Með óráði

Nú er kallinn hálf aumingjalegur. Lagstur í rúmið með hita. Ég skreið að tölvunni og mun skríða aftur í rúmið eftir kortér; þegar ég verð búinn með viskíið og kjúklingasoðið. Ég náði að koma orðum að líðan minni áðan: ímyndið ykkur sjórekinn hval, inni í hvalnum er kaldsveittur mannlingur í baðkeri fullu af ísmolum.

Spænskunámskeiði lauk á föstudegi, allavega í bili, ekki get ég sagt að ég hafi vanist þessum ferðalögum í og úr skóla. En þetta var ljómandi, maður er orðinn karamellufær. Spænskan víða í Suður-Ameríku er miklu skýrari en Spánarspænskan. Spænska ríkið er núbúið að opna vef www.cervantestv.es þar er viðtal við perúska rithöfundinn Mario Vargas Llosa; ég held ég hafi skilið hvert einasta orð.  Einn af dyravörðunum í blokkinni er frá Brasilíu; þvílíkt eðalmenni en ég skil svona annað hvert orð.

Hönnu finnst ekki seinna vænna en að kenna börnunum að dópa og drekka. Kvikmyndin Hárið var sett í tækið við töluvert góðar undirtektir. Í gær var það Moulin Rouge; absint-drykka og bóhemskapur. Nei. Verkfræði skal það verða.

Talandi um dóp; á heimasíðu dr. Gunna má finna lag með rapparanum Poetrix; þar sem hann fjallar um djamm og djús og fúlu hliðarnar á því. Vel gert og strákurinn er bara 22 ára. 

Stuð - óstuð - stuð - óstuð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Líst vel á þetta hjá Hönnu með kvikmyndirnar. Snilldarræmur sem nauðsynlegt er að krakkarnir horfi einnig á eru t.d. Dirty Dancing, Flashdance og Grease...

Gunna (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 09:26

2 identicon

Smá athugasemd hérna... karlmenn geta ekki kvartað undan sjóreknum hvalaeinkennum fyrr en þeir hafa prófað að vera komnir níu mánuði á leið... einmitt hef ég upplifað mig sem sjórekinn hval núna síðustu tvær vikurnar... bókstaflega með mannling innvortis sem er að vísu ekki í ísmolabaði en lætur þó finna vel og vandlega fyrir sér á allan mögulegan hátt.  Akkúrat núna þá fylgja þessu sárir grindarverkir þar sem að mannlingurinn býr sig undir að skríða út úr hvalnum við fyrsta tækifæri... en hvað um það... vona að þú jafnir þig skjótt af flensunni :o)

Til að venja börnin síðan af dópi og drykkju skal skella Dýragarðsbörnunum í tækið... fullkomið mótvægi. 

Mótmælandinn... (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 11:30

3 identicon

Hvað með að láta krakkana horfa á Húsið á sléttunni. Þá myndu þau læra í eitt skipti fyrir öll að bera virðingu fyrir húsbóndanum. Gætu svo horft á Baywatch þegar þau komast á unglingsárin.

unnar (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 18:28

4 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Nú? Er þetta að ganga líka þarna suðurfrá?

En nú er spurningin hvernig maður hefði spurt um þetta á tungu Hispanjóla. Það dugar ekki að kunna bara úna þervesa por favor.

Trúlega er rétt að þurfi að venja börnin smátt og smátt við heiminn svo þau verði ekki hrædd daginn sem þau verða fullorðin.

Sverrir Páll Erlendsson, 21.2.2008 kl. 12:51

5 identicon

Sæll!

Sakna þess að þú skulir ekki blogga. Það er ómissandi krydd í tilveruna að lesa þetta blogg. Láttu þér batna.

Unnar (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband