Þegar vasapeningurinn lenti í kjafti fisks

Framan af ævi borgaði ég sjaldan fyrir fisk. Ég fékk ókeypis fisk heima hjá mér og þegar ég fór sjálfur á sjá skorti sjaldnast fiskmetið. Í Reykjavík eru fiskbúðir og þær ansi góðar, öfugt við ástandið á Akureyri sem fram að þessu hefur verið ansi dapurt. Við fórum 2-3 sinnum í viku í fiskbúðina í Gnoðarvoginum eða Fylgifiska á Suðurlandsbraut og keyptum fisk, fiskrétti o.s.frv. Fyrir kílóið borgaði maður 1000 til 1500 kall. 1000 kall fyrir þorskflök - 1500 kall fyrir steinbít í einhverjum kryddum og lögum. Aldrei þótti mér þetta dýrt. Ferskur fiskur er ekkert sjálfsagt mál. Það þarf að sækja hann á haf út, liggja í leyni dögum saman og klófesta kvikyndið, drepa það, afhausa, flaka, snyrta, pakka, frysta (kannski), flytja í land, o.s.frv. Ég borga glaður fyrir góðan fisk, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Í gær fór ég í fínu búðina Sanchez Romero sem er nett snobbuð og skelfilega girnileg. Ég fíla reyndar ekki að eitthvað fólk sé að velja ofaní mig grænmeti og ávexti eins og þar er gert. Meiningin var að kaupa fisk og gera plokkfisk handa krökkunum; hvort að Grímur sagði ekki að þetta hafi verið uppáhaldsmaturinn sinn á Pálmholti. Áður en ég fór í búðina gluggaði ég í orðabók og komst að því að haddock (ýsa) er á spænsku: ,,especie de merluza" og þorskur er bacalao (ég reyndar hélt að merkingin væri þrengri, þ.e. saltfiskur. Þetta þarf að rannsakast betur). Gott og vel. Í búðina kominn spyr ég fisksalann hvort hann eigi þorsk, nei, hann á ekki þorsk. En ýsu? (þá skellti ég fram orðinu ,,merluza" sem hann tók vel í). Hann greip einhvern fisk, frekar búkfríðan (vantaði hausinn), og mér fannst ekki ólíklegt að þetta væri einhver ættingi ýsunnar. Síðan tekur fisksalinn sveðju mikla og afgreiðir fiskinn svo unun er á að horfa. Útkoman voru tvo lagleg flök upp á eitt kíló. Síðan setur hann góssið í poka, prentar út verðið og límir á. Ég kveð og laumast til að líta á verðmiðann. Ég veit alveg við hverju ég bjóst: sá vongóði hugsaði með sér: 15 evrur, sá skynsami hugsaði með sér 22 evrur, sá svartsýni hugsaði með sér: 30 evrur. Því var það með umtalsverðum hrolli sem ég leit töluna 70 evrur! Mér sortnaði fyrir augum og varð samstundis ljóst að ég hefði líklega aldrei keypt jafn dýran mat á ævinni. Ég skoðaði verðmiðann betur og þar stóð: ,,Merluza de Chile". Þá hafði líklega verið flogið með skepnuna um morguninn frá Chile á fyrsta farrými með kampavíni og gæsalifrarkæfu. Það var fölur maður sem sýndi Hönnu fiskinn sem átti að fara í plokkfisk.

Í mínum huga skyldi ekki bakkað með plokkfiskinn; allavega helmingur aflans færi í þann ágæta rétt. Og því er ekki að neita að aldrei hef ég vandað mig jafn mikið við að elda plokkfisk og ég fékk jafn mikið hrós frá krökkunum eins og Friðrik V. fær á einni helgi. Síðan tók Hanna restina og útbjó eitthvað flott dæmi úr eðalfiskinu. Mér þótti þetta fínn fiskur. En þrátt fyrir nóblan bakgrunn og heimsmennsku fannst mér hann bara svona upper-middle-class. Þetta var enginn humar. Hvað þykistu vera, einhver humar? spurði ég. En Hanna var hrifinn og talaði um að þetta yrði fínn jólamatur. Veit ekki með það.

Nú líður mér vel. Fiskur gerir manni gott. En vasapeningurinn er búinn; ekkert sígó og pilli í dag. En það er ljós í myrkrinu. Við erum búin að vera það lengi á Spáni að við erum búin að koma okkur upp draslaraskúffu í eldhúsinu eins og allt siðmenntað fólk. Þar innanum batterí, skæri, hleðslutæki, gömul visakort, nælur, nagla, bólusetningarskírteini, reikninga, eldspýtustokka og spil má finna klink.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaur, hvað er meilið hjá þér?

Magnús (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 11:39

2 identicon

meilurinn er enn sem fyrr arnar@ma.is

arnar (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 20:23

3 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Ég hefði nú prófað að spyrja um peche di plocho. Aldrei að vita nema það hefði fært þér eitthvað ódýrara og betra og nærtækara En ég kannast við erfiðleikana við að kaupa fisk í útlöndum. Þeir hafa leitt til þess að ég borða fisk heima.

Sverrir Páll Erlendsson, 1.12.2007 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband