Færsluflokkur: Bloggar
21.5.2008 | 17:58
Getraun part deux og fleira
Nú er allt að verða vitlaust. Orri var mjög nálægt því að koma með rétt svar. Hann notaði sömu aðferð og í fyrstu haustprófunum í læknisfræði - þá virkaði það - ekki núna.
Fleiri vísbendingar.
Þetta stendur aftan á bókinni:
"Un crimen. Varios desaparecidos. Muchos rumores. Ninguna explicación racional. El secreto de este libro se esconde en lo más profundo de la tierra."
Annars auglýsi ég eftir ferðalöngum og samferðamönnum í sumar. Við verðum á Akureyri mest allan ágúst og stefnum á að ganga Fjörður og fara í lengri og styttri gönguferðir. Það væri til dæmis ekki ónýtt að láta leggjalanga Norðmanninn stika á undan yfir skriður og stjórfljót og kanna allskyns hættur sem á vegi manns verða. Hann kann líka skyndihjálp, held ég. Eins ef einhver ætlaði vestur, værum við til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2008 | 13:53
Fig-Rolls, saltfiskur og snobb
Ljótar tungur segja að bara gamalmenni borði Fig-Rolls. Svei ykkur.
Jói Billason og Hildur spúsa hans voru hér yfir helgina. Þau eru annars á spænskunámskeiði í Burgos, sem er ca. 2 tíma héðan. Þau eru svo lukkuleg að búa inni á Spánverjum og virðast vera að fá Spán beint í æð - öfugt við okkur sem búum á íslenskri eyju hér í Madríd.
Hanna gerðist svo fræg að sjá Madríd að kvöldlagi er hún fylgdi Jóhildi um bæinn síðasliðið föstudagskvöld. Vel af sér vikið. Og daginn eftir fóru þau á Prado og náðu að vera á undan múgnum sem réðst inn um hliðið eftir siestuna.
Annars bara þokkó - skil reyndar ekki dræmar undirtektir við getraun - þetta hlýtur að fara að koma.
Keypti íslenskan saltfisk áðan í Carrefour - spurning um að bræða smjör og taka vel á því í kvöld.
Það er ekki þverfótað fyrir íslensku grobbi í spænskum blöðum - eða kannski frekar undarlegri aðdáun spánskra á þessu skeri. Nú var það heilmikil umjöllun um þessa matarhátíð þarna, Food and fun og hvað allt var ferskt og dásamlegt og yndislegt. Það fylgir aldrei sögunni í þessum greinum að hlutir sem þessir eru bara fyrir ríka eða veruleikafirrta og venjulegur Spánverji myndi aldrei 10-15 þúsund kall fyrir 3 skreytta matarbita og lögg af rauðvíni. Almennt séð finnst mér heimskulegt að fara út að borða á Íslandi og verðið nánast alltaf út úr kú. Fyrir utan þetta er Ísland besta land í heimi og við þurfum ekkert að þykjast vera einhver gourmet-þjóð. Amma og afi í Norðurgötu áttu þýskan kunningja sem kom til Íslands á stríðsárunum og heimsótti þau síðan af og til áratugina á eftir. Þetta var stórfrægur prófessor í norrænum fræðum, hvort hann var ekki við Kielar-háskóla. Amma og afi fóru held ég aldrei út að borða og þýska prófessornum fannst ekkert að því að fá nýveiddan silung, kartöflur úr garðinum - skyr, bláber og rjóma í eftirmat og Braga á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2008 | 09:38
Myndir og fleira
Einhver uppgjafartónn er í mönnum varðandi getraunina. Ég skora hér með á Valdimar Gunn að svara þessu. Kannski eru það verðlaunin sem ekki þykja nógu spennandi. Hér eru því ný og betri verðlaun; viskí fyrir rétt svar (nú vakna sumir).
Hér eru nokkrar myndir frá síðustu helgi þegar Örrinn var í heimsókn:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.5.2008 | 09:13
Hlutirnir
Rúmlega hundrað á eru liðin frá því að afi Magnús leit dagsins ljós í torfbæ í afdalnum Djúpadal árið 1907. Þessi pæling fjallar annars lítið um hann. Á hundrað árum hefur afstaða okkar til hlutanna breyst ansi mikið - reyndar á síðustu 20 árum. Fyrir einhverjum árum voru hlutir sjaldgæfir, dýrir, eftirsóknarverðir og bar að fara vel með, eins og það var kallað. Ef fátækt snýst um að fara vel með þá sýnist mér ríkidæmi aðallega snúast um að fara illa með og henda sem mestu. Og hér kemur Kína til sögunnar.
Margir hlutir hafa verið keyptir þetta síðasta ár á Spáni; óumflýjanlega og flýjanlega. Handklæði og mublur, tölvur og matchboxbílar, föt og skór; allt framleitt í Kína. Mér finnst ástandið kristallast í Ofur-sportbúðinni Decathlon sem er á stærð við 3 stærri gerðir af Hagkaupum. Þar fæst allt sem tengist íþróttum allt frá golftíum (skrifað svona?) til kajaka. Hver hlutur hefur á að giska tíu verðmiða; þ.e. þú getur fengið bolta á 3 evrur og upp í 100 evrur. Stuttbuxur á 3 evrur og upp í 50 evrur, og so videre. Það er sem sagt alls staðar allt fljótandi í drasli. Í ástandi sem þessu hættir fólk að vanda sig við innkaupin og þið barnafólkið, kannast einhver við fataskáp sem þennan: 6 flíspeysur, 4 húfur, stakir sokkar í hrönnum. Og síðan er krakkinn alltaf í sömu flíspeysunni.
Getur einhver bent mér á krakka sem náð hefur að slíta flík á síðustu tíu árum?
Fyrir einhverjum árum kom upp ný, einkennileg og óþægileg staða - ég held meira að segja að heimsmynd sumra hafi gliðnað. Þá hættu menn að stoppa í göt. Þá var sagt að það borgaði sig ekki. Ég held að samfélög sem hætta að stoppa í göt og henda frekar og kaupa nýtt endi úti í móa. Mér finnst allavega eitthvað skrýtið við þessa hringrás: kaupa föt frá Asíu, setja hluta þeirra aftur í gám og senda til baka í góðgerðarskyni.
Ég ætlaði í hjóltúr um daginn - en komst að því að dekkið hafði sprungið. Ég fór því í Decathlon til að kaupa bætur og lím. Komst þá að því að það var dýrara að kaupa bætur og lím heldur en nýja slöngu.
Maður kaupir allt of mikið af helvítis drasli. Það þarf líka sterk bein til víkja sér undan auglýsingum og markaðsherferðum.
Það er list að kaupa hluti. Það fylgir því góð tilfinning að kaupa rétt og áralangt óbragð fylgir vanhugsuðum kaupum.
Fyrir tíu árum keypti ég mér vandað og frekar dýrt fjallahjól. Þetta var í Lúxemborg og alltaf veitir það mér gleði að sjá blátt stellið og glansandi teinana.
Fyrir tíu árum gaf mamma (ég held ég sé ekki að ljúga) mér bláan adidas-íþróttagalla; þið vitið alltaf að því austurþýski markmannastíllinn. Eins og nýr.
Uppáhaldsbolurinn hans Gríms, 10 ára gamall fótboltabolur af Árna bróður. Aftan á honum er prentað nafn Jari Litmanens. Man einhver eftir honum?
Síðasta haust keypti ég ódýran hraðsuðuketil í Carrefour - í framtíðinni ætla ég að velja honum stað í stássstofunni sem tákn fyrir vond kaup.
Ég held ég sé ekki beint nískur en stundum grípur mig aðskilnaðarkvíði þegar peningar eru annars vegar... Þeir eru jú takmörkuð auðlind og "það skiptir máli að velja rétt." Að kaupa vatn á flöskum finnst mér hrein skelfing og óbragðið er skelfilegt. Ljúft er hins vegar að kaupa sér brakandi ekta vínil með Miles Davis eða Megasi; helst notaðan.
En allt sem ég vildi sagt hafa er bundið í þessari hendingu:
"Sú er ástin heitust sem bundin er meinum, er því best að eyða ekki neinu."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2008 | 06:44
Getraun - vegleg verðlaun í boði
Nú verður kynntur til sögunnar nýr liður á bloggi þessu: Bókmenntagetraun Bósa. Vegleg verðlaun verða í boði og svona hljómar fyrsta getraun:
Úr hvaða bók er þessi stutti kafli? (verðlaun: gisting fyrir einn í eina nótt í Boadilla del Monte, Madrid - plús kaffi og churros).
(spænskir stafir eitthvað afbakaðir)
"A finales del anjo anterior había trabajado para unos alemanes muy ricos que le habían pagado espléndidamente, y si hubiera tenido una pizca de sentido común habría utilizado el dinero para aligerar la hipoteca de la casa. En lugar de eso, se lo había gastado en una caravana y un todoterreno."
Verðlaunahafinn er sá sem fyrstur setur rétt svar inn á athugasemdir.
Góðar stundir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2008 | 17:47
Að keyra og fleira
Mér þykir frekar leiðinlegt að keyra. Ég man eftir einu skipti þar sem mér þótti gaman undir stýri - þá var ég að keyra vestur Miklubraut á leið í próf að mig minnir. Þá verður mér hlustað á epíska rokkslagarann Love spreads með Stone Roses og sjá, bic-penninn breyttist í kúbuvindil, þakið á justy sópaðist af og Tanngarður varð hvítt mansjón á Malibú. En stemningin var fokin um það bil til móts við Odda.
Oft hefur mér þótt leiðinlegt að keyra til Akureyrar, oftar þó til Reykjavíkur. Leiðinlegast er þó að keyra til Keflavíkur klukkan fimm að morgni í rigningu. Ekkert er leiðinlegra en það. Við Villi Mexíkani tókum eitt sitt Greyhound-rútu frá Washington til Toronto. Það var langt ferðalag og sætin í rútunni voru með þeim ósköpum að ná einungis upp að öxlum - svefn var því ekki á boðstólnum.
En hvað er maður að væla? Ég tók mann tali sem sinnir leiðinlegasta starfi í heimi með bros á vör. Hann er öryggisvörður við innkeyrsluna inn í hverfið. Hann situr í bíl eða stendur við bíl eða bónar bíl eða les blað eða talar við húsvörðinn - allan daginn. Það er ekkert að gera. En hann virðist vera í fínu skapi. Hann er frá Rúmeníu og sagðist ætla að vera hér í kannski 2 ár í viðbót og halda síðan heim á leið. Hann hefur búið á Spáni í 10 ár og fer mánuð á ári til Rúmeníu. Keyrandi! Ef ég hef skilið hann rétt þá eru 3000 km til Rúmeníu. Almáttugur minn og maður vælir yfir því að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Börnin eru að verða fullnuma í spánska júróvisjonlaginu þetta árið; chiki-chki. Enda er það prýðilegt lag þar sem farið er yfir spánska samtímasögu í 5 erindum á þremur mínútum.
Örri bróðir er í heimsókn, ég er búinn að taka tennisolnbogann af hillunni. Örri stóð sig vel í morgun og er í mikilli framför. Í gær fórum við í fótbolta með perúska grænmetissalanum og Örri fékk fljótlega viðurnefnið Guti enda töluvert líkur þeim ágæta Madrídingi. Ég var kallaður Maradona og veðraðist allur upp - var samt ekki að skilja af hverju þeir glottu svona mikið. Er Maradona ekki bestur?
Mikið var Ólafur Stefáns góður í gær - þvílíkur dásemdardrengur; hógvær og vinnusamur - þeir eru ansi ástfangir af honum í Ciudad Real.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.5.2008 | 17:19
Eitt og annað
Nú er kallinn farinn að þekkja Spán aftur - ef einhver hélt að Þjóðverjar væru þjóð pappírsvinnu, formsatriða og almennrar skriffinnsku þá er Spán þjóð þjóðanna í þessum efnum. Eitthvað var farið að snjóa yfir minningar frá síðasta sumri þessu tengdar - en í gær og í dag hafa minningarnar fengið nýtt líf. Þetta tengist eilífri leit minni að málaskóla hér í nágrenninu sem loks virðist vera að bera árangur. Ég frétti af fyrirbæri sem heitir Escuela oficial de idiomas og er á vegum ríkis eða bæjar - og það besta er að hann er ekki dýr. Flest hverfi eru með útibú, nema bærinn okkar. Hins vegar er ekki langt að fara til Las Rozas og þar má sjá mig þessa dagana í fullri vinnu við að fylla út eyðublöð og vesenast. Hugsa sér, maður er að fara á námskeið til að læra mál og í hendur fær maður eyðublöð á stofnanaspænsku með smá dassi af spænskum súrrealisma. Að komast á námskeiðið tekur allavega 7 skref; fá eyðublöð, fara í banka og borga fyrir stöðupróf (ekki sama hvaða banka, og alls ekki hægt á staðnum), skila eyðublöðum og NB staðfestingu á amk 8 ára grunnskólanámi (er Sverrir Páls enn á lífi?), síðan er eitthvað lotterí um það hver fær inni, svo þarf að mæta á staðinn og skoða listann, svo er stöðupróf, svo þarf aftur í banka og svo og svo. Sami prósess er síðan hjá börnunum, en í sumar er boðið upp á leikjanámskeið og slíkt niðurgreitt og fínt hjá bænum. Vesenið er bara svo mikið að helst vildi maður troða öllum eyðublaðahaugnum upp í trantinn á vesalings fólkinu.
Ég keypti mér línuskauta um daginn - líst vel á sportið. Mig grunar nefnilega að lykillinn að þindarleysi Nafna Valsteins sé þetta sport. Í þessum orðum töluðum eru krakkarnir einmitt úti á þessháttar skautum.
Í blokkinni er töluvert um það að krakkarnir séu "grounded" eða "castigado" og fái þá ekki að fara út. Ekki veit ég hvað börnin hafa gert af sér en eitthvað finnst mér refsing sem þessi virka gagnslaus.
Ég er aftur farinn að þýða kvikmyndir og fleira - var búinn að gleyma hvað það er fínn starfi - í hófi.
Og já, við fórum í fína ferð upp í fjöllinn og hittum íslenska og spænska kunningja. Fjallþorpin hér í kring eru fræg fyrir smágrísi og lömb (3-4 vikna) - sérlega gut. Tékkuðum líka á La Granja sem er sumarhöll kóngafólksins með allmiklum og merkilegum garði.
Ein pæling:
Hvað er maður (það er ég)? Þetta er erfið spurning og eins og staðan er í dag, stend ég á gati. Er ég kennari? Er ég húskarl? Er ég þýðandi? (Er ég þulur?) Er ég atvinnulaus? Ég held ég hafi fundið svarið í gær. Svar sem rímar vel við frekar brotna sjálfsmynd. Nú svara ég þegar fólk spyr: ,,Hvað gerir þú?" ,,Ég er atvinnulaus atvinnumaður í fótbolta." Reyndar hef ég aldrei fengið borgað fyrir að spila fótbolta, en ég lít á mig sem atvinnumann í fótbolta, og það hlýtur að teljast tæknilegt vandamál að vera ekki í vinnu á þessari stundu. Helst myndi ég þó vilja vera handar- eða hné fyrirsæta. (Mig minnir að Guðmundur Hreiðarson fyrrum markvörður hafi verið handarfyrirsæta - hann var höndin sem smurði brauðið, skar laukinn, lyfti dósinni o.s.frv.) Hnéfyrirsæta. Hugsa sér. Alltaf þegar þarf að auglýsa krem, eða hnéhlífar eða plástra þá yrði kallað í mig og ég fengi 40.000 kall fyrir tveggja tíma vinnu. Eða rassafyrirsæta. Eða.
Í hverfinu okkar er allt að gerast. Haldiði að Maradona hafi ekki mætt á æfingu hjá Atletico (rétt hjá okkur) til að fylgjast með tilvonandi tengdasyni. Já, þessir gömlu góðu eiga ekki í vandræðum með að drepa tímann: Maradona, Gasgojn og ekki leiðist nú honum Ronaldo í meiðslunum sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.5.2008 | 09:20
Vor, vor!
Mér varð hugsað um Noreg og þá er stutt í Vorveg - eða bara vor.
"Í þessari ritgerð ætla ég að skrifa um vor. Vor eru eiginlega í öllum löndum, nema sumstaðar. Allir eiga vor eða hafa átt vor. Einu sinni voru til vormenn en kannski ekki lengur. Vor var líka einu sinni notað sona: "Forseti vor" en það er ekki svona árshátíð, eða, þú veist... það er meira sona minn. Kýr fara oft út á vorinn. Það þikir þeim gamann. íslensk vor eru skrýtin. Þau eru stundum vetrar. Það var mjög gaman að skrifa þessa ritgerð og ég lærði mikið á að skrifa þessa ritgerð."
Þegar ég var lítill kom vorið oft á sunnudögum. Þá höfðu skaflarnir náð að hörfa nægjanlega mikið til að hægt væri að fara í fótbolta uppi á malbikinu við Lundarskólann. Minnisstæðir eru vorleikir á Sanavellinum sem sáu þvottavélum bæjarbúa fyrir verkefnum dögum saman.
Þegar ég lét munstra mig á togara sem óharðnaður skólapiltur og síðar háskólanemi náði maður oft svokölluðum stubbi fyrir sjómannadag. Þ.e. stuttum túr eftir að skóla lauk á vorin. Og á þessum stutta tíma hafði vorið laumað sér upp í tré og runna á Akureyri.
Eins og allir vita er oft á tíðum gott upp úr sjómennskunni að hafa en fæstir myndu segja að vinna um borð í frystitogara væri skemmtileg. Einungis eitt var skemmtilegt. Að sigla inn Eyjafjörðinn að loknum góðum túr, verandi á frívakt, það er sól og maður er nýrakaður og þetta er sama tilfinning og verandi á leið á ball. Akureyri nálgast - taskan er klár - gramsið tekur í. Adios.
Um daginn var spænskur vinnufélagi Hönnu í smá heimsókn og hann spurði hvort við þekktum eitt og annað í spænskri menningu og nefndi mann að nafni Georgie Dann, en hann ku vera/hafa verið einhvers konar vorboði sem kom með vorlag á hverju ári. Eitthvað kannaðist ég við þetta fyrirbæri. Sálin og Sólin sáu okkur fyrir vorundirspili árum saman. En allavega þessi Dann þykir kannski ekki flottur - kannski flottur í menntaskólahúmorsmerkingunni. Eitt af hans frægustu lögum heitir La Barbacoa eða "Grillið" í lauslegri þýðingu. Fyrsta erindið er svona:
"Este Domingo con todos los amigos
nos vamos para el campo a comer la barbacoa.
Y nos reunimos con un montón de gente
hacemos nuestro ambiente y una linda barbacoa. "
(í sveitina fer ég á sunnudaginn
með vinum mínum að borða grillmat.
Og við hittum fullt af fólki
í góðum fíling í grillstuði)
Ég lenti í smá erfiðleikum með síðustu línuna en þið náið merkingunni.
Hugsanlega grilla menn bara úti í sveit - ég sé engin grill hér á svölum og engin er kolaanganin. Einhverju sinni var ég í útilegu og hvort menn höfðu ekki skipt eitthvað með sér verkefnum; einhver ætlaði að koma með lamb, einhver eftirmat, ég ætlaði redda humar í forrétt. Humarinn kom úr kistunni í Jörvabyggð þar sem hann var geymdur í kjörísboxi - og auðvitað tók ég kjörísbox orginial og bauð upp á heitan ís í forrétt.
í dag er spáð 23 stiga hita og 30 á sunnudaginn. Þetta er erfitt líf.
Ég væri alveg til í pylsu með öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2008 | 10:18
Af Noregi
Ég held það hafi verið M.Teitsson sem benti mér á afar sérkennilega söguskoðun í einu af lögum Bob Marleys. Maður lærði í skóla að gyðingar hefðu krossfest Krist og Hallgrímur Pétursson fjallar töluvert um þetta og það var vandaður maður. Í laginu So muchs things to say af plötunni Exodus segir Bob Marley aðra og töluvert átakanlegri sögu af síðustu augnablikum frelsarans - í hans meðförum eru það ekki gyðingar sem hengja frelsarann upp heldur Norðmenn, af öllum þjóðum! Þar segir hljóðrétt:
"But I'll never forget Norway: they crucified Jesus Christ" Ég hló að M.Teitssyni þegar hann sagði mér þetta og vísaði vitleysunni á bug. Hlustaði síðan á textann og viti menn, þetta er laukrétt. En hvað fær jamakískan söngfugl til að syngja um meintar misgjörðir Norðmanna árið 1977? Er þarna einhver hulin merking? Ádeila á olíugróða? Er þetta kannski vísun í morðið á Höskuldi Hvítanesgoða eða jafnvel Njáli í brennunni. Var Bob Marley sérfróður um Íslendingasögurnar? Þetta verður að teljast heillandi viðfangsefni fyrir fræðimenn.
Ég skil ekki Noreg og samband Íslendinga við þetta "móðurland" sitt. Bandaríkjamenn af írskum ættum virðast halda rótunum frekar á lofti en hitt og lyfta þeim hátt á Patreksdegi svo moldin feykist um bari og borð svo Budweiserinn tekur á sig blæ og lit Guinnessbjórsins. Ég hef aldrei hitt nokkurn sem var stoltur af þessum tengslum við Norðmenn og aldrei hef ég hitt neinn sem sá nauðsyn í því að heimsækja upprunalandið - enda þótt að flestir séu sammála um að Noregur sé eitt fallegasta land í heimi. Einhverjir læknanemar og útgerðarmenn dveljast lengri eða skemmri tíma í Noregi en þeim þykir svo sem enginn frami í því. Hvernig stendur á þessu? Íslendingar skreppa helgi og helgi til Kaupmannahafnar. Höfum við eitthvað gott að segja um Dani? Ég trúi því ekki að 700 króna bjór á Strikinu sé svona spennandi. Af hverju skreppur enginn til Oslóar eða Bergen?
Annað um Norðmenn. Kannski er það tilviljun en á skrölti mínu um háskóla í Þýskalandi rakst ég aldrei á Norðmann. Maður hékk með Svíum og Dönum og vissi af einhverjum Finnum en hvergi sá ég Norðmann. Leiðréttið mig endilega, ég held ég þekki engan Norðmann persónulega.
Hins vegar má ekki gleyma öllu því sem Norðmenn hafa gefið okkur á sviði menningar og lista, íþrótta og afþreyingar: Knut Hamsun og Odd Nerdrum, Dimmu Borgir og kjellinn sjálfur Jon-Arne Riise...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)