30.5.2008 | 08:40
Og dagarnir líða
Af skjálfta
Hlustaði á fréttir af jarðskjálftum í gær og horfði á kvöldfréttir. Það sló mig að hlusta á hástemmd lýsingarorðin. Vissulega er þetta vont. Vissulega er illt að hús skemmist, eldhúsinnréttingar endi úti á gólfi og barinn á veitingahúsinu splundrist. Hins vegar virðist vera meiri ástæða til að senda blöðrur á loft og flugelda og slá upp veislu og hrósa happi. Enginn virðist hafa dáið eða slasast lífshættulega. Að barma sér yfir skemmdum á eignum er hálf aumt - ég býst við að menn muni enn myndirnar frá Kína frá því fyrir nokkrum vikum.
Af Grími
Matsboxbíll slæddist með í þvottavélina í gær. Þetta þóttu Grímsa spá ansi merkilegt og plantaði sér fyrir framan þvottavélina í gær og horfði spenntur með nýjasta þættinum af Löðri.
Vinur Gríms af leikskólanum, hann Sancho, er á leið til Íslands í sumar. Í tilefni af því ætlar fjölskylda hans að kíkja í heimsókn og ég ætla að ljúga einhverju að þeim. Veit samt ekki hvernig ég á að færa þeim fréttirnar af skjálftanum.
Að fá að klippa svartar neglur drengsins kostar sitt. Í þetta sinn mútaði ég honum með skyndibita. Svona er maður orðinn.
Af Unni
Búin að læra chiki-chiki og fullkomna dansinn.
Af slysagötum
Það er ljúft þegar maður á eitthvað inni; til dæmis góða bíómynd sem allir hafa séð. Ég ætla að horfa á Apocalypto í kvöld. Ég held að Nafni Jónsson sé eini Íslendingurinn fyrir utan Gísla á Uppsölum sem ekki hefur séð Með allt á hreinu. Gísli mun ekki sjá hana úr þessu en spurning með að tríta nafna þegar hann kemur í heimsókn.
Af eikum
Við búum í útjaðri einhvers konar verndarsvæðis. Hér eru samt engir indjánar en hins vegar ansi gamlar eikur. Hér við hliðina er golfvöllur og til stendur að stækka hann. Á sunnudaginn verður því mótmælt að fella þurfi 325 eikur ef til stækkunar kæmi. 325.
Andrarímur
Ég hlustaði á ágætan þátt Guðmundar Andra sem er stundum eða alltaf á rás 1 á sunnudagskvöldum. í þetta skipti las hann nokkra lausamálspistla eftir Stein Steinarr. Það var gaman. Eins lék hann gamalt viðtal við Alla ríka sem talaði um þegar hann fékk brauðsneið með kjötáleggi þegar hann var 5 ára. Það var ekki eins gaman. Inni á milli var síðan leikin grísk tónlist. Sérkennileg blanda en gekk upp. Guðmundur er raddgóður maður og skrifar líka stundum vel. Stundum verður hann hins vegar of angurvær. Góð pistlabókin sem hann gaf út fyrir nokkrum árum og ég man ekki hvað heitir.
Af Sigur Rós
Það kom að því. Nú er Sigur Rós komin upp úr jeppahjólförum átta mínútna laganna og komin út á hraðbraut roppsins. Finnst þetta myndband samt leiðinlega hippalegt. Á svipuðum slóðum og MGMT sem eru með vinsælt hippalag. Allsbert fólk sem reykir hass og flýr heiminn og situr einhvers staðar í kringum eld er leiðinlegt. Hunskisti til að vinna, ha. Ég er til dæmis að vinna í því að fara að vinna. Kannski.
Plötur
Hver hefði spáð því að vínilplatan risi aftur úr gröf sinni?
Kvölin og völin
Það er ekki þverfótað fyrir uppákomum og festivölum hér í sumar. Ég enda með því að gera ekki neitt.
Nautaat
Þurfti spánska ríkissjónvarpið að sýna þegar nautið stakk horninu upp í endaþarminn á nautabana og hljóp með hann eins og fána um völlinn?
Athugasemdir
jössess, er í lagi með nautabanann? Sá brot úr myndbandi Sigurósar og leist vel á, sammála með jarðskjálftagrenjið þó vissulega erfið lífsreynsla, er með kínverskri stelpu í skóla sem á um sárt að binda vegna jarðskjálftans á heimasvæði hennar, ekkert grín, ég horfði á Löður í gamla daga og kann ekki chikichiki, hljómar sem verulega góður dans og blessaður vertu skelltu þér á eitt festival
Brynja (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.