30.9.2007 | 19:45
Ummerki um Ísland
Maður er alltaf á útkíkkinu eftir Íslandi í útlöndum. Er þetta landi ekki til? Er ég ekki til? Við erum ekki á allra vörum, en það glittir í okkur hér og þar. Á bókasafninu er allavega ein bók eftir Guðberg (Faðir og móðir...), ég hef rekist á Laxness í nokkrum bókabúðum, Takk með Sigur ros í Media Markt, Björk á forsíðu einhvers menningartímarits og þótt Eiður Smári sé ekki í liðinu er hann alltaf í mynd þegar sýnt er frá æfingum Barcelona. Það bera að þakka fyrir það.
Ég bjó í Heidelberg veturinn 1992-1993 og ég held að ég hafi verið mjög leiðinlegur. Uppfullur af leiðinda þjóðrembu - meira gefinn fyrir það að segja frá meintum afrekum þjóðar minnar heldur en að fræðast um aðrar þjóðir og þeirra ágæti. Ég gaf meira að segja kunningja mínum disk með Sálinni í afmælisgjöf og ætli maður hafi ekki reynt að troða hákarli og brennivíni upp á blásaklaust fólk og ætli maður hafi ekki farið til Stuttgart til að sjá Eyjólf Sverris spila og ætli maður hafi ekki sagt frá Hófí og Jóni Páli, þorskastríðunum og Guðlaugi, drykkjuþoli og sviðum.
Nú er maður vitrari. Mér nægir að sjá glitta í Ísland hér og þar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.