Færsluflokkur: Bloggar
1.12.2007 | 09:02
Af málum
,,Gute Sprachkurse muessen nicht teurer sein. Englisch lernen mit Fun"
Ég rakst á þessa auglýsingu á einhverri vefsíðu.
Þýskan er mér mjög kær þótt enn hafi mér ekki tekist að hafa hana undir. Ef þýskan væri maður væri hún Ódi júdóþjálfari.
En eitt þoli ég ekki hjá þýðverskum; þessi undirlægjuháttur gagnvart enskunni. Á Íslandi þykir, að ég held, ekki fínt að sletta ensku í riti, t.d. í auglýsingum frá fyrirtækjum og stofnunum sem taka sig sæmilega alvarlega. ,,Góðir málaskólar þurfa ekki að vera dýrir. Lærðu ensku með Fun".
Ég fékk nemanda minn í heimsókn í gær og kenndi honum ensku. Ég fer ansi illa með drenginn. Ég spjalla við hann um daginn og veginn og veiði upp úr honum allskyns leyndarmál um góða veitingastaði, hvar eigi að kaupa fisk o.s.frv. Hann heldur að þetta sé hluti af enskukennslunni. Síðan rukka ég hann um x margar evrur og sendi hann heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2007 | 09:41
Þegar vasapeningurinn lenti í kjafti fisks
Framan af ævi borgaði ég sjaldan fyrir fisk. Ég fékk ókeypis fisk heima hjá mér og þegar ég fór sjálfur á sjá skorti sjaldnast fiskmetið. Í Reykjavík eru fiskbúðir og þær ansi góðar, öfugt við ástandið á Akureyri sem fram að þessu hefur verið ansi dapurt. Við fórum 2-3 sinnum í viku í fiskbúðina í Gnoðarvoginum eða Fylgifiska á Suðurlandsbraut og keyptum fisk, fiskrétti o.s.frv. Fyrir kílóið borgaði maður 1000 til 1500 kall. 1000 kall fyrir þorskflök - 1500 kall fyrir steinbít í einhverjum kryddum og lögum. Aldrei þótti mér þetta dýrt. Ferskur fiskur er ekkert sjálfsagt mál. Það þarf að sækja hann á haf út, liggja í leyni dögum saman og klófesta kvikyndið, drepa það, afhausa, flaka, snyrta, pakka, frysta (kannski), flytja í land, o.s.frv. Ég borga glaður fyrir góðan fisk, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Í gær fór ég í fínu búðina Sanchez Romero sem er nett snobbuð og skelfilega girnileg. Ég fíla reyndar ekki að eitthvað fólk sé að velja ofaní mig grænmeti og ávexti eins og þar er gert. Meiningin var að kaupa fisk og gera plokkfisk handa krökkunum; hvort að Grímur sagði ekki að þetta hafi verið uppáhaldsmaturinn sinn á Pálmholti. Áður en ég fór í búðina gluggaði ég í orðabók og komst að því að haddock (ýsa) er á spænsku: ,,especie de merluza" og þorskur er bacalao (ég reyndar hélt að merkingin væri þrengri, þ.e. saltfiskur. Þetta þarf að rannsakast betur). Gott og vel. Í búðina kominn spyr ég fisksalann hvort hann eigi þorsk, nei, hann á ekki þorsk. En ýsu? (þá skellti ég fram orðinu ,,merluza" sem hann tók vel í). Hann greip einhvern fisk, frekar búkfríðan (vantaði hausinn), og mér fannst ekki ólíklegt að þetta væri einhver ættingi ýsunnar. Síðan tekur fisksalinn sveðju mikla og afgreiðir fiskinn svo unun er á að horfa. Útkoman voru tvo lagleg flök upp á eitt kíló. Síðan setur hann góssið í poka, prentar út verðið og límir á. Ég kveð og laumast til að líta á verðmiðann. Ég veit alveg við hverju ég bjóst: sá vongóði hugsaði með sér: 15 evrur, sá skynsami hugsaði með sér 22 evrur, sá svartsýni hugsaði með sér: 30 evrur. Því var það með umtalsverðum hrolli sem ég leit töluna 70 evrur! Mér sortnaði fyrir augum og varð samstundis ljóst að ég hefði líklega aldrei keypt jafn dýran mat á ævinni. Ég skoðaði verðmiðann betur og þar stóð: ,,Merluza de Chile". Þá hafði líklega verið flogið með skepnuna um morguninn frá Chile á fyrsta farrými með kampavíni og gæsalifrarkæfu. Það var fölur maður sem sýndi Hönnu fiskinn sem átti að fara í plokkfisk.
Í mínum huga skyldi ekki bakkað með plokkfiskinn; allavega helmingur aflans færi í þann ágæta rétt. Og því er ekki að neita að aldrei hef ég vandað mig jafn mikið við að elda plokkfisk og ég fékk jafn mikið hrós frá krökkunum eins og Friðrik V. fær á einni helgi. Síðan tók Hanna restina og útbjó eitthvað flott dæmi úr eðalfiskinu. Mér þótti þetta fínn fiskur. En þrátt fyrir nóblan bakgrunn og heimsmennsku fannst mér hann bara svona upper-middle-class. Þetta var enginn humar. Hvað þykistu vera, einhver humar? spurði ég. En Hanna var hrifinn og talaði um að þetta yrði fínn jólamatur. Veit ekki með það.
Nú líður mér vel. Fiskur gerir manni gott. En vasapeningurinn er búinn; ekkert sígó og pilli í dag. En það er ljós í myrkrinu. Við erum búin að vera það lengi á Spáni að við erum búin að koma okkur upp draslaraskúffu í eldhúsinu eins og allt siðmenntað fólk. Þar innanum batterí, skæri, hleðslutæki, gömul visakort, nælur, nagla, bólusetningarskírteini, reikninga, eldspýtustokka og spil má finna klink.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2007 | 22:10
Fram- og afturpartar og annað smálegt
Þættinum hefur borist frampartur úr Eyjafirði:
,,Í útlöndum er ekkert skjól
eilífur stormbeljandi."
Bóndinn á Kambfelli sendi eftirfarandi afturpart með svokölluðum tölvupósti (hvað sem það nú er)
"Í innlöndunum eilíf jól
og Æsustaðalandi".
Allt að gerast þessa dagana.
Hef verið að velta fyrir mér tímadrápi næstu misserin - eitthvað verður maður nú að gera, ha?
Hef verið að skoða fjarnám. Ekki er framboðið merkilegt Íslandi frá; hugsanlega einhverjir kúrsar í íslenskunni; Fornaldarsögur og rímur, miðaldabókmenntir. Eins hef ég verið að skoða Open University á Englandi og takið nú eftir, er heitur fyrir félagsfræði. Fáir vita að undirritaður þótti afar efnilegur á því sviði í menntaskóla og var að hugsa um að leggja þau fræði fyrir sig - sjáum til.
Mig langar að þýða skáldsögu. Hver hún er verður ekki gefið upp.
Mig langar að læra spænsku almennilega, en guð hvað formlegt málanám er leiðinlegt. ,,Munurinn á ser og estár" o.s.frv.
Mig langar að verða frægt skáld en ég nenni því ekki.
Enn á ég eftir tvö-þrjú góð ár sem atvinnumaður í fótbolta; any one? (Mér bárust þær ljótu fregnir að Luton Town væri að fara á hausinn; hvílík saga sem færi þá forgörðum; Ricky Hill, Paul Walsh, Brian Stein, Mark Hately, David Pleat, gervigrasið, hattarnir og trukkarnir. Svei.
Merkilegt hvað ég vorkenni alltaf fólki í útlöndum. Mér finnst allir hafa það svo skítt. Samt eru allir svo glaðir. Fólk keyrir klukkutíma í vinnuna, borðar illa, sendir börnin með skít í skólann, kaupir dót í Toysareus á föstudögum, eyðir of miklu fyrir jólin og sendir reykmerki til guðs allan liðlangan daginn.
Æriss, búinn með þrjá.
Guð hvað kaffi er vont á Spáni. Uppskript að café con leche: vont kaffi, vont vatn, skemmd mjólk. Hita. Setja í glas, hræið útí teskeið af þrárri svínafitu; serverist með bros á vör.
Hér voru miklar fréttir af því þegar Juan Carlos og Bill Clinton borðuðu hádegismat á einhverjum veitingastað í Madríd; fengu sér franskar með eggjum og þorsk, eða eitthvað álíka. Töluðu þeir ensku eða spænsku?
Haldiði að kallinn sé ekki farinn að kenna ensku. Reyndar í afar litlum mæli. Nemandinn kann ekkert í ensku en þarf að kunna mikið vinnunnar vegna; ég læri helling í spænsku af þessum viðskiptum; winwin situation fyrir mig. Monnípeningaglás og eintóm gleði.
Bílastæðahús virðast vera hönnuð til þess að rispa bíla. Tímaspursmál hvenær ég skrapa hliðarnar.
Einar Már Guðmundsson er ágætur rithöfundur en titlar bóka hans eru vafasamir;
Fótspor á himnum, Englar alheimsins, Rimlar hugans; Die roten Liebesgeschichten están mejor".
En Einar er flottur; ég heimsótti hann einu sinni og bað hann að árita bækur sem ég ætlaði að senda til Englands; hann tók mér afar vel og bauð mér í kaffi og spjall í bílskúrnum.
Þegar ég vann á Hrafnistu ætlaði ég alltaf að heimsækja Stefán Hörð sem þar var vistmaður en fannst það alltaf hálf asnalegt og svo varð ekkert úr því.
Það hvarf oststykki úr ísskápnum; mig grunar að dyravörðurinn (sem er með aukalykla) hafi læðst inn á meðan við vorum í bænum í dag. Oststykki hverfa ekki sisona. Talandi um ost. Vihelm Guðmunds, minn forni vin og Mexíkani á tvo stráka. Þeir tala eitthvað hrafl í íslensku en skiljanlega á hún í vök að verjast í Mexíkanalandi, en eitt orð í það minnsta lætur ekki í minni pokann að mér skilst. Ostur er alltaf ostur, ekki ,,queso".
Mömmurnar í skólanum segja alltaf ,,guapo" þegar við Grímur göngum fram hjá: Hvorn eru þær að meina?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.11.2007 | 17:35
Heilsu er ekki að heilsa en bið að heilsa
Síðustu þrjár vikur hefur heimilisfólkið gripið allar pestir og/eða eitranir sem í boði eru hér á landi á.
Í gærkvöldi gat ég mig hvergi hreyft fyrir ógleði, kenndi í fyrstu um ofáti á pasta, rjóma og trufflum fyrr um daginn, en undirritaður hefur marga fjöruna sopið í ofátum svo það gat varla verið. Síðan milli svefns og vöku heyri ég hvernig Unnur ælir yfir allt inni hjá sér - ég er of upptekinn við að vorkenna sjálfum sér og Hanna gengur í málið. Og nóttin líður hægt, ég er í móki, verð að liggja á bakinu og ég hugsa um trufflur og rjóma og pasta - aldrei aftur og mér verður hugsað til fornra timburmanna og sjókrankleika og prísa mig sælan að vera ekki staddur með aðgerðarhníf í móttökunni á Akureyrinni eitraður af sjóveiki. Klukkan er fimm. Hanna stendur við rúmið með húfu, er á leið út á flugvöll, ókristilegur tími, verst að hún hefur ekki vit á að fá sér einn öllara í fríhöfninni eins og Íslendinga er siður. Þetta ætlar ekkert að lagast, ekki tekst mér að losa mig við pastabarnið í maganum. Hálf átta. Ég fer með Grím á klósettið. Átta. Grímur vill horfa á barnaefnið. Tala hann til. Níu. Hringi í skólann og boða forföll hjá krökkunum. Börnin eldast um nokkur ár, vorkenna föður sínum, fara sjálf á fætur, borða, leika sér og laga til í íbúðinni. Börn í bíló inni í stofu - rafmagnið fer af. Ég skrönglast fram - skoða rafmagnstöfluna - eitthvað dæmi okkur stærra, slökkt á blokkinni. Finn vasaljós handa krökkunum og fer aftur í rúmið. Heyri bank í gegnum mókið, kveiki ekki - heyri eitthvað brambolt og rödd, grunar - einhver er fastur í lyftunni. Ég kann ekki við að fara á buxnaklaufinni, varla er neyðin það mikil. Jú, einhver skúringarkvensan er föst og ber sig illa, telur sig hætt komna. Ég sæki dyravörðinn sem gengur í málið. Ég leggst inni í rúm með blaðið. Allt virðist snúast um Franco, Chavez og kónginn - ég skanna þetta og lýg að sjálfum mér að ég lesi þetta á eftir. Rafmagnið dettur inn. Ógleðin á undanhaldi en lystin er lítil. Tek mig samt taki og elda tvíréttað ofaní krakkana; grjónagraut og grænmetissúpu. Þeir eru langir þessir veikindadagar með krökkunum; en þessi hefur verið góður; Grímur skrifar R útí eitt en er eitthvað að vesenast með N-in. Unnur teiknar drauga og æfir sig í skrift sem dó út á Íslandi í kringum 1980.
Ég hef hugsað mikið um kulda í dag - maður tímir ekki að kynda, veit ekki hvað það kostar bara að það er dýrt. Á Íslandi er kynt, já, kalli minn, 24 gráður 24/7 og gluggar upp á gátt. Við sáum þátt í gær um eina af fáum favelum (chabolas að ég held á spænsku) sem eftir eru í Madríd. 2500 manna skúrahverfi án vatns, hita og rafmagns - einhverjir voru að bisast við að nappa rafmagni úr boxum borgarinnar. Þarna er alvöru kuldi.
Það rigndi í dag í fyrsta sinn í eina tvo mánuði. Ágætt að binda allt rykið sem svífur hér um í Lundahverfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.11.2007 | 10:50
Rúmið komið - fjórum mánuðum síðar - og fleira
Fyrir allmörgum mánuðum fengum við búslóðina senda til Spánar - en af einhverjum ástæðum gleymdi flutningsfyrirtækið rúminu í horni einhverrar vöruskemmu. Við fengum reyndar dýnuna.
Síðan leið tíminn og það var hringt, tölvupóstur sendur, grátbeðið og hótað. Og á hinni línunni var lofað og lofað. Makalaust.
En rúmið er komið. Rúm eru ansi mikilvæg. ,,Rúmm" eins og æskufélagi minn sagði einatt.
Nú er farið að kólna í Madríd. Í nótt sótti ég mér föðurland (reyndar norskt).
Þetta er nú ansi mikill lúxus á Íslandi að geta haldið hýbýlunum 24 gráðu heitum út í það óendanlega. Í gær gleymdi ég svaladyrunum opnum á meðan ég skrapp eftir krökkunum seinnipartinn. Þegar ég snéri aftur var hitinn í íbúðinni kominn niður í 15 gráður.
Nú er ég að lesa bók númer tvö á spænsku. Planið er að lesa nokkrar mér kunnuglegar bækur til að byrja með til að auðvelda mér skilninginn. Ég djöflaðist í gegnum Lolitu sem var þrekraun. Nú er ég að lesa A sangre fría eftir Capote. Ég flýg í gegnum hana. Merkileg aðferð þýðenda í báðum tilfellum að setja einstaka sinnum inn neðanmálsgreinar til að skýra eitthvað atriði fyrir lesendum. Flestar neðanmálsgreinarnar eru bara til óþurftar og til þess eins að maður fái óbeit á þýðandanum og gruni hann um besservizku.
Á þriðjudaginn eigum við fund með kennara Unnar. Við pöntuðum þennan fund fyrir þremur vikum. Hér hefur maður ekki daglegan aðgang að kennurunum eins og heima. Frekar óþægilegt. Ekki inni í myndinni að senda tölvupóst og heyra hljóðið. Íslenskir kennara fara síðan út í öfgar í hina áttina með því að vera stöðugt til staðar 24/7, eins og slökkviliðsmenn.
,,Með allt á hreinu" hefur verið reglulega í tækinu að undanförnu. Unni lýst afar vel á þá mynd, enda er hún góð. Í einu atriðinu standa Frímann og Hekla við bar í Sjallanum (?). Barþjónninn heitir Gestur Einar og í forgrunni leikur Ingimar Eydal á píanó. Akureyskara gerist það ekki.
Við bjuggum um árabil við hliðina á Gesti Einari og co í Vanabyggðinni. Um þetta leiti var ég einn fárra stuðningsmanna Luton Town á Íslandi og Gestur hjálpaði mér að semja frómt bréf á ensku þar sem ég pantaði liðsbúninginn beint frá Kenilworth Road. Þetta var glæsilegur búningur; fallegt samspil hvítra, svartra og appelsínugulra lita; Bedford auglýsingin framan á; trukkurinn mættur. Því miður er hvergi til mynd af mér í múnderingunni.
Segið mér eitt. Er kominn flótti í íslenska landsliðið í fótbolta? Rottur og sökkvandi skip? Ég get ekki að því gert en ég fæ pínu óbragð í munninn við þessar fréttir. Ég er samt með símann opinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2007 | 19:06
Samsæri Andlýsinga
Ljótt er þegar vinir manns reynast eitthvað annað en þeir eru og maður kemst að því að maður er bara peð í einhverju tafli, dropi í hafi, leiksoppur örlaganna. Nú veit ég hvernig Jim Carrey leið í myndinni góðu The Truman Show.
Við heimsóttum vini okkur í Andalúsíu um helgina og það var gaman, en í dag þegar ég er aftur kominn heim er ég farinn að átta mig á að það var of gaman. Hr. Karlsberg og fjölskylda settu upp leikrit.
9 atriði sem sanna að um tilbúning, leiktjöld og látalæti var að ræða þessa örlagaríku helgi.
1. Það eru hvergi til svona bæir, hvítkölkuð og skrýtin hús sem hanga utan í skógivaxinni hlíð. Þarna var fullkomið torg, fullkomin kirkja, fullkomið bakarí, göturnar of þröngar fyrir bíla.
2. Enginn hefur spánska strönd út af fyrir sig 9. nóvember í 25 stiga hita og ókunnir menn færa þér bjór og svarti maðurinn falbjóðandi dýrindis Dior-sólgleraugu og nýjustu tónlistina á geisladiskum.
3. Það ,,vildi svo til" að á þorpstorginu var slegið upp hátíð einmitt þegar við áttum leið hjá. Glaðlegt fólk í hvítum skyrtum með græna klúta; grillað sjávarfang, bjór og rauðvín flæðandi út um allt.
4. Barþjónarnir voru einum of kurteisir og skrýtið að þeir skyldu kveðja mig með nafni, grátandi.
5. Bjór kostar ekki eina evru.
6. Við höfðum gervisgrasvöll, tennisvöll og körfuboltavöll út af fyrir okkur. (Eitthvað hefur kostað að leigja þessa aðstöðu í þrjá daga).
7. Heima hjá hr. Karlsbergi hékk kort af Spáni og vissulega fannst mér skrýtið að bæinn þeirra var hvergi að finna. Hr. Karlsberg sagði að þetta væri úrelt kort og reyndi að eyða talinu en ég sá að það var frá árinu 2006.
8. Þegar ég kom heim í gær reyndi ég að finna upplýsingar um bæinn á vefnum og komst þá að því bærinn er ekki til en meint nafn hans er heiti yfir ofskynjunarlyf sem tekið var af markaði á 5. áratugnum.
9. Gestgjafinn, sem er frægur kyrrsetumaður (vegur rúmlega 0,1 tonn), vann mig í tennis; mig grunar að hann hafi byrlað mér eitur á undan leiknum. Eins er mögulegt að hann hafi átt við gleraugun mín enda er hann kominn af stórfrægum sjóntækjafræðingum norðlenskum.
Já, þetta ferðalag var allt hið undarlegasta. Við nutum þess meðan á því stóð en sú staðreynd að þetta var allt blekking skilur eftir skrýtið eftirbragð. Rétt eins og þeir þekkja sem átt hafa indæla nótt með konu sem daginn eftir reynist vera maður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2007 | 20:07
Gott að gráta í sundi...
...því þá sjást tárin ekki;
Gleðitárin.
Loksins lét ég reyna á öxlina sem hefur verið að plaga mig síðustu mánuði og kíkti í sundlaug þeirra Boadillinga. Sundlaug þessi er öll hin glæsilegasta; flísalögð og full af passlega heitu vatni.
Ég mætti með sundhettu og sandala eins og reglur kveða á um og synti og grét og grét og synti af gleði. Ég var einn með vatninu; ég var H, ég var 2, ég var O. Ég tróð marvaða, skreið og lét öllum illum látum (innAnímér).
Merkilegt með sundið. Lengi vel átti það ekki við mig. Árum saman stundaði ég pottana og leit ekki við laugunum. Ég gat synt 50 m skriðsund en var þá nær dauða en lífi (í rauninni kunni ég ekki að synda).
Ég veit ekki hver kveikjan var. En fyrir einum 4-5 árum fór ég á námskeið í skriðsundi hjá hinni eðalfínu ungfrú Ísaksen (sem kenndi í Brekkuskóla síðast þegar ég vissi) í Neslaug. Og þetta var dásemdin ein - eins og að læra að hjóla, eða standa á höndum - að læra einhverja tækni, ná tökum á einhverju. En eitt skil ég ekki. Af hverju lærði ég skriðsund þarna á sex vikum, en ekki á allri minni skólasundsgöngu? Vissulega var áhuginn meiri núna. En samt. Ungfrú Ísaksen fræddi mig reyndar um það síðar að nú væri mun meiri áhersla á skriðsund í skólum. Í mína tíð var líklega verið að vasast í of mörgu; flugsund má til dæmis missa sín.
Um svipað leiti og sundguðinn vitjaði mín var annar guð sem gerði sér dælt við mig; Guð showsundsins. Einn lygnan júnídag kom einn trúboða hans til mín og sagði: ,,Arnar, þú ert vondur, viltu lauga þig í kulblámanum og verða hreinn?" ég svaraði: ,,Já, Ásgrímur". Og ég gerðist trúboði og sagði: ,,Andri, vilt þú lauga þig í helspeglinum og verða frjáls?" ,,Já, Arnar" svaraði hann. ,,Hvað með sunnudaginn úti á Nesi?" Ókei. Síðan hef ég laugað mig með vinum og óvinvum í 7 gráðu heitum sjónum og oft höfum við grátið, grátið af gleði, en það er allt í lagi. (Nema þegar Ási sá sel).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.11.2007 | 19:35
Hlaupið í heitu löndunum
Næturnar eru kaldar (finnið þið fyrir nálægð Bubba?) en eins og áður hefur komið fram eru dagarnir funheitir (Sálin? eða var það Pláhnetan?). Eftir allt-að-því-viku-rúmlegu klæddi ég mig í eðlilegan hlaupaklæðnað og setti á mig derhúfu. Ekki misskilja mig ég er ekki eins og allir (Sigga Beinteins?) vitleysingarnir sem hlaupa tugkílómetrum saman daglega af því að einhver er að elta þá; gamall fantur úr grunnskóla, fyrrverandi eiginkona, Bakkus, geðvonska, almenn vonbrigði eða uppsafnað ógeð. Nei, ég er frjáls á mínum hlaupum. Ég lifi ekki fyrir vímuna eins og þið. Ég er öðruvísi. Ég klæðist ekki spandexi og draumur minn felst ekki því að hlaupa New York-marathon á 4 tímum.
Draumur minn felst í því að ná tökum á Krav Maga. Ég hleyp til þess að vera ekki andstuttur í fyrsta Krav Maga-tímanum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)