4.11.2007 | 13:15
Diskótek heimavið
Maður er víst hættur að fara á böllin - liðin sú tíð að maður panti borð og sjóv í sjallanum, með asna, skrúfjárnum og dásamlegu óminni. Loksins hefur maður aðgang að ódýru brennivíni en áhugan vantar.
En af hverju að fara á ball þegar youtube er við hendina? Við Unnur skemmtum okkur dável í gærkvöldi; við spiluðum ABBA og Unnur var hrifin af þeim. Þá datt mér í hug að kynna hana fyrir undraheimum diskósins og spilaði hið epíska stórvirki Disco Inferno sem er mikil drápa byggð á samnefndu verki Dantes. Unnur var ekki hrifin. Síðan sýndi ég henni Bítlana; I'm the Walrus, ekki að virka. Síðan var það Sylvía Nótt, afar hugljúft og einstaklega fyndið allt saman. Ég missti mig aðeins í Stones og þá datt Unnur út.
Við tók Eurovision-ferðalag. Þá datt ég út.
Smá Elgar upp á stemninguna.
Og við fundum spænska snilldarlagið ,,Paco, Paco, Paco" með Encarnitu Polo. (skoðið og sannfærist)
Youtube-partí eru ódýr og tiltölulega hættulaus leið til að skemmta sér. Það þarf ekki að bíða í röð, ekki borga 700 kall fyrir bjór, ekki að öskra upp í eyrað á næsta manni, ekki að hlusta á ,,It's raining men" og ,,Sódóma", ekki að blæða fyrir taxa upp í Árbæ.
Best er samt að vera einn í Youtube-partíum því oft vilja leiðinlegir gestir skipta sér af tónlistarvalinu. Best að vera einn og blanda kokkteila og púa litla Montekristóa og deyja síðan ofan í eldhúsvaskinn.
Talandi um diskó. Fallegasta orð íslenskrar tungu hefur mér lengi þótt nýyrðið Vasadiskó. Ég ætla ekki að reyna útskýra það - það er bara þannig.
Í íslenskutíma síðasta vetur auglýsti ég eftir íslensku orðið fyrir fyrirbærið i-Pod. Besta tillagan kom auðvitað frá mér. Það er orðið æ-Pir (um æ-Pi, frá æ-Pi, til æ-Pis). Nú hef ég lítið verið á Íslandi að undanförnu. Mynduð þið segja að orðið hafi fest sig í sessi?
Athugasemdir
Ég hef ekki orðið vör við notkun á nýyrðinu þínu. Ég hef heyrt nokkra kalla Ipod lingafón, veit ekki af hverju en þetta er komið af sjónum.
Ég er hjartanlega sammála með heimapartíin. Mín útgáfa er samt aðeins öðruvísi því hérna í Snægilinu er komið þetta fína píanó í stofuna og nú eru haldnir "live" tónleikar á hverjum degi.
Guðrún (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 14:45
Lingafón? Er það eitthvað í anda við þegar Guðjón Bergmann reið húsum hér um árið? Nei þá væri það sennilega lingam-fón.
Orri (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 22:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.