23.1.2008 | 19:14
Fór í bæinn - það tók allan daginn
Fjarlægðin gerir fjöllin blá og árin sem ég kenndi í MA fá á sig algleymisblæ. Að öllu því leiðinlega slepptu var þetta mjög skemmtilegur tími. Eitt stendur upp úr: Ég bjó í fjögurra mínútna fjarlægð frá skólanum. Það er passlegt. Þegar pakkasúpur voru í matinn fór ég einatt heim; spændi í mig afganga, drakk lútsterkt kaffi og fékk mér kríu. Sá hinn prýðilegi uppfræðari og mannvinur Björn Vigfússon bjó lengra frá skólanum en ég; örugglega í 10-15 mínútna fjarlægð, en aldrei snerti hann bíl heldur gekk í og úr vinnu og eins í hádegismat. Björn hefur líka alla tíð verið maður súrmetis og á göngu sinni heim í hádeginu mátti oft sjá súrmetisglampann í augunum, og það af töluverðu færi. Ef ungdómurinn fylgdi hans eftirdæmi væri minna um mjaðmafitu, sljótt augnaráð og skilningsdepurð. Ég get sagt það nú að Björn var fyrirmynd mín við Menntaskólann; Ég fór að raka mig þrisvar á dag eins og hann, sletta sænsku og latínu og strauja brot í gallabuxur þyljandi Passíusálmana. En já, ég bjó í fjögurra mínútna fjarlægð frá skólanum, 12 mínútur tók mig að ganga niður í bæ og 14 að ganga heim úr bænum. Nú er annað upp á teningnum. Ég tók þá afdrífaríku ákvörðun að skrá mig á spænskunámskeið niðri í bæ. Og í dag fór ég æfingaferð með skeiðklukku að vopni:
Fyrsti leggur: Hjólað á allmikilli ferð frá heimili voru og inn til Boadilla: 15 mín.
Annar leggur: Sporvagn frá Boadilla til Colonía Jardín: 25 mín.
Þriðji leggur: Metró númer 2 til Pío: 10 mín
Fjórði leggur: Metró númer 6 frá Pío til Manuel Becerra: 20 mín
Fimmti leggur: Ganga frá Becerra til málaskólans AIL: 5 mín.
Samtals: 75 mín.
Þetta finnst mér afar vont en ætla að láta mig hafa þetta næstu 3 vikur. Það skrýtna er að miðbær Madrídar er ekkert langt í burtu en við liggjum hálf illa við samgöngum.
Ég er góðu vanur og vil keyra sem minnst. Þegar ég heyri af fólki sem eyðir kannski fjórum tímum á dag í ferðalög milli heimilis og vinnu verð ég dapur. Og byrja að vorkenna. Bílar eru nefnilega verkfæri andskotans: í þokunni í morgun var hundrað-bíla-árekstur á veginum milli Madrídar og Toledo og það er stríðsástand á vegum úti; yfir þrjúþúsund manns deyja í umferðinni á Spáni á hverju ári.
Útlönd eru þokkaleg en svo sem ekkert merkileg þegar manni leiðist hiti og er ónýtur til drykkju.
Athugasemdir
Ég er að reyna að sjá fyrir mér þennan bleika sjarmör (hér til hægri, til að taka af allan vafa) flengríða hjólhesti sínum í bæinn beygjandi spænskar sagnir og þess á milli hugsandi um Björn Vigfússon og súrmeti. Þvílíkt iðandi alþjóðlegt grautarsull í einum corpori porci. Er þetta nútímamaðurinn? Hvar er skellinaðran?
Guðjón H. Hauksson, 24.1.2008 kl. 09:41
Ég neita enn að trúa því að þessi bleiki bastarður sé hinn brottflutti félagi vor. Þetta hlýtur að vera gróflega fótósjoppað kvikindi. En það er rétt sem hann segir um fyrirmynd okkar allra, Bjössa Viff. Ég er farinn að verða oftar með brodda, sletti bæði sænsku og latínu og reyni að rugga mér í lendunum þegar ég geng eftir göngum og þyl rímur. Ég á líka eins skyrtu og Bjössi og ég elska súrmat; hef snætt hann grimmilega flesta daga að undanförnu. Svo mæli ég með spænskunámskeiði via tölvu fyrir Arnar Má með borðviftu, kaffi og súkkulaðirúsínur í seilingarfjarlægð.
Stefán Þór Sæmundsson, 24.1.2008 kl. 10:13
Sæl!
Ég held að Björn hafi eignast skæðan keppinaut í kynþokka. Þegar Arnar snýr aftur í MA þá verður hann brúnn og sætur. Hann mun skáka Birni með kunnáttu sinn i í spænskum riddarasögum.
Unnar (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 10:37
Já, námskeið ad modum "Hablamos Espanjol?". Það er málið. Annars er ég altaf að reyna að rifja upp hvaða fígúru úr Tinnabókunum þessi mynd minnir mig á! Það kemur einn daginn sjálfsagt, annars eru allar tillögur vel þegnar. (Hvað hét hann nú skæruliðaforinginn í Tinni og Pikkarónarnir?)
Orri (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.