6.5.2008 | 17:19
Eitt og annað
Nú er kallinn farinn að þekkja Spán aftur - ef einhver hélt að Þjóðverjar væru þjóð pappírsvinnu, formsatriða og almennrar skriffinnsku þá er Spán þjóð þjóðanna í þessum efnum. Eitthvað var farið að snjóa yfir minningar frá síðasta sumri þessu tengdar - en í gær og í dag hafa minningarnar fengið nýtt líf. Þetta tengist eilífri leit minni að málaskóla hér í nágrenninu sem loks virðist vera að bera árangur. Ég frétti af fyrirbæri sem heitir Escuela oficial de idiomas og er á vegum ríkis eða bæjar - og það besta er að hann er ekki dýr. Flest hverfi eru með útibú, nema bærinn okkar. Hins vegar er ekki langt að fara til Las Rozas og þar má sjá mig þessa dagana í fullri vinnu við að fylla út eyðublöð og vesenast. Hugsa sér, maður er að fara á námskeið til að læra mál og í hendur fær maður eyðublöð á stofnanaspænsku með smá dassi af spænskum súrrealisma. Að komast á námskeiðið tekur allavega 7 skref; fá eyðublöð, fara í banka og borga fyrir stöðupróf (ekki sama hvaða banka, og alls ekki hægt á staðnum), skila eyðublöðum og NB staðfestingu á amk 8 ára grunnskólanámi (er Sverrir Páls enn á lífi?), síðan er eitthvað lotterí um það hver fær inni, svo þarf að mæta á staðinn og skoða listann, svo er stöðupróf, svo þarf aftur í banka og svo og svo. Sami prósess er síðan hjá börnunum, en í sumar er boðið upp á leikjanámskeið og slíkt niðurgreitt og fínt hjá bænum. Vesenið er bara svo mikið að helst vildi maður troða öllum eyðublaðahaugnum upp í trantinn á vesalings fólkinu.
Ég keypti mér línuskauta um daginn - líst vel á sportið. Mig grunar nefnilega að lykillinn að þindarleysi Nafna Valsteins sé þetta sport. Í þessum orðum töluðum eru krakkarnir einmitt úti á þessháttar skautum.
Í blokkinni er töluvert um það að krakkarnir séu "grounded" eða "castigado" og fái þá ekki að fara út. Ekki veit ég hvað börnin hafa gert af sér en eitthvað finnst mér refsing sem þessi virka gagnslaus.
Ég er aftur farinn að þýða kvikmyndir og fleira - var búinn að gleyma hvað það er fínn starfi - í hófi.
Og já, við fórum í fína ferð upp í fjöllinn og hittum íslenska og spænska kunningja. Fjallþorpin hér í kring eru fræg fyrir smágrísi og lömb (3-4 vikna) - sérlega gut. Tékkuðum líka á La Granja sem er sumarhöll kóngafólksins með allmiklum og merkilegum garði.
Ein pæling:
Hvað er maður (það er ég)? Þetta er erfið spurning og eins og staðan er í dag, stend ég á gati. Er ég kennari? Er ég húskarl? Er ég þýðandi? (Er ég þulur?) Er ég atvinnulaus? Ég held ég hafi fundið svarið í gær. Svar sem rímar vel við frekar brotna sjálfsmynd. Nú svara ég þegar fólk spyr: ,,Hvað gerir þú?" ,,Ég er atvinnulaus atvinnumaður í fótbolta." Reyndar hef ég aldrei fengið borgað fyrir að spila fótbolta, en ég lít á mig sem atvinnumann í fótbolta, og það hlýtur að teljast tæknilegt vandamál að vera ekki í vinnu á þessari stundu. Helst myndi ég þó vilja vera handar- eða hné fyrirsæta. (Mig minnir að Guðmundur Hreiðarson fyrrum markvörður hafi verið handarfyrirsæta - hann var höndin sem smurði brauðið, skar laukinn, lyfti dósinni o.s.frv.) Hnéfyrirsæta. Hugsa sér. Alltaf þegar þarf að auglýsa krem, eða hnéhlífar eða plástra þá yrði kallað í mig og ég fengi 40.000 kall fyrir tveggja tíma vinnu. Eða rassafyrirsæta. Eða.
Í hverfinu okkar er allt að gerast. Haldiði að Maradona hafi ekki mætt á æfingu hjá Atletico (rétt hjá okkur) til að fylgjast með tilvonandi tengdasyni. Já, þessir gömlu góðu eiga ekki í vandræðum með að drepa tímann: Maradona, Gasgojn og ekki leiðist nú honum Ronaldo í meiðslunum sínum.
Athugasemdir
Var það ekki Rögnvaldur reginskytta, eins og félagi þinn KRRRRistinn Errrr Ólafsson kallar hann, sem gekk um daginn í samtök klæðskiptinga?
Í þessu tilfelli mætti kannski kalla það að falla í trans :)
Sverrir Páll Erlendsson, 6.5.2008 kl. 21:47
Diego er drengur góður. Hann hefur örugglega gefið viðstöddum í nefið.
Magnús (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 11:15
Douze points fyrir þetta kristinnerrska orðatiltæki Sverrir Páll
Hanna (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 17:00
Getraun: Hver var kallaður Rögnvaldur Gyllinknöttur í pistlum Krisins R?
Unnar (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 09:40
Annars heyrði ég frétt um það að Magnús Kjartansson ætlaði að flytja lagið Sólarsamba með dóttur sinni á nýjan leik. Ef ég man rétt þá er þetta gamalt lag. úr Evrópukeppni sönglagahöfunda. Væri ekki bráðsnjallt fyrir þig Arnar að sækja um það að leika í myndbandinu? Eða kannski flytja lagið sjálfur með Unni? Þið feðginin mynduð syngja ykkur inn í hjörtu landsmanna. Koma með sólina frá Spáni inn í stofur Íslendinga.
Unnar (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 10:13
Ruud Gullit
Sverrir Páll Erlendsson, 10.5.2008 kl. 09:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.