Góður laugardagur 12. apríl

Kaffi

Er að drekka kaffi frá Kaffitári; við kaupum ekki innfætt kaffi. Og síðan blótar maður íslensku kanarífuglunum sem fljúga til heitu landanna með saltfisk og mogga í farteskinu. Maður er ekkkert skárri. En svona er þetta bara. Merkilegt þetta fyrirbæri kaffi; Guðinn Kaffi sem tilbeðinn er kvölds og morgna og þar á milli. Er einhvers konar leiðarstef; rauður þráður í tilverunni. Ísbrjótur í heimsóknum; jú, kannski tíu dropa. Við vorum part úr sumri á Ítalíu, hvenær var það? já, 2002. Hanna var að vinna og ég að skottast með Unni litla og þýða vondar bíómyndir á síðkvöldum. Við bjuggum eiginlega úti í sveit, í þorpi sem heitir að mig minnir  Masotti og er nálægt Pistoia, sem er nálægt Flórens. Já. Við leigðum fína íbúð og leigusalinn bjó við hliðina í villu sinni ásamt konu sinni og dóttur. Leigusalinn var risi. Eini risinn sem ég hef kynnst á ævinni og hann hét Capone í ofanálag. Hann var atvinnumaður í körfubolta og mig minnir að hann hafi verið vel yfir 2,20 og hæð. Villan hans var sérútbúin; öll dyraop og slíkt löguð að hans stærð. Þetta var fínn kall sem hafði gaman af að æfa enskuna sína og fiflast í Unni. Í næsta húsi bjó Antonio og fjölskylda, og við urðum miklir vinir. Hann vildi læra ensku og ég ítölsku og við reyndum að bulla eitthvað um HM i fótbolta sem þá var einmitt í gangi. Maður þarf að kíkka aftur á þetta fólk. Kaffi já; fornvinur okkar hann Luca, sem giftur er Silviu, á heima í Pistoia. Eitt sinn kom hann í heimsókn á mótorhjólinu sínu, hvort klukkan var ekki að ganga tólf á hádegi. Ég spyr hvort hann vilji ekki kaffi. ,,Nei", svarar hann, ,,Ég er búinn að fá mér kaffi." Íslendingi finnst þetta skrýtið svar. Kaffidrykkja er aldrei endanleg og svei mér ef mér fannst þetta ekki móðgandi. Maður verður sérstaklega að passa sig þegar gamalt fólk bíður manni kaffi. Þá má aldrei afþakka. Þú getur alveg eins rifið úr því hjartað og trampað á því á skíðaklossum. 

Getafe 

Knattspyrnufélagið Getafe minnir mig á íslensk landslið í fótbolt og handbolt (allavega fyrr á tið). Þeir sýndu það að hjarta og stolt er betra eldsneyti en feitar ávísanir. Það sem þeir djöfluðust í Bayern. Og þeim hefur tekist það ótrúlega að snúa harmleik upp í sigur með því að bera sig mannalega. Tíu milljónir Spánverja horfðu á leikinn í sjónvarpi. Það er ekki lítið.

Greinin um Ísland

Hefur ekkert verið fjallað um greinina sem birtist í El País? Heilmikil lofrulla um landið og fólkið. Ég þyrfti eiginlega að þýða hana. Hún er mjög fyndin. Ég kannaðist eiginlega ekkert við þetta land. Viðbrögð við greininni voru mjög sterk og var hún mest lesna greinin á vef blaðsins um síðustu helgi. Það mun allt fyllast af Spánverjum í sumar, sjáiði bara til. Ég myndi ekki segja að Ísland væri besta land í heimi og Íslendingar hamingjusamasta þjóð í heimi - hitt er ljóst að þar eru tækifærin á hverju strái og einstakir hamingjumöguleikar - en við erum meistarar í því að klúðra kjöraðstæðum.

 

Nú ætlum við í bæinn

 með grenjandi börn sem hata bæjarferðir. Hver veit, kannski verði ég í stuði til að ég þýði hápunkta greinarinnar seinna í dag eða kvöld. Nú kannski skora ég líka á konuna í Skrafl eða Tafl. Kannski maður setjist út á svalir með göróttan drykk. Örugglega kannski.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

skrafl hljómar vel og ég mæli með strawberry margarita, það  þýðir  í manni hjartað ef þarf.  Hér verður túnfiskur í kvöld og líklega blávatn með þó líkur séu á að pepsimaxið fái að vera memm. Knús vinur til þín og þinnar fögru konu.

Brynja (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 14:13

2 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Þýðingu strax! Þú hlýtur að hafa tíma í það - ekki ertu að blogga a.m.k! Ég vil nota tækifærið og mótmæla þessari bloggstefnu þinni. Þér hefur stórhrakað. Mér ferst kannski sjálfum en þar var þó engu til að hraka, engar hæðir að hrapa úr. Ertu Íkarus eða Fönix?

Guðjón H. Hauksson, 14.4.2008 kl. 13:50

3 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

K A F F I.

Kristinn R. Ólafsson talar frá Madrid veður uppi í auglýsingum hér í sjónvarpi, talar til skiptis spænsku og íslensku og segir að M E R R I L D !!! sé besta kaffi í heimi.

Þetta sýnir kannski hvert ástandið er í kaffimálum á Spáni. 

Þessi iðnaðarvara er morgunuppáhellingur há mér þegar það er ódýrara í Bónusi en svartur Rúbín, sem er litlu skárra. En Kaffi tár þykir mér til dæmis bragðbetra en Te og kaffi. 

Sverrir Páll Erlendsson, 17.4.2008 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband