12.3.2008 | 17:50
Námsmatur
Áðan fengu krakkarnir vitnisburð í skólanum, ágætan mjög, og eru mun upplitsdjarfari en fyrir 8 mánuðum þegar þau voru að byrja að fóta sig á spánskri grundu. Í morgun sagði Grímur meira að segja: ,,Ég vil fara í skólann" sem eru hressilegri orð heldur en ,,Ég vil EKKI fara í skólann". Ein ástæðan er líklega sú að hann er hættur í fótbolta sem virðist hafa verið heldur stór pakki fyrir drenginn. Samkvæmt hans frásögn lá hann undir eilífum spörkum og níðingsskap á æfingum, en við erum reyndar á þvi að hann hafi misskilið fyrirbærið fótbolta, sem er einmitt eilíf spörk og níðingsskapur - spyrjið bara Roy Keane.
Nú er stund milli stríða en næsta haust skulu þau sko fá að sýna metnað og dugnað: hvort sem það heitir tónlistarskóli, júdó, sund, bóndabeygja eða hvað - þá verða þau neydd í það. ,,Í Róm skaltu borða rjómaís eins og Rómverjar" segir máltækið og það neyðumst við til að gera. Krakkarnir verða í stífri dagskrá alla daga og fá bara að fara út um helgar. En aldrei skal ég borða kvöldmat klukkan tíu. Talandi um kvöldmat. Einu sinni sem oftar buðu Guðjón og Brynhildur okkur í mat. Ég þoli ekki að bíða eftir mat. Þegar við mættum á staðinn beið okkar ekki ilmur af keti og speki. Nei. Bara blóðilmur í bland við blaðsalat. Guðjón hafði skorið sig við að skera grænmeti. Ég reyndi að sýna samúð en vorkenndi mér í raun meira en honum. Af hverju var hann ekki komin lengra í matargerðinni? Móðursýki kvennanna þriggja varð til þess að ákveðið var að Guðjón skyldi fara á slysadeild - allur er varinn góður blah blah. Ég keyrði hann. Hvenær fengi ég að borða? Á slysadeild var löng röð og Guðjón var með lítinn skurð. Að mínu mati var þetta of löng röð fyrir svo lítinn skurð og ég sagði Guðjóni það. Hann kinkaði kolli hnugginn. Ég keyrði hann aftur heim, setti á hann plástur og sagði honum að hypja sig aftur inn í eldhús. Mér varð ekki meint af, fékk eitthvað gott að borða. Mér finnst Guðjón vera miklu skemmtilegri heim að sækja núna; stundum kemur maður beint í matinn - svona næstum því.
(líklegast mun ég ekki nenna að blogga í páskafríinu - góðar stundir)
Athugasemdir
Hahahahahahahahahahaha....
Þetta var yndisleg frásögn :D
Er það satt að familían ætli að sökkva sér í Nóapáskaeggin á heimavelli?
Sverrir Páll Erlendsson, 13.3.2008 kl. 07:04
mikið rétt, konungur. Sjáumst í ríkinu, er ekki annars enn þá ríki?
arnar (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 07:35
Þetta kallar maður að láta bjóða sér í mat með ísmeygilegum hætti. Það er eins gott að standa sig. Ég er byrjaður að elda. Hægt og rólega. Átti það að vera linsusúpa?
Guðjón H. Hauksson, 13.3.2008 kl. 22:52
Kannast við þetta með boltann, Ari heyktist á fótboltaiðkaninni, að hluta sökum þess hve boltinn var harður og vont að fá hann í sig. Svo hafa kannski 3 undangengnar kynslóðir af hreyfihömlun í karllegg sitt að segja. Það er ekki fyrr en menn fara að eldast sem þessi ásókn í sársauka fer að hafa áhrif og hvetur menn út í ýmislegt æði misjafnt, kannski best sýnilegt í þeirri ójöfnu aldursskiptingu sem sést í hlutfalli giftra, karlkyns.
Orri (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 10:23
Halló halló...
Hitti Hönnu í ríkinu í dag....nema hvað!! Gaman að sjá og lesa hvað þið eruð að bralla. Sá í einhverri færslu hér á undan tillögu að hittingi á Ak. í sumar, líst afar vel á það! Mér finnst líka allt í lagi að Guðjón fái að vera með enda hefur hann örugglega alltaf séð eftir því að hafa ekki farið í MA :) Kveðjur frá Grenivík, staðnum þar sem velmegunin drýpur af hverju strái...
Edda Bj. (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 22:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.