Gott að gráta í sundi...

...því þá sjást tárin ekki;

 Gleðitárin.

Loksins lét ég reyna á öxlina sem hefur verið að plaga mig síðustu mánuði og kíkti í sundlaug þeirra Boadillinga. Sundlaug þessi er öll hin glæsilegasta; flísalögð og full af passlega heitu vatni.

Ég mætti með sundhettu og sandala eins og reglur kveða á um og synti og grét og grét og synti af gleði. Ég var einn með vatninu; ég var H, ég var 2, ég var O. Ég tróð marvaða, skreið og lét öllum illum látum (innAnímér).

Merkilegt með sundið. Lengi vel átti það ekki við mig. Árum saman stundaði ég pottana og leit ekki við laugunum. Ég gat synt 50 m skriðsund en var þá nær dauða en lífi (í rauninni kunni ég ekki að synda).

Ég veit ekki hver kveikjan var. En fyrir einum 4-5 árum fór ég á námskeið í skriðsundi hjá hinni eðalfínu ungfrú Ísaksen (sem kenndi í Brekkuskóla síðast þegar ég vissi) í Neslaug. Og þetta var dásemdin ein - eins og að læra að hjóla, eða standa á höndum - að læra einhverja tækni, ná tökum á einhverju. En eitt skil ég ekki. Af hverju lærði ég skriðsund þarna á sex vikum, en ekki á allri minni skólasundsgöngu? Vissulega var áhuginn meiri núna. En samt. Ungfrú Ísaksen fræddi mig reyndar um það síðar að nú væri mun meiri áhersla á skriðsund í skólum. Í mína tíð var líklega verið að vasast í of mörgu; flugsund má til dæmis missa sín.

Um svipað leiti og sundguðinn vitjaði mín var annar guð sem gerði sér dælt við mig; Guð showsundsins. Einn lygnan júnídag kom einn trúboða hans til mín og sagði: ,,Arnar, þú ert vondur, viltu lauga þig í kulblámanum og verða hreinn?" ég svaraði: ,,Já, Ásgrímur". Og ég gerðist trúboði og sagði: ,,Andri, vilt þú lauga þig í helspeglinum og verða frjáls?" ,,Já, Arnar" svaraði hann. ,,Hvað með sunnudaginn úti á Nesi?" Ókei. Síðan hef ég laugað mig með vinum og óvinvum í 7 gráðu heitum sjónum og oft höfum við grátið, grátið af gleði, en það er allt í lagi. (Nema þegar Ási sá sel).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrst þegar ég fór að synda í sjó sóttu oft á mig selahugsanir. Þá bægði ég þeim frá á svipaðan hátt og ég bægði frá mér draugahugsunum í gamla daga og endurtók með sjálfum mér í sífellu: "Selir eru ekki til, selir eru ekki til..." Það dugði mér þar til við sáum selinn. Þá áttaði ég mig á að selir eru ekki bara hugarórar sturlaðra sjósundmanna heldur raunverulegar verur. Þeir eru til - eins og þú fékkst líka sannreynt við Gróttu daginn örlagaríka.

Ási (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband