Skerið sokkið en Akureyri blífur

Basti og coHeiðdís og Hildurunnur og kallá sjókakaSjóræningi inn að beiniKafteinn Krókur

Ágætu lesendur,

 

fyrst ber að segja að blogg þetta verður framvegis með öðru sniði. Meiningin er að taka upp vikublaðahátt; þ.e. að birta fréttir vikunnar, til dæmis á mánudögum, segjum það til að byrja með.

Nú er föstudagur og best að skrásetja atburði páskavikunnar áður en þeir rykfalla í minninu.

1. dagur

Það er margt meira spennandi en að flytja svokölluð börn milli landa og flengjast um í leigubílum, flugvélum og öðrum farartækjum dægurlangt. Flugvélar eru sérlega hvimleið fyrirbæri og fyrir utan að vera stórhættulegar þá er hávaðinn það sem pirrar mig mest. Nú eru flest flugfélög hætt að gleðja mann með dýrindis matarbökkum álfóðruðum og lítil gleði sem felst í samloku á fjórar evrur, bjór á eitthvað svipað og pringles á uppsprengdu. Helst vildi ég mæta með kaffi á brúsa og heimasmurt með kæfu en efa að það væri vel séð í öryggishliðinu. Hanna hefur allavega verið gómuð með allskyns krem sem eigi fljóta; kæfa væri konfiskeruð á staðnum. Sem sagt: föstudaginn 14. mars flaug ég ásamt krökkunum (Hanna var farin á undan í vinnuerindagjörðum) til Kaupmannahafnar. Kastrup er hinn sæmilegasti staður og þar má finna frábæra aðstöðu fyrir börn. Það er ávísun á geðstífni að labba með börn innanum toblerónturna, viskítilboð og mogm-dót. Miklu betra að spila fússball og leika sér í legó. Ég vil þakka Kastrúpfólki fyrir þetta og eins að mýkja fyrir mig okursjokkið sem ég átti von á á Íslandi. Á Kastrúp kunna menn jú að okra. Lítil kók á 3 evrur og 41 sent. Geri aðrir betur.  

Flugið til Íslands var tíðindalaust en börnunum þótti merkilegt að heyra alla þessa íslensku í kringum sig, verandi vön norðlensku á heimilinu.

Hanna sótti okkur á völlinn og keyrði með hópinn í Skipasund þar sem góðvinir okkar Sebastian og Kristbjörg búa ásamt börnum sínum Emil og Kötlu. Það vildi svo skemmtilega til að á heimili þeirra var einmitt verið að taka upp nýjan þátt í þáttaröðinni ,,Allt í drasli"... Kidda og Basti eru gott fólk. Basti á það sammerkt með mörgum mínum vinum að vera stóískur djöfull hið ytra en alræmdur keppnismaður hið innra. Basti, Guðjón og Andri eru ljúfir heimilisfeður sem flissa þegar börnin drulla á gólfið eða ýta á break-takkann á tölvunni svo skáldsagan hverfur, færa konunni froðukaffi í rúmið,  mæta sem sagt ágjöf með yfirveguðum svip Guðmundar Kjærnested. Ég er ekki svona. Ég er vondur. En allir eiga þeir það sammerkt að brjálast í íþróttum. Guðjón hef ég séð skriðtækla saklaus ungmenni í innanhúsbolta og ögra mönnum í körfubolta sem eru helmingi stærri en hann. Basti hleypur maraþon og eltir litla sentera upp miðjuna með öxi á lofti. Andri var kallaður plógurinn í boltanum. Enginn stoppar plóg á fullri ferð.  

Já, mikið var gaman að sjá Kiddu og Basta. Þau eru nýflutt frá Þýskalandi. Kidda vann hjá Össuri í Eindhoven og svo mikið þótti henni til Hollands og Hollendinga koma að hún eyddi 4 tímum í bíl í og úr vinnu á hverjum degi. Eitthvað þótti mér Kidda beygð að þurfa að skilja við Holland, eða eins og hún segir sjálf: ,,Ekkert toppar kaffið og samlokurnar í Eindhoven". Reyndar skilst mér að Kidda hafi sótt um starf almannatengslafulltrúa hjá Húsi Önnu Frank, en klúðraði viðtalinu með því að flauta þýska þjóðsönginn í ógáti.

2. dagur

Laugardagur 15. mars. Ég sótti Teitsson í Drápuhlíðinni heim og við gengum okkur niður í Sundhöll Reykjavíkur sem er einhver albesti skemmtistaður borgarinnar. Því miður náðum við lítið að synda vegna þess að gusgus var að taka upp myndband á dýpinu. En pottarnir eru góðir og útsýnið yfir rústirnar af Oz hressandi. Í framhaldi af þessu fórum við á kaffihús, drukkum kaffi. Síðan var Teitsson sóttur. Gaman að hitta Teitsson. Glæsilegur maður á velli og leitun að öðrum eins andans manni; þar kemur maður hvorki að tómum kofanum í American Psycho eða Nancy-bókunum.

Næsta klukkutímann drap ég tímann í bókabúðum og skoðaði nýjustu skyrturnar í Dressmann. Annað stefnumót framundan við annan Magnús og ekki síðri; H. Karlsson. Við Magnús eigum okkur langa sögu; vorum saman í Lundarskóla (þó ekki sambekkis) og á skíðum. Hins vegar féllum við ekki í ást fyrr en seint í menntaskóla; líklega ekki fyrr en undir enskum morgunverðum á Torremolinos. Við Magnús tókum einu lestina sem til er í landinu; sushi-lestina við Lækjargötu og héldum til Kyoto til að sjá Kyoto-bókunina með eigin augum. Sushi er góður matur og léttir lundina, nokkuð sem lund gerir ekki. Magnús skutlaði mér síðan á Vellina í Hafnarfirði þar sem fyrir lá heimsókn til Steina risa og fjölskyldunnar kanadísku.

Á Vellina mættu líka Auður Hönnusystir og Indriði hennar kall og Úlfur þeirra nýfæddi. Síðan var lamb étið og drukkið Canada Dry.

Seinna um kvöldið ætluðum við Basti og Maggi K. á bíó. Það var ekki fallegt. Við Basti vildum fara á stríðsmynd en Maggi á sætsúpuna Juno. Maggi fékk að ráða því hann átti bílinn. Mér leið illa í bíó; að láta sjá sig á svona vitleysu. Meðan Hanna og Kidda gröðguðu í sig harðfiski og sögðu karlafarssögur undir vodkasnöfsum í Skipasundinu, grenjuðum við yfir ljúfsárri vellu um ótímabæra þungun unglingsstelpu í Kringlubíói. Fuss. 

3. dagur

Litum í morgunkaffi til Andra og Möggu. Þar voru ótal sortir á borðum enda annar í skírn á þeim bænum. Þetta fólk í vogunum og sundunum sem maður þekkir er eitt af því fáa sem maður saknar frá rvk. Andri kallaði í fyrrum nágranna okkur úr Glaðheimunum þau Steffan og Kristínu. Mikil gleði - mikið grín. Ég hegðaði mér illa og lagðist í sortir.

Síðan var lagt í hann Akureyris til. Ferðalag þetta fer skánandi og styttist óðum. Nú er búið að stytta hér og laga þar. Það er mjög stutt eftir. En þetta er leiðindaleið en kunnugleg. 

Akureyri, halló Akureyri. Moldhaugaháls að baki og við blasir þetta skásta við Ísland og kannski það eina sem blífur. Nonni, Davíð, KA, Ingimar Eydal, Baraflokkurinn, Amaro, Linda, Bragi, Sana. Ég kom við í Kaupfélaginu við Ránargötu og keypti sanasól og júgursmyrsl. Allur er varinn góður.

Nú, fjölskyldan kysst í Jörvabyggð og fyrsta sýn á litlu Anítufrænku Gunnhjartardóttur. Hún er ansi sæt. Og síðan var sætt lítið lamb etið. Gott var það. Gott á það.

4. dagur

 Kreppan er víst komin og fer víða. Um daginn fréttist af henni á Þórunnarstræti á fleygi ferð, síðan beygði hún vestur Hamarstíginn. Á mótum Hamarstígs og Mýrarvegar tvísté hún um stund. Vinstri eða hægri? Vinstri var það og Heiddis og Arnarjóns sluppu í þetta sinn. Já, það var enginn kreppubragur á lummunum hennar Heiddisar. Og haldiði ekki að boðið hafi verið upp á alvöru kaffi: ,,Jáh, kaffibætirinn hefur engan áhuga á svo fínum gestum" sagði Heiddis. Já, lummurnar. Engar rúsínulufsur þar, nei dýrindis arabískt súkkulað og hvítasykur í tonnavís. Ja, hérna hér. Aftur lagðist ég í sortir. Var hent út.

 Æsustaðir. Eyjafjarðarsveitin er æði. Rauðir víkingar, ket og smér, þetta líkar mér.  Krakkarnir bjuggu til snjókall og léku við hundana. Tobbi er enn í fjöri. Einhvern tíma sagði ég í hálfkæringi við Smára bónda: ,,Já, kannski maður gerist nú bara bóndi og taki við þessu eftir þinn dag." Þetta var sagt í hálfkæringi en Smári túlkaði þetta sem absúrd brandara og þurfti að styðja sig við girðingarstaur svo aðframkominn var hann af hlátri. Ég væri reyndar til í að búa í sveitinni svona hálft árið; íslenskir vetur eru orðnir svo óáreiðanlegir að maður veit aldrei hvar maður hefur þá. Spurning um að taka Laxnesinn á þetta; Gljúfrasteinn (Æsustaðir) á virkum dögum, Fálkagata (tja: kannski Tjarnarlundur), um helgar og janúar og febrúar. Jú, og eitthvað í útlöndum líka. Við gistum síðan í kofanum sem svo er kallaður og seisei já.

 5. dagur

Bragi sá okkur fyrir Bragakaffi og brauði með hangikéti í morgunmat. Ef brjóstsviðinn drepur þig ekki þá styrkir hann þig. Meiningin er að dveljast mange dager í kofanum í sumar og hjálpa til við bústörfin...

Byggðaveggs-hyzkið Guðjón og Brynhildur og gaurarnir þeirra voru næst á lista. Þar fær maður gott að éta og sjaldan sem grænmeti er skorið við nögl á þeim bænum... Kreppan er heldur ekki skollin á þar því boðið var upp á pönnukökur ósykraðar með allskyns mat innaní. Þetta var gott en ansi eitthvað framandlegt að brúka pönnukökur með þessum hætti. Ég þakkaði samt fyrir mig.  

6. dagur

Man ekki alveg fyrripart dagsins. En um kaffileytið er ég allavega staddur hjá Dóru og Begga í Byggðavegi; krakkarnir uppi á klöpp að leika og við Dóra bergjandi á sérrí ræðandi jóga, tai-chí og útsaum. Hanna og krakkarnir lögðust síðan upp á þessa góðu fjölskyldu á meðan ég fór í fimmtugsafmæli til Axels Hönnugunnumanns; búðar-, neta-, og sjómanns. Hafi ég ekki verið kominn til Íslands fram að þessu gerðist það þetta kvöld. Útlendingar eru svona og svona þegar kemur að skemmtunum. Við Hanna vorum eitt sinn viðstödd breskt brúðkaup í Lúx. Sem var sosum ágætt. Vel veitt og allt það -en það vantaði allan kúltur; engar ræður, engar vísur - bara ferðadiskó. Þegar íslenskir taka sig til er best að passa sig. Ég skrifa ekki undir allt sem fer fram í íslenskum veislum og ættarmótum, en tek samt hatt minn ofan. Í afmælinu hans Axels mætt nefna eftirfarandi hápunkta: ósvífinn veislustjóri sem lagði afmælisbörnin (tvíburar) í einelti, endalausar áskoranir nú um að éta og drekka almennilega (dálítið eins og Rokkað í Vittula), partur úr karlakór að syngja ættjarðarlög, systir mín að syngja bítlalög, Heiðbjört að syngja ,,á íslensku má alltaf finna svar..." a capella. Opinn bar og allar sortir. Birkir með vísnabálk, maður sem sagði klámbrandara í hálftíma o.s.frv. já, Íslendingar eru skemmtilegir í (svona) hófi.

Ég stakk af fyrir rest enda ekki skemmtanaþolinn. Mælti mér mót við Unnar frá Grýtubakka; stærfræðing og fjölfræðing. Við sátum um stund á Karólínu og spölluðum við gamla nemendur. Karólína stendur fyrir sínu en vel mætti koma einhverju lagi á efri hæðina sem aldrei hefur virkað sem íverustaður. Unnar er með vandaðri mönnum sem ég þekki. Framsækinn vísindamaður en að sama skapi með báða fætur á jörð Ungmennafélags Borgarfjarðar. Lítill fugl hvíslaði að mér að hann hafi eitt sinn sótt um starf yfirmanns í grilli í Hyrnunni í Borgarnesi en ummæli hans um að breyta grillinu í grænan stað hafi fallið í grýttan jarðveg. Annars eru Borgnesingar góðir menn, til dæmis Birgir Örn og Orri. Borgarnespizzur þóttu nú heldur ekkert slor í eina tið.

 7. dagur

Stóri dagurinn. Grímur hafði átt afmæli á Spáni 9. mars og nú var taka tvö á Íslandi. Gömlum félögum af leikskólanum boðið heim og allir uppáklæddir sem sjóræningjar. Amma hans sá um veislustjórn og vantaði ekkert upp á sortirnar og myndarskapinn á þeim bænum. Á vissum tímapunkti voru sjóræningjarnir sendir inn í bílskúr með sverð sín og króka. Saklausir borgarar sátu á meðan í leðri og drukku kaffi.

Endalaus gleði. Um kvöldið tók við matarboð hjá Heiddisi og Arnarijóns. Nú var kreppan hinsvegar komin í Mýrarveginn. Sjálfdauð gæs og hrár fiskur á borðum. Kreppan kristallaðist í skemmtan barnanna þetta kvöldið; þau horfðu á ævaforna íslenska bíómynd sem heitir að mér skilst: ,,Stella í orlofi". Ég þakkaði samt fyrir mig og fór heim með þreytta krakka. Hanna dvaldist lengur og drakk gambra með húsráðendum og ræddi gengi krónunnar, gengi KA, gengi Jóns Arnars og gengi landsliðsins.

8. dagur

Föstudagurinn langi.  ,,If Jesus had been killed twenty years ago. Catholic school children would be wearing little electric chairs around their necks instead of crosses" (Lenny Bruce)

Fjölskyldan hélt upp í fjall en enginn nennti að fara á skíði sökum traffíkur. En það var fínt að skrölta þarna með þotu og vinna í brúnkunni.  

Nú var kannski komið að hápunkti ferðarinnar. Fótbolti undirritaðs með gömlu skúrkunum í KA-heimilinu. Hvernig kæmi ég undan sumri? Betri, verri? Búinn að tileinka mér spænskan leikaraskap? Ég hafði hins vegar engu gleymt (en ekkert nýtt lært sosem). Þetta var eins og að koma heim; maður sat undir skömmum frá Eggerti, skaut í hausinn á Nafna Valsteins og klúðraði dauðafærum í massavís. Sem sagt gott.

Nú var komið að því sem ég hafði mest óttast. Linsubaunasúpa hjá Guðjóni. Tækist mér að halda henni niðri? Mér fannst hún ekki vera að virka fyrst, en gaf henni séns. Svo á fimmta diski var hún orðin fín. Magnað var að sjá í fyrsta skipti almennilega framan í gamla kunningja; Maríu Helenu og hennar fólk og Ernu og hennar lið.

9. dagur

Nú er ég hættur að muna - allavega var eitthvað étið.

10. dagur

Nú færi þessu að ljúka. Haldið suður. Páskamatur hjá Steina og Drífu í Hafnarfirði. Sofið smá og vaknað til íslenskrar grámyglu og Reykjanessbrautar og Leifsstöðvar og fríhafnar og kaffis og Þórunn leikkona og björgunarvesti og eggjakaka og meira kaffi og Kastrúp og Barajas-flugvöllur í Madríd og reynt að spjalla við spænskan leigubílstjóra sem kunni ekki á kúplinguna og umferðarteppa og jú Real Madrid tapaði í gær, en hann væri meira fyrir nautin og helvítis páskahretið...

Að lokum

Ekki má gleyma öllu hinu sjálfsagða sem er ekki svo sjálfsagt. Sund á hverjum degi og ekki bara pottar, heyrirðu það, Ásgrímur? Stjan í Jörvabyggð. Skrambi gott kaffi hjá systur í Snægili. Viskitár hjá Billa og Dísu. Heimsókn til Valdimars á Rein ásamt Gunnjóni.  Ekki má gleyma Örra frænda sem alltaf hefur tíma til að leika. Árna bróður sá ég lítið, það er líklega ár í að hann gefist upp á tölvunni  og fari aftur að þora í skrafl. Sæt, lítil frænka en því miður langt í að fari að grænka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Gaman að lesa og gott. Þetta voru frábærir páskar. Gaman að fá að sjá ykkur þó þetta mikið þrátt fyrir stífa dagskrá hjá ykkur. Ég hlakka til sumarsins.

Guðjón H. Hauksson, 29.3.2008 kl. 16:37

2 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Það var mikill missir að fá ekki að sjá ykkur um páskana, sérstaklega þó slæmt að hafa ekki séð Hönnu, sem er auðvitað miklu ásjálegri en karlinn. Unnar Bakk bætti þetta þó upp að einhverju leyti með því að kíkja í heimsókn. Duglegur strákur þar á ferð.

Stefán Þór Sæmundsson, 30.3.2008 kl. 13:36

3 identicon

Gaman að hitta ykkur um Páskana. Ég þarf að fara að selja SV-574 til þess að geta hitt ykkur á Spáni. Ég er komin aftur í líkamsrækt fyrir atbeina Gríms.

Unnar (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 13:39

4 identicon

SV-574...er það nýjasta herbalife formúlan sem gerir alla ríka og sterka?

Hanna (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 14:24

5 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Ég prófaði SV-574 í nokkur ár og reyndist vel. Gott ef ég léttist ekki um nokkur kíló líka. Nú er ég að nota PB-767 og hef snarþyngst.

Guðjón H. Hauksson, 1.4.2008 kl. 11:26

6 identicon

Þú hefur alltaf verið sniðugur strákur.  Takk fyrir skemmtilega lesningu.  Ég er nú ekki alveg sátt við þetta krepputal þarna - hrár fiskur og sjálfdauðar gæsir fást nú ekki alveg gratís.  Lummuhrósinu tek ég hins vegar fagnandi.  Það var frábært að fá smá tíma með ykkur, það ríkir mikil tilhlökkun hjá fjölskyldunni í Mýrarvegi að koma til ykkar í júní.

Heiðdís Smáradóttir (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband