9.6.2008 | 09:05
"Við vorum sviknir um stelpur"
"Við vorum sviknir um stelpur sem við stóluðum lengi á,
við höfðum staðið í skilum með innborganir og þær ekkert smá
við vorum píndir í afvötnun innvið sundin blá
við fórum út þaðan hálfu verri og skelltum okkur beint á krá"
Ekki veit ég af hverju þessar ljóðlínur Megasar koma upp í hugann, kannski er það þessi svikapæling.
Í dag átti allt að verða gott í Madríd, í dag átti sumarið að byrja en það rignir brennisteins hundum og köttum úr fötu. Og við erum að fá heimsókn frá góðu fólki sem mun horfa á okkur ásökunaraugum með samanbitnar varir og eins og hugsandi: "Þetta er þér að kenna."
Annars texti sem kemur upp í hugann:
"Helgin var ömurleg
sáum Moldrok leika í festi
en Lolla Matt og Vala Buff
stungu af með kókgæjunum sætu"
Löng unga fólsins með Unun; eitt besta popplag Íslandssögunnar, hugsanlega ásamt 90.kr perlunni með Maus.
En annars var helgin ekkert ömurleg - byrjaði reyndar með hressilegri ælu af Gríms hálfu á fimmtudaginn (Heins baunir í dós blær á útkomunni). Við héngum því heima við félagarnir fyrri part föstudags. Minn maður var ósáttur við að fara ekki í skólann, til stóð að bekkurinn hans færi niður í Madríd á náttúrugripasafn - hann var hinsvegar búinn að fara á safnið fyrr í vetur og þetta gerði því ekki mikið til.
Og ég missti mig í ikea. Keyrði til Alcorcon þar sem skrattinn á heima. Var mættur fyrstur í ikea með gulan poka, blýant og minnisblokk. Varð hugsað til martraðakenndra heimsókna í ikea fyrir tæpu ári; þá vissi ég ekki hvað borð var á spænsku. Nú hinsvegar þurfti ég ekki að kaupa borð þannig að ég hef ekkert grætt á þessari spænsku. Upphafsskrefin voru erfið og í mér glímuskjálfti og til þess losa kvíðahnútinn hætti ég við allt í bili, gekk frá gula pokanum, og því og fór beint í sjoppuna og keypti mér pylsu, salmonrúllu og sódastrím. First things first. Og svo var haldið áfram. Ég vann sigur á sjálfum mér og ikea og kom glaður út með dýnur og stóla og lampa og hrökkbrauð og Kallekavíar. Lifi Svíþjóð.
Í framhaldinu átti ég stefnumót við Jose spjallbróður minn í molli einu þar rétt hjá. Við tókum heljarspjall um líf og tilverur, 65% enska og 35% spænska. Við ræddum meðal annars um nautaat; en þau tíðindi urðu í vikunni að aðalbaninn, José Tómas, átti ægilega endurkomu í Las Ventas (aðalstaðurinn í Madrid) og var borinn út um stóra hliðið á gullstól eftir að hafa fengið fjögur eyru. Sem þýðir að "bardaginn" var nánast fullkominn. Spjallbróðir minn var á því að nafni hans væri einfaldlega geðsjúklingur, og líklega er það rétt. Hugsanlega gætuð þið fundið þennan bardaga á Youtube.
Það er gaman að vaska upp. Í því felst hugleiðsla. Eins er gott að vaska upp og hlusta á Andrarímur sem eru á sunnudagskvöldum í umsjón Guðmundar Andra Thorssonar. Í gærkvöldi var uppsafnað uppvask í kjölfar matarboðs og hafði ég uppi á Andrarímum frá því á sjómannadag og skora ég á ykkur að hlusta á þáttinn (1.júní). Í þættinum voru leikin lög með Þremur á palli þar sem textar Jónasar Árnasonar voru í forgrunni. Þess utan las Guðmundur hrakningasögur og spilaði viðtal frá 1974 við gamlan jaxl frá Grundarfirði ef ég man rétt. Mikið eru gömlu sjómannalögin skemmtileg "...á Dalvík og Dagverðareyri..." og ekki er síðra þegar ungir og reiðir menn fóru að efast um raunsæi þessara laga og hendingar eins og þessar fóru að heyrast:"...varð hann undir toghlera er burtu vildi tóg skera" (Bubbi) og "Sjómanns, sjómanns, sjómannslíf engin ævintýr" (S.H. draumur).
Nú varð konunni litið út um gluggann og um veðrið sagði hún þessi orð: "Eins og Raufarhöfn í janúar". Og við erum að fá gesti. Vesalings fólkið búið að kaupa rándýrt far, og rándýr hrukkukrem og rándýr ennisbönd. Og hvað fær það? 12 gráður og rigningu með köflum. Það má alltaf spila kana og horfa á fótbolta. Ég horfi á hálfleik og hálfleik á Evrópumótinu núna, merkilegur leikur í kvöld Holland og Ítalía. Dennis Bergkamp er sérlega spenntur fyrir leiknum. Dennis sem nú er búsettur í Ameríku er búinn að vera á leið á leikinn síðustu tvær vikur á skipi sínu "Hollendingnum fljúgandi." Megi hann skemmta sér vel.
Spánverjar eru jafnsorglegir hvað varðar fótboltaliðsvæntingar og Íslendingar varðandi júróvisjónvæntingar. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir skoruðu ekki mark eins og Frakkar gerðu um árið. Skott á milli lappa, drekkjum sorgum í Grappa og hendum flöskutappa.
Spænska knattspyrnusambandið lagði til á síðasta Fifa-fundi að lið sem nær 20 snertingum án þess að andstæðingurinn komu við sögu fái víti. Þeir lögðu líka til að 3 hendi væru í víti og að ekki væri hendi á liggjandi mann. Þeir lögðu að lokum til að ekki mætti sparka með tánni en Brasilíumenn lögðust gegn því.
Móðir vor átti afmæli í gær. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í hana í síma. Hér með staðfestist að heiðarleg tilraun var gerð til að ná af henni.
Merkilegt þetta með krakka og tungumál. Grímur er búinn að læra einhvern rapptexta sem þau voru að æfa í skólanum. Ég tek hatt minn ofan:
"Dentro mi cuarto no puedo andar
se amontonan las cosas y eso es fatal
necesito ordenar para poder pisar.
Hoy es el gran día y lo voy a lograr
no sé qué hacer pero voy a empezar.
Tengo unos amigos que molan total
seguro que una mano me pueden echar.
Muchos lapiceros tenemos que guardar.
Es como un juego que te va a gustar.
Canicas y cromos hay que juntar
veras que gusto te sentiras
juguetes y ropas hay que colocar
ordena y ordena con este rap."
Vá. Þetta þylur piltur upp úr sér. Í stuttu máli fjalla textinn um það að laga til í herberginu sínu.
Annars þarf ég aftur að fara í ikea í dag. Það þarf að kaupa hlutina. Það hlakkar mér til.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.