4.4.2008 | 13:02
Góðan föstudag - 4. apríl 2008
Ég nefndi það um daginn að framvegis yrði blogg þetta vikublogg og hugsanlega á mánudögum. Líklegra þykir mér að bloggið komi út á föstudagseftirmiðdögum. Ég opna oftast fyrsta bjórinn upp úr hádegi og þá verður maður svo asskoti pennaglaður. Byrjum þá:
Afmæli
Ég vil byrja á að þakka mæðrum og feðrum Íslands fyrir allar afmælisveislurnar í gegnum tíðina; fyrir hressilegu barnaafmælin með pylsunum og pizzunum og skúffukökunum og blöðrunum. Takk. Nú veit ég að þetta er ekki sjálfsagt. Það er menning að gera hluti vel og mannalega; t.d. að undirbúa afmæli hjá krakkanum sínum og bjóða haug af fólki. Hér er aumur bragur á afmælum. Um daginn fór Unnur á á McDonalds í afmæli og í gær í einhvers konar boltaland sem sérhæfir sig í svona veislum. Mikið þótti mér þetta aumt. Krakkarnir skráðu sig í afgreiðslunni, fengu armband með númeri og afgreiðslukonan tók við gjöfinni til vörslu. Ég sótti Unni síðan tveimur tímum seinna.
Ruðst inn á tökustað
Um hádegi í gær fór ég út að ganga eins og svo oft í skóginum vopnaður eyrnaútvarpi og sólgleraugum. Lalla mér eftir stígnum og sem ég tek eina beygjuna mæti ég ég ekki Nápóleon Bónaparte og vinum hans á hestbaki. Ég var fullkomlega fyrir og fékk stingandi augnaráð. Læddist þó í gegnum þvöguna og mína leið. Ég hafði ekkert séð í blöðum en þarna var greinilega verið að taka upp einhverja stórmynd; kannski ,,Emanuelle en Madrid" eða ,,Hopsasa pa sengekanten en Madrid".
Hiti
Tilhugsunin um hita er miklu betri heldur en hitinn sjálfur. Það sama á við um fyllerí. Eins er skemmtilegra að lesa greinar eftir Orra Pál Ormars um fótbolta heldur en að horfa fótbolta.
Verst
Verst er að þurfa að hringja á viðgerðarþjónustu út af hitakúti og þurfa að gera það á útlensku.
Rolling Stones og Scorsese
Ekki líst mér á brotin sem ég hef séð úr ,,Shine a light", mynd Martins Scorsese um Rolling Stones. Mynd Scorsese um Dylan var frábær enda fjallaði hún um unga Dylan, svarthvíta Dylan, dásamlega Dylan - en ekki kántrímuldrandi nútímadylan. Rolling Stones fáum við að sjá á nýlegum tónleikum og á ég ekki von á öðru en að þeir eyðileggi flest lög sín með asnalegum útsetningum, undarlegum gestasöngkonum og svo framvegis. Í öllum fréttum sem ég hef lesið um útkomu myndarinnar er tekið fram að 16 eða 18 myndavélar hafi tekið herlegheitin upp. Yndislegt. Þótt myndin klikki getur maður kannski dáðst að flottum klippingum og kranaskotum. Ein besta tónleikamynd allra tíma er the last waltz með The Band. Þar er Scorsese að verki. Síðan eru liðin mörg ár.
Frægir Úrúgvæar
Ætli þeir séu margir? Ég fer stundum á kaffihús sem er við hliðina á æfingasvæði Atlético Madrid í Majadahonda. Í morgun sat ég yfir kaffi og blaði og að baki mér fer fram viðtal með tilheyrandi ljósmyndasmellum; hver kannast ekki við Úrúgvæan snjalla Diego Forlan? Voðalega eru atvinnumenn í fótbolta annars orðnir barnalegir; spila playstation daginn út og inn og það bregst ekki að þeir eru með i-pod í eyrunum þegar þeir stíga niður úr félagsrútunum sínum. Svei mér ef ég sá ekki einn um daginn með sleikjó. Í gamla daga var allt betra, þá voru fótboltamenn tannlausir með feita barta. Sjáiði aumingjans Beckam á brókinni í einhverri auglýsingu. Andskotinn.
Evrópukeppnin í fótbolta
fer fram í Sviss og Austurríki nú í sumar. Nokkuð ljóst að Torres og Ronaldo verða eins og sprungnar blöðrur.
Ræktin
Mæli með færslu Stefáns Þórs um veskisstuld. Reiðir pennar eru góðir pennar. Og rauðir jafnvel líka.
Góða helgi
Þið sem ætlið í Alþýðuhúsið, H-100 eða Sjallann, gleymið ekki nafnskírteinunum.
Athugasemdir
Skál ! Er einmitt að súpa úr bjórglasi í 3°c og glampandi sólskini.
Jóhann "Nilli" Baldursson (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 16:10
Þykist sjálfur muna eftir tannlausum en vel hærðum knattspyrnumönnum. Man líka að þeir voru allir í of litlum fötum. Hugsanlega var þetta hluti af kreppunni.
Unnar (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 17:09
Á Spáni menn hrópa oft "hasta-la!"
og höfuð sitt þvo upp úr plastbala,
en síðla um nætur
er senjoran grætur,
þá kófdrukkna dreymir um kastala.
Sverrir Páll Erlendsson, 5.4.2008 kl. 19:07
Símanúmerið þitt kæri vinur?
kv, kalli
karl Karlsson (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 10:48
Ljótt að heyra af ómenningunni, fótboltatröll með sleikjó eða er þetta kannski bara gott dæmi um fullkomið jafnvægi ying og yangs?
Brynja (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 12:15
Mér dettur Enzo Francescoli í hug úr hópi mætra Úrúgvæa. Þú hefur sannarlega rétt fyrir þér með fótboltann, enda ógeðfellt að sjá fullorðna menn láta pelabörn hlaupa framhjá sér upp kantinn án þess að taka eina einustu sólatæklingu á ökkla. Sergio Batista, hvar ert þú nú? Ekki gleyma svo viðurstyggilegri söngmæði/-leti Jaggers, sem breytir öllu í gjall og grút.
Magnús (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.