19.5.2008 | 13:53
Fig-Rolls, saltfiskur og snobb
Ljótar tungur segja að bara gamalmenni borði Fig-Rolls. Svei ykkur.
Jói Billason og Hildur spúsa hans voru hér yfir helgina. Þau eru annars á spænskunámskeiði í Burgos, sem er ca. 2 tíma héðan. Þau eru svo lukkuleg að búa inni á Spánverjum og virðast vera að fá Spán beint í æð - öfugt við okkur sem búum á íslenskri eyju hér í Madríd.
Hanna gerðist svo fræg að sjá Madríd að kvöldlagi er hún fylgdi Jóhildi um bæinn síðasliðið föstudagskvöld. Vel af sér vikið. Og daginn eftir fóru þau á Prado og náðu að vera á undan múgnum sem réðst inn um hliðið eftir siestuna.
Annars bara þokkó - skil reyndar ekki dræmar undirtektir við getraun - þetta hlýtur að fara að koma.
Keypti íslenskan saltfisk áðan í Carrefour - spurning um að bræða smjör og taka vel á því í kvöld.
Það er ekki þverfótað fyrir íslensku grobbi í spænskum blöðum - eða kannski frekar undarlegri aðdáun spánskra á þessu skeri. Nú var það heilmikil umjöllun um þessa matarhátíð þarna, Food and fun og hvað allt var ferskt og dásamlegt og yndislegt. Það fylgir aldrei sögunni í þessum greinum að hlutir sem þessir eru bara fyrir ríka eða veruleikafirrta og venjulegur Spánverji myndi aldrei 10-15 þúsund kall fyrir 3 skreytta matarbita og lögg af rauðvíni. Almennt séð finnst mér heimskulegt að fara út að borða á Íslandi og verðið nánast alltaf út úr kú. Fyrir utan þetta er Ísland besta land í heimi og við þurfum ekkert að þykjast vera einhver gourmet-þjóð. Amma og afi í Norðurgötu áttu þýskan kunningja sem kom til Íslands á stríðsárunum og heimsótti þau síðan af og til áratugina á eftir. Þetta var stórfrægur prófessor í norrænum fræðum, hvort hann var ekki við Kielar-háskóla. Amma og afi fóru held ég aldrei út að borða og þýska prófessornum fannst ekkert að því að fá nýveiddan silung, kartöflur úr garðinum - skyr, bláber og rjóma í eftirmat og Braga á eftir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.