Að vera bjartsýnn

Ég er ekki bjartsýnn. Ég er svartsýnn. Mér líst mjög sjaldan á hlutina. Þegar ég byrja í nýrri vinnu líst mér ekkert á hana - en síðan rjátlast þetta af manni og oftast reynist vinnan fín.

 Það er skynsamlegt að vera bjartsýnn - það gerir manni gott - á sama hátt og það gerir mönnum gott að trúa á guði. Það gerir mönnum gott að hugsa á jákvæðum nótum. En hver hefur áhuga á því að breyta rangt til að líða vel? Það á að líta reiður um öxl og mála skratta á veggi.

 Ég hef verið mjög neikvæður upp á síðkastið. Betra hefði verið að vera jákvæður (look for the silver-lining), en fullkomlega fjarstæðukennt.

Núna leiðist mér Spánn eins og ég hef kynnst landinu. Í því felst engin alhæfing og ég áskil mér rétt til þess að heillast að landinu á morgun. En hingað til hef ég bara kynnst þreytulegu vestrænu samfélagi sem er að éta sjálft sig. Hér er kaupgleði meiri en á Íslandi og hér er vinnuvikan ein sú lengsta í Evrópu. Börn eru afgangsstærð; feit fyrir framan sjónvarpið.

Auðvitað er ég bitur: mér hefur ekki tekist að kaupa mér vini, en spjalla stundum við einn af húsvörðunum sem virðist vera vitur maður. Hann er einn af þeim sem getur alltaf botnað setningar þegar mann skortir orð - og það er ekki svo sjaldan.

Auðvitað bjóst ég við flamenco í portinu, sangríu í stigaganginum, matarboðum með nágrönnunum, vatnsslag með ræstingakonunum. Að börnin lærðu spænsku á mánuði, ég á tveimur, að við fyndum dásamlegan veitingastað í gamla bænum þar sem við ættum okkar borð og yrðum alltaf leyst út með snöfsum. Auðvitað bjóst ég við að maður yrði með, hluti af einhverju. En svo er ekki.

Kannski er maður í hringiðunni miðri, kannski fer þetta að detta inn. Kannski er maður óþolinmóður. En kannski eru útlönd ekkert spennandi og fólk almennt séð á niðurleið og hvergi lengur hægt að fá almennilegt kaffi og almennileg viðmót nema kannski í bökunardeildinni í Ikea.

Nei, djók. Þetta er fínt. Djöfulli fínt. Maður þarf bara að vera bjartsýnn, ha! Vera bjartsýnn - það er svo mikið svoleiðis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alltaf betra að hugsa jákvætt. Hugsanir hafa okkar hafa áhrif á það hvernig okkur líður. Neikvæðar til hins verra en jákvæðar til hins betra.

Þetta telja sálfræðingar í það minnsta og ég hef reynt á eigin skinni. Hins vegar hefur þetta verið bjagað mjög í höndum óvandaðra manna. Dæmi um það er bókin Secret þar sem fólki er talið trú um það að það geti sogað til sín alls konar fjármuni með hugsunum einum. Þá er Afríka væntanlega fátæk þar sem fólk er ekki einungis svart heldur hugsar líka á dökku nótunum.

Unnar (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 22:10

2 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Ég tek undir með Unnari. Góður puntkur með negrastrákana.

En ég ræð þér þetta: Einhvern daginn þegar þú ert dapur í sinni skaltu eigra inn á Plaza Major og fá þér eins og eina Sangriu við eitt útiborðið á meðan þú bíður. Hann birtist örugglega innan skamms, breiðir teppi yfir nokkra götusteina, fer úr skónum, tekur sér stöðu á teppinu, beygir sig lítið eitt í hnjánum og þegar hefur náð jarðsambandi horfir hann beint í augu þín, brosir hughreystandi og teygir til þín hægri hönd með lófann upp til himins og löngutöng beygða í átt til sín. Eftir drykklanga stund stendur þú upp, gengur til hans og rennir 45 sentum í annan skóinn hans. Að skilnaði réttir hann þér sleikjó.

Þá skaltu valhoppa heim og blogga um það hvað heimurinn er góður.

[Spiderman reynir hins vegar áfram að narra til sín litlu krakkana á torginu og finnur í skjóli búningsins dásamlegan kitling í hvert sinn sem eitthvert barnið teygir sig í átt til hans eftir verðlaununum...]

Guðjón H. Hauksson, 2.11.2007 kl. 09:39

3 identicon

Arnar, Vildi bara segja þér að þetta, það sem þú skrifaðir, það er alveg rétt. Er nú búinn að vera hér í Stavangri í tæp 3 ár og drepleiðist... á köflum. En svo eru bjartir punktar inn á milli. Og ótrúlegt nokk þá er einn þeirra hér einmitt kaffihús í miðbænum, Café France. Sá sem afgreiðir okkur oftast er maður á okkar aldri, hann á son á Ara aldri og gefur okkur stundum konfektmola og auka Latte-bolla. Svo þú ert á réttri leið... held ég(?!).

A þessu sögðu sé ég hvað það endurspeglar hve dapurleg menningin hér er. Þegar það eina góða á staðnum er innflutt! Og eins, að sá sem ég hef náð bestu sambandi við er franski þjónninn á kaffibarnum!

Heyrðu! Ég endurtek framansagt: Þetta, það sem þú skrifaðir, það er alveg rétt. Desean vivo la melancolía del otoño!

Orri (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband