Rúmið komið - fjórum mánuðum síðar - og fleira

Fyrir allmörgum mánuðum fengum við búslóðina senda til Spánar - en af einhverjum ástæðum gleymdi flutningsfyrirtækið rúminu í horni einhverrar vöruskemmu. Við fengum reyndar dýnuna.

Síðan leið tíminn og það var hringt, tölvupóstur sendur, grátbeðið og hótað. Og á hinni línunni var lofað og lofað. Makalaust.

En rúmið er komið. Rúm eru ansi mikilvæg. ,,Rúmm" eins og æskufélagi minn sagði einatt.

Nú er farið að kólna í Madríd. Í nótt sótti ég mér föðurland (reyndar norskt).

Þetta er nú ansi mikill lúxus á Íslandi að geta haldið hýbýlunum 24 gráðu heitum út í það óendanlega. Í gær gleymdi ég svaladyrunum opnum á meðan ég skrapp eftir krökkunum seinnipartinn. Þegar ég snéri aftur var hitinn í íbúðinni kominn niður í 15 gráður.

Nú er ég að lesa bók númer tvö á spænsku. Planið er að lesa nokkrar mér kunnuglegar bækur til að byrja með til að auðvelda mér skilninginn. Ég djöflaðist í gegnum Lolitu sem var þrekraun. Nú er ég að lesa A sangre fría eftir Capote. Ég flýg í gegnum hana. Merkileg aðferð þýðenda í báðum tilfellum að setja einstaka sinnum inn neðanmálsgreinar til að skýra eitthvað atriði fyrir lesendum. Flestar neðanmálsgreinarnar eru bara til óþurftar og til þess eins að maður fái óbeit á þýðandanum og gruni hann um besservizku.

Á þriðjudaginn eigum við fund með kennara Unnar. Við pöntuðum þennan fund fyrir þremur vikum. Hér hefur maður ekki daglegan aðgang að kennurunum eins og heima. Frekar óþægilegt. Ekki inni í myndinni að senda tölvupóst og heyra hljóðið. Íslenskir kennara fara síðan út í öfgar í hina áttina með því að vera stöðugt til staðar 24/7, eins og slökkviliðsmenn.

 ,,Með allt á hreinu" hefur verið reglulega í tækinu að undanförnu. Unni lýst afar vel á þá mynd, enda er hún góð. Í einu atriðinu standa Frímann og Hekla við bar í Sjallanum (?). Barþjónninn heitir Gestur Einar og í forgrunni leikur Ingimar Eydal á píanó. Akureyskara gerist það ekki.

Við bjuggum um árabil við hliðina á Gesti Einari og co í Vanabyggðinni. Um þetta leiti var ég einn fárra stuðningsmanna Luton Town á Íslandi og Gestur hjálpaði mér að semja frómt bréf á ensku þar sem ég pantaði liðsbúninginn beint frá Kenilworth Road. Þetta var glæsilegur búningur; fallegt samspil hvítra, svartra og appelsínugulra lita; Bedford auglýsingin framan á; trukkurinn mættur. Því miður er hvergi til mynd af mér í múnderingunni.

Segið mér eitt. Er kominn flótti í íslenska landsliðið í fótbolta? Rottur og sökkvandi skip? Ég get ekki að því gert en ég fæ pínu óbragð í munninn við þessar fréttir. Ég er samt með símann opinn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Það er gott að hafa rúm (með einu enni) en dýnan dugar ansi lengi.

Ekki veit ég hvernig fer ef þú ferð að súpa ofan í þig gervalla litteratúr Espanjóla. Ég gafst upp á bókmenntafræðinni hjá Álfrúnu forðum þegar ég átti að lesa einhvern slunk af spænskum leikritum, ef ekki á frummálinu þá í enskum þýðingum. Voðalega var það leiðinlegt.

Ég ætla að vona að íslenskir fótbyltingar hætti að verða sér til skammar í landsliðinu og einbeiti sér frekar að því að standa sig í vinnunni sinni. Að vísu geta stelpurnar ennþá eitthvað.

Annars er bara hríð hér þessa stundina og ég er í sambandi við Barselónu og þar er skítkalt, ekki nema 15 stig og fórsti minn þar búandi ætlar að skreppa út í búð að kaupa sér húfu, trefil og vettlinga, enda uppalinn í hinu hlýja frosti hér norðanlands.

Pétur Pétursson var einhverju sinni að tala um veðrið á þularárum sínum, sagði að það væri kalt á Akureyri, þar væri norðangjóla og 19° frost. Á Sauðárkrókui væri 19° frost en þar væri samt miklu hlýrra því þar væri sunnan andvari :I

Sverrir Páll Erlendsson, 17.11.2007 kl. 14:15

2 identicon

Seint munu þeir njólar teljast, Vladimír og Trúman.

Magnús (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband