27.4.2008 | 10:18
Af Noregi
Ég held það hafi verið M.Teitsson sem benti mér á afar sérkennilega söguskoðun í einu af lögum Bob Marleys. Maður lærði í skóla að gyðingar hefðu krossfest Krist og Hallgrímur Pétursson fjallar töluvert um þetta og það var vandaður maður. Í laginu So muchs things to say af plötunni Exodus segir Bob Marley aðra og töluvert átakanlegri sögu af síðustu augnablikum frelsarans - í hans meðförum eru það ekki gyðingar sem hengja frelsarann upp heldur Norðmenn, af öllum þjóðum! Þar segir hljóðrétt:
"But I'll never forget Norway: they crucified Jesus Christ" Ég hló að M.Teitssyni þegar hann sagði mér þetta og vísaði vitleysunni á bug. Hlustaði síðan á textann og viti menn, þetta er laukrétt. En hvað fær jamakískan söngfugl til að syngja um meintar misgjörðir Norðmanna árið 1977? Er þarna einhver hulin merking? Ádeila á olíugróða? Er þetta kannski vísun í morðið á Höskuldi Hvítanesgoða eða jafnvel Njáli í brennunni. Var Bob Marley sérfróður um Íslendingasögurnar? Þetta verður að teljast heillandi viðfangsefni fyrir fræðimenn.
Ég skil ekki Noreg og samband Íslendinga við þetta "móðurland" sitt. Bandaríkjamenn af írskum ættum virðast halda rótunum frekar á lofti en hitt og lyfta þeim hátt á Patreksdegi svo moldin feykist um bari og borð svo Budweiserinn tekur á sig blæ og lit Guinnessbjórsins. Ég hef aldrei hitt nokkurn sem var stoltur af þessum tengslum við Norðmenn og aldrei hef ég hitt neinn sem sá nauðsyn í því að heimsækja upprunalandið - enda þótt að flestir séu sammála um að Noregur sé eitt fallegasta land í heimi. Einhverjir læknanemar og útgerðarmenn dveljast lengri eða skemmri tíma í Noregi en þeim þykir svo sem enginn frami í því. Hvernig stendur á þessu? Íslendingar skreppa helgi og helgi til Kaupmannahafnar. Höfum við eitthvað gott að segja um Dani? Ég trúi því ekki að 700 króna bjór á Strikinu sé svona spennandi. Af hverju skreppur enginn til Oslóar eða Bergen?
Annað um Norðmenn. Kannski er það tilviljun en á skrölti mínu um háskóla í Þýskalandi rakst ég aldrei á Norðmann. Maður hékk með Svíum og Dönum og vissi af einhverjum Finnum en hvergi sá ég Norðmann. Leiðréttið mig endilega, ég held ég þekki engan Norðmann persónulega.
Hins vegar má ekki gleyma öllu því sem Norðmenn hafa gefið okkur á sviði menningar og lista, íþrótta og afþreyingar: Knut Hamsun og Odd Nerdrum, Dimmu Borgir og kjellinn sjálfur Jon-Arne Riise...
Athugasemdir
Sæll!
Gleymir þú ekki Magnúsi Carlsen og Simen Agdenstein? Hver annar hefur verið landsliðsmaður í knattspyrnu og stórmeistari í skák í senn? Svíar eiga bara Björn Lomborg.
Unnar (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 16:58
Viða hef ég velkst um sjá, sagði tiltölulega vont skáld, og víða hef ég farið, en aldrei komið til Noregs. Varðandi politíska spurningu þína í lokin tel ég að hún kunni að snúast um þá grundvallarhugmynd hvort Norðmenn séu yfir höfuð persónulegir.
Tryggvi Gíslason fyrrum skólameistari talaði oft um það hversu Norðmenn hefðu gott skopskyn. Aldrei hefur tekist að sannfæra mig um það. Tindar norsks spaugs munu vera sjónvarpsþættir um professor Drövel, sem voru svo leiðinlegir að ég gleymdi að hlæja að brandaranum um fiðlunginn Ole Bull, sem sagður var hafa verið bróðir Sitting Bull.
Ég hef heyrt um Noreg, aldrei séð hann nema á mynd. En það er nú mörg myndin og margt er sagt. Kannski er hann ekki til.
Sverrir Páll Erlendsson, 30.4.2008 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.