Dauði rokkstjörnunnar

,,Rokk er betra en full-time-djobb" sungu Kamarorghestarnir og ég viðurkenni að hafa tautað þessa setningu oftar en einu sinni á leið í kennslu í fyrsta tíma á mánudegi. En fáir myndu segja að rokk væri hollt. Hollt rokk er líka vont rokk; sbr. Sting og fleiri sem orðið hafa hollustunni að bráð.

Jim Morrison, Jimi Hendrix, Mick Jagger og Rod Stewart voru allir miklir rokkarar sem dóu ungir. Einhverjir þykjast kannski hafa séð og heyrt tvo þá síðastefndu á undanförnum árum, en það eru ekki þeir. Sorgleg örlög þeirra hafa aldrei farið hátt og hvort um er að ræða samsæri plötuútgefenda eða eitthað annað skal ósagt látið.

Árið 1972 var frábært ár hjá Mick Jagger og Rod Stewart. Stones gerðu meistarastykkið ,,Exile on main street" (hver kannast ekki við gæsahúðina sem fylgir slagaranum ,,All down the line") og Roddarinn ,,Never a dull moment". Þar sem finna má tímalaus sönglög á borð við ,,You wear it well".

En fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá. 20. desember 1972 var mikill örlagadagur í lífi Micks og Rods. Dagurinn byrjaði vel; þeir röltu sér niður á Oxford Street og inn á Brian's Inn sem var uppáhaldsstaður þeirra beggja. Þeir pöntuðu sér beikon, egg og crumpets og rótsterkt te úr Jórvíkurskíri. Þeir vöfðu sér nokkrar sígarettur á meðan þeir flettu í gegnum íþróttasíður The Guardian. Mick ætlaði að kaupa nokkrar jólagjafir þennan dag og Rod var að hugsa um að kíkja á leik.

Þeir báðu um reikninginn, skjölluðu þjónustustúlkuna, án þess þó að vera ruddalegir og gengu út í rakan kuldann. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst.

Mörgum árum síðar gekk maður inn á lögreglustöð í St. Albarns, sem er bær töluvert fyrir utan London. Maðurinn var illa til reika, tal hans var slitrótt og afar fjarstæðukennt. Lögregluþjónninn sem var samviskusamur með afbrigðum tók skýrslu af manninum jafnvel þótt hann vissi að saga mannsins væri óráðshjal vitfirrings. ,,A segist hafa verið staddur á Oxford Street þann 20. desember 1972 um klukkan 11.30 árdegis. Hafi hann séð tvo kunnuglega menn á gangi, klædda síðum mokkakápum. A heldur því fram að þetta hafi verið dægurtónlistarmennirnir Michael Phillip Jagger (Mick Jagger) og Rodney Stewart (Rod Stewart). A fylgdi þeim eftir um stund og segist hafa verið að bræða með sér að biðja þá um eiginhandaráritun. En áður en að því kom segir A að snögglega hafi dregið fyrir sólu og op hafi opnast í gangstéttinni og þar hafi tveir hvítklæddir menn birst og fylgdi þeim mikil birta. Annar þeirra var dökkur á hörund og hélt á gylltri gítarnögl á stærð við blævæng, hinn var fölur, með mikið dökkt hár og alskegg, ekki ólíkur Kristi. Þessir menn eiga að hafa ávarpað hr. Jagger og hr. Stewart með eftirfarandi orðum: ,,Komið og setjist í kringum eldinn, bráðum kemur höfðinginn með pípuna". A heldur því fram að mennirnir hafi í sömu andrá horfið ofan í opið og það síðan lokast með það sama. Undirritaður lögreglufulltrúi leggur ekki til að málinu verði fylgt eftir að svo komnu máli."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll!!

Skemmtileg saga. Mín kenning er sú að þetta hafi verið álfar. Þó ekki álfar út úr hól heldur gangstéttarhellu.

Kv, Unnar

Unnar (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 13:40

2 identicon

Niðurlag þessarar skráningar, Arnar, minnir mig á að einhver ágætur bráðungur íslenskur pípulagningamaður - að ég held Norðurlandameistari í þeirri list - er að fara á heimsmeistaramótið í pípulagningum. Þar keppir hann meðal annars í heitbeygingu á svörtum járnrörum. (!)

Sverrir Páll Erlendsson (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband