstuðu íslendíngar í sjóinn aftur og tautuðu um leið fyrir munni sér trúarlega formála ef þeim fanst þessi soðiníng ekki nógu lagleg í framan. Karfi, marhnútur, skötuselur og hnúðlax áttu ekki uppá pallborðið hjá íslendíngum af ofangreindum ástæðum. Sjódýr sem ekki töldust til hryggdýra og sælkerar sækjast mest eftir, einsog skeldýr krabba og smokk, töldu íslendíngar til skammarlega kvikinda og þorðu ekki einusinni að snerta þetta. Eitt hið mesta lostæti sælkera að sjómeti til kalla íslendíngar sædjöful af því þeim líkar ekki andlitsfall hans; íslenskir fiskimenn eru hræddir við þessa skepnu af því hún hefur að sögn þeirra tvo kjafta. Þó hákal sé bæði lítt eygur og illilegur til munnsins var hann þó talinn ætur á Íslandi, í fyrsta lagi af því hann var grafinn í jörðu í tólf ár áðuren hann var étinn og hafði ljótur svipur hans mildast við þessa laungu jarðsetníngu, og í öðru lagi var hann seldur í bútum eftir að hann var grafinn upp og fáir höfðu séð hann í heilu lagi. Nytjafiskar máttu ekki heldur hafa ankannalegt sérbragð né tilgerðarlegt litaskrúð, hjáleitt við umhverfið, heldur urðu að vera nokkurnveginn gráir á grátt ofan." (bls. 81-82).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2007 | 09:16
Af kaffi
Ég hef bara fundið vond kaffihús hérna. Í bænum okkar eru þetta allavega leiðindastofnanir. Ég get ekki alveg fest fingur á það. Hvort að Björg vinkona sagði ekki; ,,klístruð". Jú, þau eru klístruð. Kaffið er vont, samlokur og slíkt er viðbjóðslegt. Sætabrauðið sleppur. Sendið Weisshappel eða Simma til að kippa þessu í liðinn.
Í dag er 1. desember. Það er góður dagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)