Hlutirnir

Rúmlega hundrað á eru liðin frá því að afi Magnús leit dagsins ljós í torfbæ í afdalnum Djúpadal árið 1907. Þessi pæling fjallar annars lítið um hann. Á hundrað árum hefur afstaða okkar til hlutanna breyst ansi mikið - reyndar á síðustu 20 árum. Fyrir einhverjum árum voru hlutir sjaldgæfir, dýrir, eftirsóknarverðir og bar að fara vel með, eins og það var kallað. Ef fátækt snýst um að fara vel með þá sýnist mér ríkidæmi aðallega snúast um að fara illa með og henda sem mestu. Og hér kemur Kína til sögunnar.      

Margir hlutir hafa verið keyptir þetta síðasta ár á Spáni; óumflýjanlega og flýjanlega. Handklæði og mublur, tölvur og matchboxbílar, föt og skór; allt framleitt í Kína. Mér finnst ástandið kristallast í Ofur-sportbúðinni Decathlon sem er á stærð við 3 stærri gerðir af Hagkaupum. Þar fæst allt sem tengist íþróttum allt frá golftíum (skrifað svona?) til kajaka. Hver hlutur hefur á að giska tíu verðmiða; þ.e. þú getur fengið bolta á 3 evrur og upp í 100 evrur. Stuttbuxur á 3 evrur og upp í 50 evrur, og so videre. Það er sem sagt alls staðar allt fljótandi í drasli. Í ástandi sem þessu hættir fólk að vanda sig við innkaupin og þið barnafólkið, kannast einhver við fataskáp sem þennan: 6 flíspeysur, 4 húfur, stakir sokkar í hrönnum. Og síðan er krakkinn alltaf í sömu flíspeysunni.

Getur einhver bent mér á krakka sem náð hefur að slíta flík á síðustu tíu árum?

Fyrir einhverjum árum kom upp ný, einkennileg og óþægileg staða - ég held meira að segja að heimsmynd sumra hafi gliðnað. Þá hættu menn að stoppa í göt. Þá var sagt að það borgaði sig ekki. Ég held að samfélög sem hætta að stoppa í göt og henda frekar og kaupa nýtt endi úti í móa. Mér finnst allavega eitthvað skrýtið við þessa hringrás: kaupa föt frá Asíu, setja hluta þeirra aftur í gám og senda til baka í góðgerðarskyni.  

Ég ætlaði í hjóltúr um daginn - en komst að því að dekkið hafði sprungið. Ég fór því í Decathlon til að kaupa bætur og lím. Komst þá að því að það var dýrara að kaupa bætur og lím heldur en nýja slöngu.         

Maður kaupir allt of mikið af helvítis drasli. Það þarf líka sterk bein til víkja sér undan auglýsingum og markaðsherferðum.

Það er list að kaupa hluti. Það fylgir því góð tilfinning að kaupa rétt og áralangt óbragð fylgir vanhugsuðum kaupum.

Fyrir tíu árum keypti ég mér vandað og frekar dýrt fjallahjól. Þetta var í Lúxemborg og alltaf veitir það mér gleði að sjá blátt stellið og glansandi teinana.

Fyrir tíu árum gaf mamma (ég held ég sé ekki að ljúga) mér bláan adidas-íþróttagalla; þið vitið alltaf að því austurþýski markmannastíllinn. Eins og nýr.

Uppáhaldsbolurinn hans Gríms, 10 ára gamall fótboltabolur af Árna bróður. Aftan á honum er prentað nafn Jari Litmanens. Man einhver eftir honum? 

Síðasta haust keypti ég ódýran hraðsuðuketil í Carrefour - í framtíðinni ætla ég að velja honum stað  í stássstofunni sem tákn fyrir vond kaup.

Ég held ég sé ekki beint nískur en stundum grípur mig aðskilnaðarkvíði þegar peningar eru annars vegar... Þeir eru jú takmörkuð auðlind og "það skiptir máli að velja rétt." Að kaupa vatn á flöskum finnst mér hrein skelfing og óbragðið er skelfilegt. Ljúft er hins vegar að kaupa sér brakandi ekta vínil með Miles Davis eða Megasi; helst notaðan.

 En allt sem ég vildi sagt hafa er bundið í þessari hendingu:

 "Sú er ástin heitust sem bundin er meinum, er því best að eyða ekki neinu."

                                   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Já. Nú er allt einnota. Hjá mér bilaði ísskápur fyrir fáum árum, fárra ára gamall. Ég fór með hann í viðgerð, en viðgerðarmaðurinn sýndi mér fram á að það væri ódýrara að kaupa nýjan skáp en að gera við þennan. Mamma og pabbi keyptu Westinghouse með straumbreyti þegar ég var barn og hann var notaður í meira en 45 ár án þess að bila.

Ég hélt að þetta væri: "Sú er ástin heitust sem bundin er meinum, því er best að eiga hjól með teinum."

Enn auglýsir Krrrrrrristinn Errrrrrr Merrild kaffi - á svölunum sínum og á kafihúsi í Madrid. Ég er ekki undrandi þótt þið flytjið inn kaffibaunir.

Sverrir Páll Erlendsson, 18.5.2008 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband