Heilaþvottur sem nær hálfa leið

Þegar ég var unglingur og ungmenni þótti skoska veitingahúsakeðjan MacDonalds bara fín. Allavega var það þannig í hugum flestra Íslendinga. Á ferðalögum í villimannalöndum átti MacDonalds að vera örugg höfn; þar fengi maður ekki matareitrun etc. En Íslendingar hafa aldrei verið snöggir að stökkva upp á gagnrýnisvagna.

Ég viðurkenni það fúslega að hafa snætt nær daglega á Mac í útskriftarferðinni góðu haustið 1991.

En næsta áratuginn fóru að berast allskyns fréttir af óvönduðum vinnu- og bellibrögðum Skotanna og maður fór að efast um að borgarinn væri góðborgari.

Nú reynir maður að hafa það fyrir börnunum að þessir staðir Mac og Burger King séu svona lala. Það er í lagi að skreppa einstaka sinnum; ,,En krakkar, þarna á djöfullinn heima, ha".

Grímur lét eftirfarandi út úr sér í gær í óspurðum fréttum: ,,MacDonalds er er ógeð (þögn) en samt gott".

Ég veit reyndar ekki hvort hann hefur borðað á MacDonalds. En um daginn fórum við félagarnir á Burger King. Ég hélt reisn minni að mestu leyti; við keyptum borgara en sleppti frönskum og gosi... eða... já við slepptum frönskum. Þetta var þokkalegur borgari, alúðlegur afgreiðslumaður og ekki yfir neinu að kvarta. En að mínu mati var þetta allhversdaglegt. En seinna kom í ljós að Grími þótti þetta allmikil upplifun.

Tveimur vikum síðar erum við á gangi fyrir utan mollið sem hefur að geyma Burger King. Þá segir Grímur og bendir á rusladall nokkurn, all-hversdagslegan, og segir: ,,Hér henti ég ruslinu af hamborgaranum". Það voru liðnar tvær vikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já.

Stundum finnst manni eins og það sé lífsstíll að bölva McDonald. Þetta er náttúrlega hentugur og oftast ódýr skyndibiti í útlöndum, dálítið mikið af franskbrauði, fitu og mæjónesi, en McDonald hefur sjálfur aukið grænmetisúrval sitt og neyðir ekki alla til að borða bara hamborgara.

Ég hef fengið prýðisgóða hamborga hjá Donaldi í Suður-Þýskalandi og Austurríki og þar hef ég séð sérstakar til þess gerðar konur sem taka við matarbökkunum og sortéra ruslið nákvæmlega. Þar voru servétturnar 20% minni en annars staðar og ekki sett lok á gosglasið nema það væri borið út af staðnum. Matnum var pakkað inn í umbúðir úr endurnýttum pappír.

Ég hef einu sinni prófað rándýran McDonalds hamborgara á Íslandi og gat ekki lokið við hann. Þetta var að vísu ekki eins slepjulegt og viðbjóðslegt og Hlöllabáturinn sem ég keypti á Menningarnótt í Reykjavík fyrir 3 árum og fór nánast rakleitt í ruslið, en líktist því dálítið.

Besti hamborgari sem ég hef borðað fékkst á Burger King á Strikinu í Kaupmannahöfn sumarið 1980. Kjötmiill og bragðgóður og mátulega steiktur og maður gat sjálfur skammtað sér sósur og súrar gúrkur og alls kyns meðlæti. Nú er sá staður löngu aflagður.

svp (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 10:40

2 identicon

hmmm...kannast við þetta, hér neyði ég börnin mín að fá sér gulrætur eða eplabáta með borgaranum.  Það rennur samt ljúflega niður og allir eru sáttir.  Nú  svo flokkum við ruslið samviskulega  eftir matinn í þar til gerða rusladalla. Tryggjum þannig  að við fáum ekki sekt fyrir að flokka ruslið vitlaust, eins og gamla konan sem var gripin um daginn...hún setti gamla steikarpönnu fyrir framan einn ruslagáminn því hún vissi ekki hvað hún ætti að henda blessaðri steikarpönnunni.  Var gripin af ruslalöggunni og þurfti að borga 5000 kall fyrir vikið.

Brynja (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 06:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband