Heilsu er ekki að heilsa en bið að heilsa

Síðustu þrjár vikur hefur heimilisfólkið gripið allar pestir og/eða eitranir sem í boði eru hér á landi á.

Í gærkvöldi gat ég mig hvergi hreyft fyrir ógleði, kenndi í fyrstu um ofáti á pasta, rjóma og trufflum fyrr um daginn, en undirritaður hefur marga fjöruna sopið í ofátum svo það gat varla verið. Síðan milli svefns og vöku heyri ég hvernig Unnur ælir yfir allt inni hjá sér - ég er of upptekinn við að vorkenna sjálfum sér og Hanna gengur í málið. Og nóttin líður hægt, ég er í móki, verð að liggja á bakinu og ég hugsa um trufflur og rjóma og pasta - aldrei aftur og mér verður hugsað til fornra timburmanna og sjókrankleika og prísa mig sælan að vera ekki staddur með aðgerðarhníf í móttökunni á Akureyrinni eitraður af sjóveiki. Klukkan er fimm. Hanna stendur við rúmið með húfu, er á leið út á flugvöll, ókristilegur tími, verst að hún hefur ekki vit á að fá sér einn öllara í fríhöfninni eins og Íslendinga er siður. Þetta ætlar ekkert að lagast, ekki tekst mér að losa mig við pastabarnið í maganum. Hálf átta. Ég fer með Grím á klósettið. Átta. Grímur vill horfa á barnaefnið. Tala hann til. Níu. Hringi í skólann og boða forföll hjá krökkunum. Börnin eldast um nokkur ár, vorkenna föður sínum, fara sjálf á fætur, borða, leika sér og laga til í íbúðinni. Börn í bíló inni í stofu - rafmagnið fer af. Ég skrönglast fram - skoða rafmagnstöfluna - eitthvað dæmi okkur stærra, slökkt á blokkinni. Finn vasaljós handa krökkunum og fer aftur í rúmið. Heyri bank í gegnum mókið, kveiki ekki - heyri eitthvað brambolt og rödd, grunar - einhver er fastur í lyftunni. Ég kann ekki við að fara á buxnaklaufinni, varla er neyðin það mikil. Jú, einhver skúringarkvensan er föst og ber sig illa, telur sig hætt komna. Ég sæki dyravörðinn sem gengur í málið. Ég leggst inni í rúm með blaðið. Allt virðist snúast um Franco, Chavez og kónginn - ég skanna þetta og lýg að sjálfum mér að ég lesi þetta á eftir. Rafmagnið dettur inn. Ógleðin á undanhaldi en lystin er lítil. Tek mig samt taki og elda tvíréttað ofaní krakkana; grjónagraut og grænmetissúpu. Þeir eru langir þessir veikindadagar með krökkunum; en þessi hefur verið góður; Grímur skrifar R útí eitt en er eitthvað að vesenast með N-in. Unnur teiknar drauga og æfir sig í skrift sem dó út á Íslandi í kringum 1980.

Ég hef hugsað mikið um kulda í dag - maður tímir ekki að kynda, veit ekki hvað það kostar bara að það er dýrt. Á Íslandi er kynt, já, kalli minn, 24 gráður 24/7 og gluggar upp á gátt. Við sáum þátt í gær um eina af fáum favelum (chabolas að ég held á spænsku) sem eftir eru í Madríd. 2500 manna skúrahverfi án vatns, hita og rafmagns - einhverjir voru að bisast við að nappa rafmagni úr boxum borgarinnar. Þarna er alvöru kuldi.

Það rigndi í dag í fyrsta sinn í eina tvo mánuði. Ágætt að binda allt rykið sem svífur hér um í Lundahverfinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Datt í hug þegar ég las þessa ljúfu sjúkrasögu:

Heilsufar.

Er það þegar heilsan fer?

Nei, bara datt það svona í hug.

Hér er því miður aldrei rafmagnsleysi nú orðið. Þegar ég var nemandi hér mátti reikna með 2-3 daga fríi í skólanum á hverjum vetri út af klakastíflu í Laxá. Svo kom helvítis "hundurinn að sunnan" og maður fer gersamlega á mis við yndi rafmagnsleysisins, sem ég tel að hafi verið eitt af því fáa gagnlegu í uppeldi ÍSlendinga.

Sverrir Páll Erlendsson, 20.11.2007 kl. 10:42

2 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Hvernig er heilsan karlinn minn?

Hér rignir, snjóar, blæs og hvæsir allt í senn og til skiptis. Nokkra daga í röð var vart verandi úti fyrir rykmengun. Mér leið á leið í skólann eins og ég væri söguhetja í MadMax3. Ja, ekki "hetja". Frekar ein þeirra persóna sem var drepin á fyrstu mínútum myndarinnar.

Guðjón H. Hauksson, 22.11.2007 kl. 13:13

3 identicon

Í útlöndum er ekkert skjól

eilífur stormbeljandi.

 o.s.frv.

Hvað eru menn líka að æða frá þessi indæla Íslandi þar sem hægt er að skrúfa upp í ofninum og fá sér siginn fisk og, og, og

Valdimar (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 21:36

4 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Í lesbókinni í dag er lítil hliðargrein sem heitir Barcelona. Man ekki hver skrifar, en mér varð hugsað til þín, vinur sæll.

Guðjón H. Hauksson, 24.11.2007 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband