18.9.2007 | 18:58
Neikvæði útlendingurinn 1
Gerði mér ferð í bæinn í dag, en það er hálftíma ferðalag með Metro ligero (sem er sporvagn) og alvöru metró (sem er jarðlest). Nú. Ég byrjaði á því að heimsækja bókabúðarundrið FNAC, þar sem allt er til. Fann germanska hreyfimynd í litum á fínasta tilboði. Þetta er mjög fræg og marglaunuð mynd sem heitir í spænskri þýðingu La vida de los otros, engir frægir leikarar en ég ætla samt að horfa á hana í kvöld. Nú. Til að gleðja hitt fólkið á heimilinu datt mér í hug að kaupa aðra stórfræga mynd sem heitir Sound of Music. Ég fór því á info-diskinn og spurði um þessa mynd ,Sound of Music. Afgreiðslukonan var eitt stórt spurningamerki, nei, tvö, svona spænsk bæði í bak og fyrir. Þekkir ekki hvert mannsbarn þessa vesalings mynd? Á sama hátt og allir kannast við Microsoft, Elvis og Paris Hilton? Fuss! Sem ég fer burt í fússi verður mér litið í einn rekkann. Sé ég þá ekki Júlíu Andrésar með opinn faðminn! Og hvað heitir myndin (Þorgrímur Þráins má passa sig). Sonrísas y Lagrimas. Sem mér skilst að þýði Bros og tár. Skammist ykkar Spánverjar.
Athugasemdir
Já, tungumálin. Við Jónas kennum nú UTN saman á ný og skemmtum okkur sífellt yfir einhverjum bröndurum sem nemendur ýmist ekki skilja eða hafa húmor fyrir. Jónas sýndi nemendum myndir í dag af dansk/tyrkneskum gluggamatseðli þar sem í boði voru chess-burgers og hussets spiciale meðal annars. Ég reyndi að bæta um betur og sagði nemendum að tölvurnar okkar, úreltar IBM vélar frá HA, væru danskar og að IBM stæði fyrir ikke brugbare maskiner, en enginn hló. Ekki nema ég þegar ég sagði minn brandara og Jónas þegar hann sagði sinn.
Guðjón H. Hauksson, 18.9.2007 kl. 21:39
Þarna var sannarlega Turk 182.
Magnús (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.