25.2.2008 | 11:12
Þögnin rofin
Nú er andleysinu vonandi lokið og framundan tímar innblásturs og andlegra aflrauna. Ég lagðist í reyfara í nokkra daga mér til mikillar skemmtunar. Harðskafi er hressandi skáldsaga um þekktan spæjara sem kallar ekki allt ömmu sína. Okkur Spánverjunum þykja svona bækur skemmtilegar; þær eru svo íslenskar; hangikjöt, Þingvellir, BSÍ, miðlar o.s. frv. Hörkustuð. Hin bókin: Dauði trúðsins, var ekki sem verst. Hefði mátt tóna niður bullið hér og þar en fín saga og frábær kynning á Akureyri...
Örri bróðir sendi á mig gamla frétt (ætli þetta hafi ekki verið að ganga á Íslandi) úr Degi. Fyrirsögnin fræga: ,,Negri í Þistilfirði". Ég vissi af þessari frétt en hélt satt að segja að hún væri mun eldri. Hún er frá 1977. Ég sakna Dags. Maður gat átt von á því að birtast þar. Einu sinni var ég í spurningu dagsins. Gestur Einar kom í skólagarðana og spurði að mig minnir til hvaða landa við vildum ferðast. Ég nefndi Frakkland. Einu sinni sást glitta í mig í einhverju hlaupi í gegnum lokkinn á Jóni hlaupara. Nú birtist maður aldrei í neinum blöðum; kannski fer það að breytast..muhahaa.
Ég hefði viljað sjá Þursaflokkinn spila. The Cure verður með tónleika hér á næstu vikum. Spurning um að stela varalit frá Hönnu og skella sér. Vælukjóarnir í Mars Volta troða upp einhvern tímann á næstunni. Setjið mig í klefa ásamt þeim og Muse og ég mundi rassskella fram karlmennskuna í þeim. (sendið Sigur Rós líka inn).
Fjölskyldan horfði á Laugardagslögin. Það var gaman. Lagið sem vann versnaði um 25 prósent við snörunina yfir á ensku. Veit ekki af hverju. Lagið hans dr.gunna var ágætt en það vantaði fleiri hugmyndir í lagið til að gefa því vigt. Eins og flestir vita var dr.gunni driffjöðurinn í s/h draumi sem gaf meðal annars út hljómplötuna Goð. Það er góð plata. Ég veit ekki hvort hún er lengur fáanleg en fyrir ca. 10 árum kom út safndiskurinn ,,Allt heila klabbið" með mestöllu sem Draumurinn sendi frá sér á sínum tíma. Ég gaf einhverjum helvítis útlendingi diskinn í einhverju landkynningarbríarí í Köln og sakna hans nú (disksins). Þá var ekki búið að finna upp brunann.
Athugasemdir
Þú ert nú bara nokkuð líkur honum Gillzenegger ef marka má nýjar myndir af þér. Fyndið að hann skyldi ekki vinna. Enn og fyndnari deilan hans við Eurobandið.
unnar (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 22:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.