Samsæri Andlýsinga

Ljótt er þegar vinir manns reynast eitthvað annað en þeir eru og maður kemst að því að maður er bara peð í einhverju tafli, dropi í hafi, leiksoppur örlaganna. Nú veit ég hvernig Jim Carrey leið í myndinni góðu The Truman Show.

Við heimsóttum vini okkur í Andalúsíu um helgina og það var gaman, en í dag þegar ég er aftur kominn heim er ég farinn að átta mig á að það var of gaman. Hr. Karlsberg og fjölskylda settu upp leikrit.

9 atriði sem sanna að um tilbúning, leiktjöld og látalæti var að ræða þessa örlagaríku helgi.

1. Það eru hvergi til svona bæir, hvítkölkuð og skrýtin hús sem hanga utan í skógivaxinni hlíð. Þarna var fullkomið torg, fullkomin kirkja, fullkomið bakarí, göturnar of þröngar fyrir bíla.

2. Enginn hefur spánska strönd út af fyrir sig 9. nóvember í 25 stiga hita og ókunnir menn færa þér bjór og svarti  maðurinn falbjóðandi dýrindis Dior-sólgleraugu og nýjustu tónlistina á geisladiskum.

3. Það ,,vildi svo til" að á þorpstorginu var slegið upp hátíð einmitt þegar við áttum leið hjá. Glaðlegt fólk í hvítum skyrtum með græna klúta; grillað sjávarfang, bjór og rauðvín flæðandi út um allt.

4. Barþjónarnir voru einum of kurteisir og skrýtið að þeir skyldu kveðja mig með nafni, grátandi.

5. Bjór kostar ekki eina evru.

6. Við höfðum gervisgrasvöll, tennisvöll og körfuboltavöll út af fyrir okkur. (Eitthvað hefur kostað að leigja þessa aðstöðu í þrjá daga).

7. Heima hjá hr. Karlsbergi hékk kort af Spáni og vissulega fannst mér skrýtið að bæinn þeirra var hvergi að finna. Hr. Karlsberg sagði að þetta væri úrelt kort og reyndi að eyða talinu en ég sá að það var frá árinu 2006.

8. Þegar ég kom heim í gær reyndi ég að finna upplýsingar um bæinn á vefnum og komst þá að því bærinn er ekki til en meint nafn hans er heiti yfir ofskynjunarlyf sem tekið var af markaði á 5. áratugnum.

9. Gestgjafinn, sem er frægur kyrrsetumaður (vegur rúmlega 0,1 tonn), vann mig í tennis; mig grunar að hann hafi byrlað mér eitur á undan leiknum. Eins er mögulegt að hann hafi átt við gleraugun mín enda er hann kominn af stórfrægum sjóntækjafræðingum norðlenskum.

 

Já, þetta ferðalag var allt hið undarlegasta. Við nutum þess meðan á því stóð en sú staðreynd að þetta var allt blekking skilur eftir skrýtið eftirbragð. Rétt eins og þeir þekkja sem átt hafa indæla nótt með konu sem daginn eftir reynist vera maður.

 

P1010411


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flestir myndu nú velja himnaríki frekar en helvíti (sjálfsskaparvíti)......

Á ekki að byrja að pakka um helgina ?

Frú Karlsberg (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 19:03

2 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Bíddu... Eru Karlsberghjónin í Andalúsíu?

Þetta eru mér fréttir.

Sverrir Páll Erlendsson, 18.11.2007 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband