2.12.2007 | 10:31
Um stéttaskipun fiska
Í Guðsgjafaþulu, síðustu skáldsögu Halldórs Laxness, má finna afar næma úttekt á fiskneyslu Íslendinga á fyrri tíð. Hugsanlega hefur smekkur okkar lítið breyst.
"Fiskneysla þeirra [Íslendinga] hefur gegnum tíðina auðkenst af reglu í matvendni sem ekki mátti brjóta nema menn vildu hætta þar til virðingu sinni. Til að mynda var víti á því að éta fiska sem voru ófríðir í andliti. Þorskfiskar, einkum þorskur og ýsa, virðast hafa verkað jákvætt á bragðtaugar íslendínga vegna fríðleiks fiska þessara í andliti, stillilegs augnaráðs og geðugs vaxtarlags, þó öðrum þjóðum finnist kabeljá heldur leiðinlegur matur, amk ókryddaður. Fiskum sem öðrum mönnum þykja eftirsóknarverðir köstuðu íslendíngar í sjóinn aftur og tautuðu um leið fyrir munni sér trúarlega formála ef þeim fanst þessi soðiníng ekki nógu lagleg í framan. Karfi, marhnútur, skötuselur og hnúðlax áttu ekki uppá pallborðið hjá íslendíngum af ofangreindum ástæðum. Sjódýr sem ekki töldust til hryggdýra og sælkerar sækjast mest eftir, einsog skeldýr krabba og smokk, töldu íslendíngar til skammarlega kvikinda og þorðu ekki einusinni að snerta þetta. Eitt hið mesta lostæti sælkera að sjómeti til kalla íslendíngar sædjöful af því þeim líkar ekki andlitsfall hans; íslenskir fiskimenn eru hræddir við þessa skepnu af því hún hefur að sögn þeirra tvo kjafta. Þó hákal sé bæði lítt eygur og illilegur til munnsins var hann þó talinn ætur á Íslandi, í fyrsta lagi af því hann var grafinn í jörðu í tólf ár áðuren hann var étinn og hafði ljótur svipur hans mildast við þessa laungu jarðsetníngu, og í öðru lagi var hann seldur í bútum eftir að hann var grafinn upp og fáir höfðu séð hann í heilu lagi. Nytjafiskar máttu ekki heldur hafa ankannalegt sérbragð né tilgerðarlegt litaskrúð, hjáleitt við umhverfið, heldur urðu að vera nokkurnveginn gráir á grátt ofan." (bls. 81-82).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.