Vor, vor!

Mér varð hugsað um Noreg og þá er stutt í Vorveg - eða bara vor.

"Í þessari ritgerð ætla ég að skrifa um vor. Vor eru eiginlega í öllum löndum, nema sumstaðar. Allir eiga vor eða hafa átt vor. Einu sinni voru til vormenn en kannski ekki lengur. Vor var líka einu sinni notað sona: "Forseti vor" en það er ekki svona árshátíð, eða, þú veist... það er meira sona minn. Kýr fara oft út á vorinn. Það þikir þeim gamann. íslensk vor eru skrýtin. Þau eru stundum vetrar. Það var mjög gaman að skrifa þessa ritgerð og ég lærði mikið á að skrifa þessa ritgerð."

Þegar ég var lítill kom vorið oft á sunnudögum. Þá höfðu skaflarnir náð að hörfa nægjanlega mikið til að hægt væri að fara í fótbolta uppi á malbikinu við Lundarskólann. Minnisstæðir eru vorleikir á Sanavellinum sem sáu þvottavélum bæjarbúa fyrir verkefnum dögum saman.

Þegar ég lét munstra mig á togara sem óharðnaður skólapiltur og síðar háskólanemi náði maður oft svokölluðum stubbi fyrir sjómannadag. Þ.e. stuttum túr eftir að skóla lauk á vorin. Og á þessum stutta tíma hafði vorið laumað sér upp í tré og runna á Akureyri.

Eins og allir vita er oft á tíðum gott upp úr sjómennskunni að hafa en fæstir myndu segja að vinna um borð í frystitogara væri skemmtileg. Einungis eitt var skemmtilegt. Að sigla inn Eyjafjörðinn að loknum góðum túr, verandi á frívakt, það er sól og maður er nýrakaður og þetta er sama tilfinning og verandi á leið á ball. Akureyri nálgast - taskan er klár - gramsið tekur í. Adios.

 Um daginn var spænskur vinnufélagi Hönnu í smá heimsókn og hann spurði hvort við þekktum eitt og annað í spænskri menningu og nefndi mann að nafni Georgie Dann, en hann ku vera/hafa verið einhvers konar vorboði sem kom með vorlag á hverju ári. Eitthvað kannaðist ég við þetta fyrirbæri. Sálin og Sólin sáu okkur fyrir vorundirspili árum saman. En allavega þessi Dann þykir kannski ekki flottur - kannski flottur í menntaskólahúmorsmerkingunni. Eitt af hans frægustu lögum heitir La Barbacoa eða "Grillið" í lauslegri þýðingu. Fyrsta erindið er svona:

"Este Domingo con todos los amigos
nos vamos para el campo a comer la barbacoa.
Y nos reunimos con un montón de gente
hacemos nuestro ambiente y una linda barbacoa. "

(í sveitina fer ég á sunnudaginn

með vinum mínum að borða grillmat.

Og við hittum fullt af fólki

í góðum fíling í grillstuði)

Ég lenti í smá erfiðleikum með síðustu línuna en þið náið merkingunni.

Hugsanlega grilla menn bara úti í sveit - ég sé engin grill hér á svölum og engin er kolaanganin. Einhverju sinni var ég í útilegu og hvort menn höfðu ekki skipt eitthvað með sér verkefnum; einhver ætlaði að koma með lamb, einhver eftirmat, ég ætlaði redda humar í forrétt. Humarinn kom úr kistunni í Jörvabyggð þar sem hann var geymdur í kjörísboxi - og auðvitað tók ég kjörísbox orginial og bauð upp á heitan ís í forrétt.

 í dag er spáð 23 stiga hita og 30 á sunnudaginn. Þetta er erfitt líf.

Ég væri alveg til í pylsu með öllu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Minn kæri Arnar

Vorið er eitthvað að láta bíða eftir sér hérna á elsku Akureyri.

En ef þú leggur saman hitatölurnar bæði inni og úti þá eru 24 gráður.

Knús á línuna

B-in 3

Birna (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 13:04

2 identicon

Gleðilegt sumar :)

Mitt vor er óneitanlega fuglasöngurinn sem ég vaknaði við fyrir norðan á Húsavík núna um daginn... hér í upp í Kópavogssveit heyrist því miður enginn fuglasöngur, aðeins mávagarg.  Þeir eru að vísu nokkurskonar vorboði hérna því að þeir byrja að sveima hér í hópum um leið og svalabúar byrja að setja grillin í gang og sæta færis að hrifsa þá bita sem eru óvarðir.  Einn gerðist svo djarfur síðasta sumar að setjast á lokið á grillinu okkar á meðan við vorum að gæða okkur á steikinni... við köllum hann Gústa.  Miðað við stærðina á kvikindinu þá er líklega best að skilja einkasoninn ekki eftir eftirlitslausan á svölunum...

Auz (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 23:28

3 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Eftir viðbjóðslegan norðankalda í sumarbyrjun er loksins farið að grilla í sólina (barbacoa Y soleil). Og tatsächlich ætlum við að grilla í kvöld. Fyrsta grillið hér heima. Kannski maður drekki eins og einn léttan pripps í sterkasta lagi með herlegheitunum. Maður er svo rosalega edrú um þessar mundir, nýbakaður faðir í þriðja veldi, að tilhugsunin um Leffe með ykkur hér í sumar er næstum því dónaleg.

Bestu kveðjur úr hreysinu suður í sólina.

Guðjón H. Hauksson, 3.5.2008 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband