Skíðaspánn

Ég þótti sérlega efnilegur skíðamaður en hætti á toppnum 12 ára gamall: ástæðan? Ég varð alltaf bílveikur á leið með rútunni upp í fjall. Þannig að ég kaus frekar að ganga niður í Skemmu á handboltaæfingar. En skíðaárin voru góð ár og verðlaunapeningarnir gleðja mig enn (hvar eru þeir aftur?). Ég var alltaf þriðji, Sævar Guðm. kvikmyndagerðarmaður var alltaf annar og Maggi Karls var alltaf fyrstur - nema einu sinni - þá datt Maggi og Sævar vann og ég fékk langþráð silfur.

Ég bregð mér ekki oft á skíði en er alltaf svag fyrir snjónum. Við vorum einmitt að koma úr skíðaferð sem var öll hin ágætasta, nema að það vantaði snjó. Jú, það var snjór, en bara svona latur vordrullusnjór.

Svæðið heitir El Formigal og er í spænsku Pýraneafjöllunum. Sex tíma keyrsla frá Madríd. Prýðilegt svæði. Við bjuggum á hótel Saliecho og þeir fá hin ýmsustu prik; til dæmis eru þeir með sundlaug sem er meira að segja hálf úti og þegar við komum í hlaðið seint á miðvikudagskvöldið beið hótelstjórinn með risabakka af allskyns ostum og skinkum og brauðum og gúmmelöðum. Blessann.

Við vorum í slagtogi með sænskættuðum vinum okkar þeim Björgu Birgisdóttir Borg úr Norðurbyggð og hennar hálf-ektamanni, Bo Borg, en hann og Björn Borg eru kviðmágar.

Skíðaferðir eru góðar ferðir að jafnaði; maður vaknar klukkan átta og étur beikon, brauð, vínarbrauð, osta og beikon og egg og beikon. Síðan fjall til fjögur - síðan sund og gufa - síðan fataskipti  - öl á barnum matur klukkan áttta - sofa klukkan tíu. Rutmi sem þessi á vel við okkur Svíana (Moi, Bo og Björn Vigfússon, sem þó var fjarri góðu gamni). Næst langar mig að fara til Örra bróður í Sviss og dvelja í bjálkakofa í heila viku og borða kássu og drekka Stroh. Hótelvistir ganga á sjóði og það særir nískukennd vora. (Hanna er reyndar örlát - ég sé um nískuna og leiðindin).

Hugleiðsla er góð, flugleiðsla er betri, en það er það ástand sem grípur mann á skíðum.

Ég er brúnn, Hanna er með 50 freknur, Grímur er með 30 freknur og Unnur er pínu brún.

Já, synd var það að snjóinn skyldi vanta. Þið Hlíðfellingar eigið gott og Hlíðarfjall stendur alltaf fyrir sínu. Þó ég hafi farið upp á nokkrar aðrar er Hlíðin alltaf best.

Björg datt.

 Bo pantaði Irish coffee á barnum á skíðasvæðinu en barþjónninn kom af fjöllum og henti í hann þerveþa.

Krakkarnir breyttust í skrýmsli í bílnum á leiðinni heim fyrr í dag. Smá ljósglæta var þó söngvakeppni milli systkindanna, þar sem Unnur söng ,,Hvar ertu nú?" og umbreyttist í djöfulraddaðan Proppé um stundarsakir. Grímur tók lagið um Marco sem er mjög ,,suave" og minnti á tannbrotinn Bo Hall í raddbeitingu og sjarma.

Nú eru börnin að horfa á stórmyndina Kirikou. Ég er að drekka te. Ég er nýrakaður. það er gott. Ég á vin sem kann ekki að raka sig. Hann fór til læknis sem kenndi honum að raka sig svo hann fengi ekki útbrot. Björn Vigfússon rakar sig oft á dag - ég vona að hann sé rafmagnsmaður - blautrakstur er skelfilegur - hann gengur svo nærri manni og skilur eftir vonda tilfinningu. Maggi Karls tók sjálfan sig eitt sinn á andlegu ipponi í einhverri próftíðinni. Til að neyða sjálfan sig til að dvelja dægrin löng einsamall inni á herbergi yfir Stæ 603 tók hann til þess bragðs að raka sig vel og vandlega um andlitið en skilja hálsinn eftir og framundir höku (dálítið eins og Jón Sigurðs og félagar hans). Þá bara þá var Mo shark ljótur.

Á morgun er spáð 19 stiga hita, líka á mándag. Kannski ég safni brúnku á líkamann svo hann rími við hausinn.

Nú fer að líða að Íslandsför; eftir tæpar tvær vikur verðum við á Akureyri. Ef þið viljið sjá okkur þá verðum við í laugunum. Eins hef ég hugsað mér að borða svið á Æsustöðum og vonandi sushi hjá Arnheiði Smárjóns. Ef Helena Eyjólfs væri með sjóv færi ég (ef það hæfist klukkan átta). 

Það er laugardagskvöld - stuðið að byrja; grænt te og heill klukkutími þangað til ég fer að sofa.

Hanna og hjálmurUnngrímurChuck DBorgsystkindur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Ég hlakka til að sjá ykkur hér fyrir norðan og sérstaklega í lauginni. Þú verður flottur Arnar með sviðinn haus og sushibleikan búkinn. Ég kem með í sund og ég skal raka þig. Hægt. Ég á örugglega nokkur blöð með skeggeitri.

Þið fylliraftarnir Unnar verðið sjálfsagt hér á sama tíma. Ég er farinn að kvíða því að fá mér bjór með ykkur. Við skulum kaupa okkur kippu saman, ég get þá drukkið fjóra eða fimm.

Guðjón H. Hauksson, 1.3.2008 kl. 22:09

2 identicon

Er núna hægt að hringja í þig?

Magnús (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 12:13

3 identicon

hmm er Björn Vigfússon orðinn eitthvað þema á blogginu hjá þér?

valla (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 17:50

4 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Ég ætla bara að vona að þú látir ekki nokkurn mann sjá þig með  G R Æ N T    T E  og allrasíst nálægt almennilegri sundlaug, þú maður freknóttu konunnar. Það gætu komið fréttir um það í El Pais.

Sverrir Páll Erlendsson, 4.3.2008 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband