6.1.2008 | 09:40
Sviss I
Mikið skrambi er Sviss skrýtið og skemmtilegt land og vikan sem við eyddum þar var ljúf. Zurich er líka ansi mögnuð borg.
Maður er eitthvað svo öruggur í Sviss. Svissnesku úrin er með innbyggða stundvísa - svissneskir hermannahnífar geta skorið þykkustu þagnir og fondúið gerir svæsnustu átvögl södd á svipstundu. Og ef maður byggi hér væri maður tryggður í bak of fyrir; með leynisjóð hér og leynisjóð þar og vélbyssu inni í skáp til að vera fullkomlega öruggur.
Örvar bróðir býr ekki við lestarstöð - hann býr á lestarstöð. Því fylgja miklir kostir; á 20 mínútum er maður kominn niður í hringiðuna; bíó, bjór og bús í miðbænum. Og einhverjir gallar.
Við stunduðum laugarnar töluvert. Þarlendir kalla sundlaugarnar ekki sundlaugar heldur Spa eða Wellness-center o.s.frv. þær eru eins og þær íslensku bara með fleiri rennibrautum og straumlaugum - þær eru dýrar og þar er ekki hægt að synda. En þær eru heitar og góðar og hægt að setjast á speedónum í plaststóla og borða franskar með mayjó sem á það til að leita á fellingarnir og milli þeirra og maður fattar ekkert fyrr en í sturtu. Ef ég væri markaðsmaður myndi ég hætta þessu þrugli um Ísland sem land eldfjalla og ísa og undirstrika dásemd lauganna. Allar laugar á íslandi ættu að heita spa-eitthvað. Búdpestingar eru allir í þessu laugadæmi.
Mér skilst að Sviss sé dýrt land en þeir veitingastaðir og kaffihús sem við fórum á voru sanngjarnir í verði, gæðin voru töluverð og þjónustan þægileg. Og verslunarmiðstöðvarnar sem við heimsóttum fá prik fyrir magnaðar bókabúðir. Í Carrefour-kringlunni hér í Madrid er hægt að kaupa nýjustu Dan Brown og Isabel Allende og vegakort. Þar er hvorki hægt að kaupa Moggann né El País.
Ég reyndi að stunda mótvægisaðgerðir og fitusprengingar og við bræður skokkuðum nokkrum sinnum um hverfið og hafi einhverjir staðið á njósn bak við gluggatjöld hafa þeir ekki geta séð tvo hávaxna menn hlaupa einbeittir á svip. Nei. Þeir myndu hafa séð ógreinilegar ljósrákir, fundið hvin og hita. Slík var yfirferðin.
Jú, og við fórum með krakkana upp í fjall á sleða. Og við tókum lest upp á Uetliberg sem er víst frægur útsýnisstaður og síðan gengum við langleiðina niður. Við Hanna notuðum tækifærið og skruppum í bíó á þá mögnuðu mynd Atonement. Hún er ekki skemmtileg og gerir fólk dapurt.
En það var gaman í Sviss og ansi líklegt að maður kíki í sumar til að sjá Alpafólkið spila fótbolta.
Athugasemdir
Rosalega er þessi hægra megin á myndinni brúnn!
Arnar Már Arngrímsson, 6.1.2008 kl. 09:41
Og peysan flott. Örugglega keypt í dröppuðu búðinni.
Guðjón H. Hauksson, 6.1.2008 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.