This is my lime

já, eitthvað munu menn bergja á límonaði í kvöld horfandi á herlegheitin. Hér verður "partí" aðallega krakkadæmi; blöðrur og skröll - skro og skrúfur.

Jóhann Svarfdælingur kom Dalvík á kortið og nú er Friðrik Ómar búinn að bródera nafn bæjarins á heimskortið forever. Já, eflaust verður dansað í Sæluhúsinu í kvöld og hver veit nema beinagrind Jóhanns takið sporið þar sem hún stendur við esso-stöðina í útjaðri bæjarins.

Ég gær var mikill menningardagur hjá undirrituðum. Ég fór í bæinn á Thyssen-safnið. í vetur fór ég á Reina Sofia sem hýsir meðal annars Guernica og fleira gott. Thyssen er ekki síðra. Í þetta skiptið leigði ég mér rafrænan gæd sem sagði mér eitt og annað skemmtilegt um valin verk. Ég klikkaði aðeins á því og byrjaði á því besta; 20. öldinni. Lucian Freud, Francis Bacon og Giacometti; brútal og flottir. Kurt Schwitters. Á hæðinni fyrir ofan nokkrir flottir van goghar og mismunandi skemmtilegir impressionistar. Á efstu hæðinni var guð mættur og jesúbarnið og þá fór ég.

Annars hef ég því miður lítið vit og litla tengingu við myndlist. Sýndi ekki mikil tilþrif í myndíð eða hvað það hét í den en var svo heppinn að vera með Einar Helga sem kennara í Gagganum. Það var ótrúlegt hvað honum tókst að láta okkur gera - synd að vera búinn að farga þessum listaverkum öllum.

Framundan eru einmitt Endurfundir "Gagnfræðinga" frá 1988. Ég verð fjarri góðu gamni. Ég fæ líka skrýtið bragð í munninn þegar ég hugsa til áranna í Gagganum. Það var eilífur hringlandaháttur með bekki á þessum þremur árum og engin bekkjarstemning sem myndaðist. Ég held líka að skólinn hafi verið í kreppu á þessum tíma; hluti kennaraliðsins forn í skapi og háttum, skólabyggingin orðin þreytt og stjórnin gamaldags.  

Ég hef áhyggjur af veðrinu hér. Sundlaugin í portinu opnar 9. júní og til þess að hún þjóni hlutverki sínu þarf í það minnsta 35 stiga hita og sól. Annars er hún pyntingatæki voðalegt. Þessa dagana er "umhleypingasamt," 15-22 stiga hiti og töluvert um skúrir.  Sjáum hvað setur.

Góðir Íslendingar, megi Grillið vera með ykkur í kvöld og majónesað kartöflusalatið, svínakótelettur og lamba, farið sparlega með Víking og Kalda. Farið sparlega með væntingarnar og druslist til að dansa með spænska laginu: uno: el brikindans, dos: el crusaíto, tres: el maiquelyason (michael jackson!), quatro: el robocop.

En við Grímur segjum: "Áfram Finnland!" 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aserbaídsjan, beibí.

Magnús (IP-tala skráð) 24.5.2008 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband