Málaskólaganga

Nú er annar dagur málaskólagöngu minnar lokið og fram að þessu hefur það verið ferðalagsins virði. Ég er í fimm manna bekk. Þrír skrópuðu í morgun og við vorum tvö auk prýðilegs kennara.

Ég er með skólafælni á háu stigi. Ef ég hef minnsta grun um að kennarinn í það og það skiptið sé ekki fullkominn fer ég burt í fússi - ef tímarnir eru ekki vel skipulagðir, skemmtilegir og á allan hátt frábærir, læt ég mig hverfa.  Eins og allir tímar sem ég stóð fyrir hafi verið dásemdin ein.

Það er einkum tvennt sem málaskólakennarar þurfa að hafa; leikni til að plata nemendur til að kjafta og ímyndunarafl sem gerir þeim kleift að botna setningar hjá nemendum eins og mér sem vilja tala meira en þeir geta og vantar alltaf þetta eina orð.

Fram að þessu hefur þessi málaskóli staðið við það sem stóð á heimasíðunni og er það vel.

Reyndar finnst fólkinu aðeins of merkilegt að ég sé frá Íslandi; eitthvað er farið að fjúka yfir heimsfrægð Hófíar og Jóns Páls og í dag var ég spurður hvort við Íslendingar ættum ekki 100 orð yfir snjó. Það virðist vera stutt í snjóhúsin.

Að dálitlu öðru: öngvir skólar hér virðast byrja áður en klukkan slær níu og skóli Gríms og Unnar byrjar klukkan 9.30. Hvaða stress er þetta á Íslandi? Það liggur við að ég fari að berjast til metorða til að breyta þessu. Þið fróða fólk? Hefur þetta alltaf verið svona? Er tilgangurinn að herða menn á sama hátt og köld böð og hákarlsát? Ég held að þjóðfélagið myndi mildast til muna með mýkra upphafi á deginum. 

 Hér ríkir undarlegur hiti/kuldi. Þessa dagana vakna ég sjö; hjóla í úlpu og vettlingum út á stoppistöð - sný aftur 5 tímum siðar á bol, með sangría í hægri og sólhlíf í vinstri. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru það ekki grænlendingar sem eiga þessi hundrað orð yfir snjó?

Hlakka til að sjá ykkur um páskana!

Gunna sys (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 21:35

2 identicon

Sæll!

Snær, mjöll, drífa, ...

Hvernig væri að vera með vef sem væri tileinkaður samheitum yfir snjó?

Annars var ég að hringja í VíS og þeir með mjög góða konu í símsvaranum. Hún talaði samt vitlaust að mínu viti. Sagði alltaf: ,,Þú ert númer eitt á bið" ...

Á ekki að segja að einhver sé númer eitt á biðlista eða nr. 1 í röðinni. Jafnvel að einhver sé númer eitt í bið?

Kv, Unnar

Unnar (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband