10.10.2007 | 18:09
Nautaat I
Undanfarna daga hafa verið hátíðahöld hér í bæ. Eitthvað sem tengist einhverri Virgen (já, einmitt) Rosaria. Hér er dæmigert sveitt og þreytt tívolí með kandíflossi og karrúseli - allskyns tónleikar og skemmtilegheit. Sjálfur er ég frekar andsnúinn miðstýrðri skemmtun og hef litla þörf fyrir að skemmta mér utandyra. Mín hugmynd um hina fullkomnu skemmtun er plötuspilari, plata, gin og tónik og kannski einn aðkeyptur vinur eða aðþrengd eiginkona. En nú er maður í útlöndum og maður verður að gera eitthvað, ha. Það verður að sjá hlutina og upplifa, ha.
Ég ákvað sem sagt að kíkja á þessa hátíð. Ég vissi að það ætti að fara fram einhvers konar afbrigði af nautaati sem heitir ,,Recortes" (held ég) og menn geta lesið sér til um einhvers staðar. Aðalmálið er það að nautið er ekki sært (stórt ?) og ,,nautabanarnir" eru margir og gera allskyns kúnstir (stökkva til dæmis yfir nautið) og síðan stendur einn bani uppi sem sigurvegari (hefur líklega fengið flest stig - ég hef ekkert vit á þessu).
Við drógum sem sagt krakkana grátandi framhjá hoppi / hoppuköstulum, kandíflossi og gasblöðrum þangað sem þau vildu ekki fara; á nautaat. Hringleikahús, steikjandi hiti, pöpullinn í Boadilla bergjandi á viskí í kók og framundan eitthvað diet-nautaat. Útvatnaður andskoti, hin stolta steik orðin að þreyttum hamborgara. Hvað nútíminn er leiðinlegur, hugsaði ég og geispaði.
Svo byrjaði ballið og ég verð að segja að mér stóð ekki á sama - og ég tuldraði í sífellu: ,,Þetta eru snarvitlausir menn". Þetta var nefnilega alvöru. Þarna var bullandi lífhætta á ferðinni. Krakkarnir skildu ekki þann þátt málsins og fannst þetta frekar leiðinlegt. En ég hef ekki verið jafn hress í langan tíma.
Mér skilst að þessi tegund nautaats sé á uppleið; enda verulega flott sýning. En djöfulli barbarísk. Eins og sjá má á myndinni eru menn tilbúnir með skurðstofuna ef eitthvað klikkar. Ef Unnar kemur í heimsókn datt mér í hug að við færum á nautaat og síðan á góðan grænmetisstað á eftir. Eitthvað fyrir alla.
Athugasemdir
Mér finnst að það eigi að velja "sjálfboðaliða" úr hópi áhorfenda til að vera nauta"bani".
Magnús (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 20:47
Bíðiði - er líka til nautnabani?
svp (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.