16.6.2008 | 18:04
Ein lítil atburðaskrá ok tíðindaupptalning
Það var fólk í heimsókn hjá okkur. Fólk var í heimsókn okkur hjá. Í heimsókn hjá okkur var fólk. Og nú er það farið. Og Grímur grét en gaf stórvini sínum, Smára, hvíta Spidermann-skyrtu að skilnaði, en Smári þessi hafði einmitt gefið Grími forláta kúrekaskyrtu skoskmynstraða.
Skógarferð
Á meðan Unngrímur var í skólanum fórum við hin (Nafni, Nafli, Heiðdís, Hanna, Hildur og Smári) í skógarferð. Það var góð skógarferð. Hún byrjaði samt ekki vel. Í litlu rjóðri við lítinn stíg fundum við lítinn mann með stórt vararskegg. Hann tók kveðju okkar dauflega en sagðist þó heita Brús og vera í skógarferð. Vinur hans Tékk var þarna líka, með knapahjálm á höfði og grét á mili þess sem hann húðstríkti sig með feitum kaktusi.
Nú allsskyns blóm fundust og allskyns hjólreiðamenn sáust og ein golfkúla fannst í fjöru.
Lakkrís
Ég fékk lakkrís og lýsi frá gestunum. Lenti reyndar í kappáti við minnsta gestinn. Hann vann.
Flamencojazz og Café Central
Í fyrsta skipti sá ég Madrid í myrkri. Eftir kvöldverð sótti á mig syfja mikil og tók því til þess ráðs að bryðja kaffibaunir. Ég, Nafni og Heiðdís héldum síðan í bæinn á kaffihúsið Café Central og sáum þar tónleika ágæta með flamenco-jazz-kvartetti. Prýðilegt. Undir tónleikunum kneifuðum við öl og Capirinha sem er brasilískur hollusturdrykkur. Sofnaður tvö. Schlimm.
Tennis
Nafni er hraðlyginn. Þóttist hafa farið í tennis kannski 1-2 á ævinni. Svo kom í ljós að á háskólaárum sínum í Bandaríkjunum hafði hann búið á vist með hálf-atvinnumönnum í greininni og stundað hana af kappi. Ég lét hann samt hlaupa fram og til baka og hann átti fullt í fangi með að taka við gríðarföstum uppgjöfum mínum. En hann grísaði á það og vann eitthvað.
Við fórum líka í Paddel með spúsunum og fór það vel fram og drengilega. Ég lenti með Heiðdísi í liði sem var góð í handbolta í gamla daga, en þetta var önnur íþrótt og því fór sem fór.
Flatsæng
Börnin sváfu í/á flatsæng og voru eins og ljós á milli þess sem þau gerðu alla vitlausa.
Colón
Við nafni fórum niður á Plaza de Colón og sáum Spánverja merja sigur á Svíum ásamt 50.000 Spanjólum. Inni í mér hélt ég með frændum vorum enda er líkami minn 80% prósent vatn og bjór og restin hrökkbrauð og kjötbollur. Mér finnst ég líka þekkja Svíana: Henrik Larsson kemur frá sama bæ og Bo kærasti Bjargar Norðurbyggðarbörsungs, þ.e. Helsingborg.
José Tomás
Frægasti nautabani Spánar lét næstum því drepa sig í gær. Honum mun takast það á þessu ári.
Sundlaugin
Sundlaug blokkarinnar opnaði á laugardaginn. Nú er stuð. Framundan sól og 30 gráður. Nú verður safnað brúnku og horft á guggur.
Föstudagsdjammið
Hanna leiddi gestaparið um öngstræti Madrídar og dældi í það tapasi, vatni með gasi og rauðvíni í pappaglasi. Nú var það á minni könnu að hugsa um börnin. Ég hugsaði mig tvisvar um og lét vídjóið hugsa um börnin á meðan ég horfði á Holland rassskella Frakka með blautri bagettu og sinnti minni ölkönnu. Börnin lognuðust síðan út af og var þetta hin auðveldasta pössun. Hanna og gestaparið komu heim undir morgun og lognaðist eitthvað af því fólki út af úti á svölum og vöknuðu einhverjir skaðbrenndir í morgunsárið undir morgunsól.
Retiro
Er almenningsgarður í Madríd; fallegur og fjörugur. Þangað fórum við í piknikk með hráskinku, empanandas, öl og íste. Börnin sulluðu í vatni, við Nafni héldum bolta á lofti og Smáradætur tóku jóga og fimleikaæfingar í grasinu. Í garði þessum er tjörn og við Nafni fórum með skrílinn í bátsferð á meðan S.dætur fóru í bæinn. Var bátsferðin hin prýðilegasta skemmtun í alla staði.
MacDonalds-afmæli
Áður hef ég minnst á sið innfæddra að halda barnaafmæli á McDon. Tveir vinir Gríms úr skólanum, þeir Pablo og Carlos, buðu nú til leiks. Nafni kom ásamt Hildi og Smára og vorum við í hæfilegri fjarlægð frá skrílslátunum. Áreitinu verður best lýst með eftirfarandi líkingu: Eins og að vera staddur inni í hausnum á ipodunglingi að borða morgunkorn og hlusta á Korn. Kannski ekki góð líking. En vont var það. Grímur þurfti að bíða í klukkutíma eftir langþráðri næringu og var farinn að titra. Þetta er nú bara aumt, það verður að viðurkennast. José spjallvinur minn sem er tæplega þrítugur hélt upp á afmælið sitt heima sem krakki og heldur að þetta hafi breyst á undanförnum 10 árum. Hann er jafnvel á því að nú þori fólk ekki að halda afmæli heima því þá haldir hinir að viðkomandi hafi ekki efni á MacDonalds-partíi.
Ég segi bara: lifi skúffukakan og pylsurnar/pizzurnar heima hjá karli og kerlingu í Furulundi, Eyrarvegi eða Snægili.
Annars bara þokkó
Við skiluðum gestunum af okkur á lestarstöðina í morgun og nú er hálftómlegt í kotinu. Hafi þau þökk fyrir gestvænsku, eðalmennsku og allt það.
Annars er þetta síðasta vika krakkanna í skólanum og lokahátið á föstudaginn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.