Færsluflokkur: Bloggar
4.11.2007 | 13:15
Diskótek heimavið
Maður er víst hættur að fara á böllin - liðin sú tíð að maður panti borð og sjóv í sjallanum, með asna, skrúfjárnum og dásamlegu óminni. Loksins hefur maður aðgang að ódýru brennivíni en áhugan vantar.
En af hverju að fara á ball þegar youtube er við hendina? Við Unnur skemmtum okkur dável í gærkvöldi; við spiluðum ABBA og Unnur var hrifin af þeim. Þá datt mér í hug að kynna hana fyrir undraheimum diskósins og spilaði hið epíska stórvirki Disco Inferno sem er mikil drápa byggð á samnefndu verki Dantes. Unnur var ekki hrifin. Síðan sýndi ég henni Bítlana; I'm the Walrus, ekki að virka. Síðan var það Sylvía Nótt, afar hugljúft og einstaklega fyndið allt saman. Ég missti mig aðeins í Stones og þá datt Unnur út.
Við tók Eurovision-ferðalag. Þá datt ég út.
Smá Elgar upp á stemninguna.
Og við fundum spænska snilldarlagið ,,Paco, Paco, Paco" með Encarnitu Polo. (skoðið og sannfærist)
Youtube-partí eru ódýr og tiltölulega hættulaus leið til að skemmta sér. Það þarf ekki að bíða í röð, ekki borga 700 kall fyrir bjór, ekki að öskra upp í eyrað á næsta manni, ekki að hlusta á ,,It's raining men" og ,,Sódóma", ekki að blæða fyrir taxa upp í Árbæ.
Best er samt að vera einn í Youtube-partíum því oft vilja leiðinlegir gestir skipta sér af tónlistarvalinu. Best að vera einn og blanda kokkteila og púa litla Montekristóa og deyja síðan ofan í eldhúsvaskinn.
Talandi um diskó. Fallegasta orð íslenskrar tungu hefur mér lengi þótt nýyrðið Vasadiskó. Ég ætla ekki að reyna útskýra það - það er bara þannig.
Í íslenskutíma síðasta vetur auglýsti ég eftir íslensku orðið fyrir fyrirbærið i-Pod. Besta tillagan kom auðvitað frá mér. Það er orðið æ-Pir (um æ-Pi, frá æ-Pi, til æ-Pis). Nú hef ég lítið verið á Íslandi að undanförnu. Mynduð þið segja að orðið hafi fest sig í sessi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.11.2007 | 21:20
Takk (sbr. Sigur Rós)
Já, svartsýnin hefur verið að plaga mig að undanförnu og í raun eyðilagt þessa annars ágætu bloggsíðu. Þessi pistill er tileinkaður því góða og gleðilega sem henti mig frá áramótum, listinn er tilviljanakenndur og ef þið saknið einhvurs atburðar, endilega sendið mér línu.
- Karlakvöld með Guðjóni og Unnari; þar var gleðin við völd og svei mér ef við kláruðum ekki heila kippu eitthvert kvöldið.
- Löngufrímínútur í Gamla skóla; Björn Vigfússon á aðra hönd og Valdimar Gunn á hina (eflaust bakkelsi á borðum).
-Veiðiferð á Hjalteyri með Kolbeini, Junko og krökkunum - urðum ekki vör.
-Grímur steig upp á hjól og hjólaði af stað. Undrabarn.
-Brottrekstur úr körfuboltatíma í Fjósinu.
- Ísland - Danmörk í handbolta - nei.
- Matarboð hjá Sverri Páli.
- Ferð á mr. skallagrimsson í Borgarnesi.
- Bátsferð með Kalla á zodiac út að Queen Elizabeth (rétt munað?)
- Brúðkaup að Hofi hjá Heiðdísi og Arnari; mættum á svæðið með stærsta hjólhýsi í heimi; dásamlegur matur og drykkur, endað á potti. Daginn eftir fór ég ásamt Unni og Grími í sund á Dalvík á meðan Hofverjar sinntu timburmönnum sínum.
- Dómgæsla á N1-mótinu; og í kjölfarið fullkominn skilningur og samúð með dómurum jarðarinnar.
- Ást/hatur samband Unnar við fimleikana.
- Ást/hatur samband Gríms og Ninnu Rúnar.
- Þegar við Unnar elduðum falskan grænmetishéra; falleg stund.
- Mér finnst eins og ég hafi hjálpað Begga og Dóru að flytja...
- Hanna færir mér plötur og viskí frá útlöndum.
-Fiskibollur hjá mömmu.
-Kaldi.
-Plötukvöld.
-Heimsóknir á Æsustaði; kaffi og rauðir baukar á góðum stundum.
-Unnur keyrði til Braga - sjálf.
-Tobbi og títla.
-Hjóltúr upp að Vatnsveitu og norður Kræklingahlíð.
-Loksins loksins gekk ég upp að Hraunsvatni.
-Var það í janúar sem við skruppum suður; skemmtilegt kvöld hjá magga karls; pizzur og krakkarnir í fimleikum á holinu.
-Landsleikur við Dani í blaki sem fram fór í Fjósinu; Ég, Guðjón og Magga hefndum 14-2 leiksins.
- kaffivaktin - Valdimar mættur fyrstur - mikilvægi þess að hafa kortér til að drekka kaffi og kíkja á netið fyrir fyrsta tíma.
-Ítalía um páskana, arineldur á kvöldin, eðluveiðar, Poppi, Speedminton.
Ég er því miður ekki jafn mælskur og Sigur Rósar menn og segja því bara mjóróma: Takk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.11.2007 | 15:12
Grímsi spá á þriðja borði í Doom.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2007 | 15:07
Madríd og nærsveitir - vel yfir sjávarmáli
Mig minnir að ég hafi tekið þessa mynd á leiðinni upp í fjöllin. Borgin er sjálf í sexhundruð metra hæð og hæstu tindar eru eitthvað yfir tvöþúsund metra háir.
Hér er skítkalt á nóttunni - en enn fer hitinn upp í 20 gráður á daginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2007 | 16:59
Að vera bjartsýnn
Ég er ekki bjartsýnn. Ég er svartsýnn. Mér líst mjög sjaldan á hlutina. Þegar ég byrja í nýrri vinnu líst mér ekkert á hana - en síðan rjátlast þetta af manni og oftast reynist vinnan fín.
Það er skynsamlegt að vera bjartsýnn - það gerir manni gott - á sama hátt og það gerir mönnum gott að trúa á guði. Það gerir mönnum gott að hugsa á jákvæðum nótum. En hver hefur áhuga á því að breyta rangt til að líða vel? Það á að líta reiður um öxl og mála skratta á veggi.
Ég hef verið mjög neikvæður upp á síðkastið. Betra hefði verið að vera jákvæður (look for the silver-lining), en fullkomlega fjarstæðukennt.
Núna leiðist mér Spánn eins og ég hef kynnst landinu. Í því felst engin alhæfing og ég áskil mér rétt til þess að heillast að landinu á morgun. En hingað til hef ég bara kynnst þreytulegu vestrænu samfélagi sem er að éta sjálft sig. Hér er kaupgleði meiri en á Íslandi og hér er vinnuvikan ein sú lengsta í Evrópu. Börn eru afgangsstærð; feit fyrir framan sjónvarpið.
Auðvitað er ég bitur: mér hefur ekki tekist að kaupa mér vini, en spjalla stundum við einn af húsvörðunum sem virðist vera vitur maður. Hann er einn af þeim sem getur alltaf botnað setningar þegar mann skortir orð - og það er ekki svo sjaldan.
Auðvitað bjóst ég við flamenco í portinu, sangríu í stigaganginum, matarboðum með nágrönnunum, vatnsslag með ræstingakonunum. Að börnin lærðu spænsku á mánuði, ég á tveimur, að við fyndum dásamlegan veitingastað í gamla bænum þar sem við ættum okkar borð og yrðum alltaf leyst út með snöfsum. Auðvitað bjóst ég við að maður yrði með, hluti af einhverju. En svo er ekki.
Kannski er maður í hringiðunni miðri, kannski fer þetta að detta inn. Kannski er maður óþolinmóður. En kannski eru útlönd ekkert spennandi og fólk almennt séð á niðurleið og hvergi lengur hægt að fá almennilegt kaffi og almennileg viðmót nema kannski í bökunardeildinni í Ikea.
Nei, djók. Þetta er fínt. Djöfulli fínt. Maður þarf bara að vera bjartsýnn, ha! Vera bjartsýnn - það er svo mikið svoleiðis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2007 | 16:37
Lasleiki
Við Grímur höfum verið veikir frá því á mánudag og hvorugur haft orku til að blogga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 10:28
Dauði rokkstjörnunnar
,,Rokk er betra en full-time-djobb" sungu Kamarorghestarnir og ég viðurkenni að hafa tautað þessa setningu oftar en einu sinni á leið í kennslu í fyrsta tíma á mánudegi. En fáir myndu segja að rokk væri hollt. Hollt rokk er líka vont rokk; sbr. Sting og fleiri sem orðið hafa hollustunni að bráð.
Jim Morrison, Jimi Hendrix, Mick Jagger og Rod Stewart voru allir miklir rokkarar sem dóu ungir. Einhverjir þykjast kannski hafa séð og heyrt tvo þá síðastefndu á undanförnum árum, en það eru ekki þeir. Sorgleg örlög þeirra hafa aldrei farið hátt og hvort um er að ræða samsæri plötuútgefenda eða eitthað annað skal ósagt látið.
Árið 1972 var frábært ár hjá Mick Jagger og Rod Stewart. Stones gerðu meistarastykkið ,,Exile on main street" (hver kannast ekki við gæsahúðina sem fylgir slagaranum ,,All down the line") og Roddarinn ,,Never a dull moment". Þar sem finna má tímalaus sönglög á borð við ,,You wear it well".
En fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá. 20. desember 1972 var mikill örlagadagur í lífi Micks og Rods. Dagurinn byrjaði vel; þeir röltu sér niður á Oxford Street og inn á Brian's Inn sem var uppáhaldsstaður þeirra beggja. Þeir pöntuðu sér beikon, egg og crumpets og rótsterkt te úr Jórvíkurskíri. Þeir vöfðu sér nokkrar sígarettur á meðan þeir flettu í gegnum íþróttasíður The Guardian. Mick ætlaði að kaupa nokkrar jólagjafir þennan dag og Rod var að hugsa um að kíkja á leik.
Þeir báðu um reikninginn, skjölluðu þjónustustúlkuna, án þess þó að vera ruddalegir og gengu út í rakan kuldann. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst.
Mörgum árum síðar gekk maður inn á lögreglustöð í St. Albarns, sem er bær töluvert fyrir utan London. Maðurinn var illa til reika, tal hans var slitrótt og afar fjarstæðukennt. Lögregluþjónninn sem var samviskusamur með afbrigðum tók skýrslu af manninum jafnvel þótt hann vissi að saga mannsins væri óráðshjal vitfirrings. ,,A segist hafa verið staddur á Oxford Street þann 20. desember 1972 um klukkan 11.30 árdegis. Hafi hann séð tvo kunnuglega menn á gangi, klædda síðum mokkakápum. A heldur því fram að þetta hafi verið dægurtónlistarmennirnir Michael Phillip Jagger (Mick Jagger) og Rodney Stewart (Rod Stewart). A fylgdi þeim eftir um stund og segist hafa verið að bræða með sér að biðja þá um eiginhandaráritun. En áður en að því kom segir A að snögglega hafi dregið fyrir sólu og op hafi opnast í gangstéttinni og þar hafi tveir hvítklæddir menn birst og fylgdi þeim mikil birta. Annar þeirra var dökkur á hörund og hélt á gylltri gítarnögl á stærð við blævæng, hinn var fölur, með mikið dökkt hár og alskegg, ekki ólíkur Kristi. Þessir menn eiga að hafa ávarpað hr. Jagger og hr. Stewart með eftirfarandi orðum: ,,Komið og setjist í kringum eldinn, bráðum kemur höfðinginn með pípuna". A heldur því fram að mennirnir hafi í sömu andrá horfið ofan í opið og það síðan lokast með það sama. Undirritaður lögreglufulltrúi leggur ekki til að málinu verði fylgt eftir að svo komnu máli."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2007 | 13:17
Húsverðir hafa það skítt
Ég hef verið að spjalla við einn af húsvörðunum hérna. Flestir eru þeir frá Suður og Mið-Ameríku. Ekki eru þeir öfundsverðir. Þrátt fyrir ótal næturvaktir, helgarvaktir og allan pakkann þá eru launin ekki nema 1000 evrur. Einn sagðist leigja á 700 evrur. Sá er klukktíma að koma sér heim á daginn með strætó, lest og metró. Ef Spánn er fyrirheitna landið hvernig er þá lífið í Kolumbíu, Ekvador og Guatemala?
Það er ljóst í mínum huga að Ísland er eitt skásta land í heimi. Þ.e.a.s segja ef menn forðast Faxafen, Smáralind, Kfc, ofurflatskjái, yfirvinnu, ofát, jólastress, ættarmót og kvennafar. Við skulum orða það svona: það er magnað fyrir fullorðið fólk með nóg af seðlum að velta sér upp úr hákúltúr og hágæðavínum í Madrid. En börnin hafa það held ég ekkert sérstaklega gott hérna. Báðir foreldrar vinna úti og vinnudagurinn teygir sig oft langt fram á kvöld. Og allt er hættulegt, það eru örugglega 10 ár síðan spænskt barn lék sér síðast úti; best að setja krakkana fyrir framan skjáinn með flöskujógurt og sætabrauð; það er öruggast. Enda eignast Spánverjar fæst börn í Evrópu, að ég held.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2007 | 13:03
Eiður blessaður
Ég settist niður á knæpu og fékk mér öl og vindil til að fagna endurkomu Eiðs í boltann. Og mikið stóð hann sig vel. Daginn eftir gat maður síðan lesið um leikinn í einum sex blöðum og notið þess að lesa hrósið um hann. Annars gengur mér vel í fótboltanum. Við Unnur tókum leik hér í portinu á móti einhverjum krökkum og sigruðum frekar auðveldlega. Unnur er afar efnileg; hún hleypur eins og Henry og er tapsár eins og Þórður Guðjóns. Hún talaði í tvo daga um mark sem var dæmt af henni og vildi að ég færi og segði krökkunum að það hefði verið gilt (tveimur dögum síðar).
Ég hef alltaf þá staðreynd í huga að ég eigi eftir 3-4 góð ár eftir sem atvinnumaður, hugsanlega fleiri þar sem ég er nokkurn veginn óslitinn. Eins og rjómlitaði Diesel-Bensinn sem ég lærði á. Árgerð 1972; stabíll andskoti. Merkilegt hvað 1972 er fullkomið ár. Eigum við að ræða það eitthvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2007 | 19:29
Amrískt jórturleður - ungdómurinn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)