30.6.2008 | 20:54
"Spánland, Spánland yfir öllu"
Mikið er gaman þá sjaldan að réttlætið sigrar. Spánn vann fótboltann, Ísland mun vinna Eurovisjon næst og Megas hlýtur heimsfrægð. Xavi var góður, enda var hann búinn að hvíla sig hjá Barcelona í allan vetur. Þessi sigur var mikilvægur fyrir spænsku þjóðarsálina - rétt eins og sigur okkar á Svíagrýlunni í fyrra. Á árinu mun ég fella mína grýlu; Nafnagrýluna í tennis.
Íslenskt veðurfar er fullkomið. 35 stiga hiti dag eftir dag er ekki gott veður. Það er óveður. Veðurfar sem þetta gerir menn kurteisa, leiðinlega og fyrirsjáanlega. Á Spáni virðist mikið lagt upp úr því að heilsa nágrönnum sínum og kveðja með virktum. En að taka hressilegt spjall eða drekka kaffi saman virðist ekki spila jafn stóra rullu. Í portinu eru hjón sem eiga tvo litla stráka sem Grímur leikur stundum við úti í laug. Grímur kallar þá tvíburana enda þótt í það minnsta ár sé á milli þeirra. Ég er búinn að segja þúsund sinnum "hola" við þau hjónin. Eitthvað kemur í veg fyrir að við færum samræðurnar á æðra stig. Au-pairið þeirra er hinsvegar tútta. Ég tala stundum við hana. Ég hef það á tilfinningunni að Madrídbúar séu frekar öruggir með sig án þess að vera sérlega montnir. Þeir eru undarlega gerðir. Þeir eru heimsmenn án þess að hafa séð heiminn og eru hálf hræddir við útlendinga. Þeir eru skíthræddir við enska tungu og bera óttablanda virðingu við Þjóðverjum (kannski er það liðin tíð?)
Bretarnir voru hjá okkur í tæpa viku og eitt af því sem við gerðum var að fara í bíó. Ég er búinn að finna eitt snilldarbíó sem sýnir gamlar myndir. Bíóhúsið er rúmlega hundrað ára gamalt og salurinn í sinni upprunalegu mynd. Við fórum að sjá Lawrence of Arabia. Það var gaman. Á sjónum voru sex tíma vaktir og stundum stóð maður á færibandi í 3 og hálfan tíma samfleytt. í fyrsta sinn á ævinni sat ég á rassinum í 3 og hálfan tíma. Það var erfitt, en mikið var þetta góð mynd og mikið er gaman í bíó og mikið er fíflalegt að horfa á bíómyndir heima hjá sér. Alveg sama hversu stór og flatur skjárinn þinn er. Fyrir næsta vetur ætla ég að koma mér upp barnapíu svo við getum farið vikulega á bíó.
Ég reyndi stundum að vara fyndinn. Stundum tekst það. Stundum tekur fólk viljann fyrir verkið og flissar af einhverri vitleysunni. Stundum lendir maður á fólki sem verður hálf hvumsa rekist það á bull. Einhvern tímann var ég á fundi með kennurum og einn kennarinn af þýskum ættum sagði í kjölfar einhvers bullsins í mér "jah, sú vera svona fyndinn." Ég tók því ekki sem hrósi. Af hverju er ég að tala um þetta? Við fórum í matarboð til alvöru Spánverja. Það var gaman. Miðbarnið í fjölskyldunni er með Grími í bekk og er fjölskyldan á leið til Íslands í frí. Nú, þetta er hið vænsta fólk, ég bauð þeim í kaffi um daginn og gaf þeim ráð varðandi förina og í framhaldinu buðu þau okkur í mat. Og þau voru dásamleg. Við vorum ekki dásamleg. Við mættum með rauðvín - þau drekka ekki. Við bölvuðum og bulluðum - þeim stökk ekki bros. Mér leið eins og ég væri innan í hvítri sál hlaupandi um á skítugum skónum. Nei, nei. Þetta var fínt. Fólk er bara skrýtið og skrýtnastur er maður sjálfur eins og skáldið sagði.
Ég er búinn að múta krökkunum til að fara á nautaat í kvöld. Merkilegt. Þessi nautaöt eru ekki bönnuð börnum. Þessi tegund kallast Recortes, en þá gera menn allskyns kúnstir i kringum dýrin án þess að meiða þau. En þetta er rúlletta og góðar líkur á því að menn drepi sig - og uppi í stúku sitja krakkarnir með mútugreiðslur út að kinnum.
Æi, já. Bara fínt, takk. Bara fínt.
Athugasemdir
Helvíti hefur sú þýskættaða verið nösk að koma auga á kímnigáfu þína. Við í íslenskudeildinni vorum tvö ár að ná húmornum þínum og það var fyrst eftir að þú varst fluttur af landi brott sem við fórum að glotta út í annað og jafnvel skella upp úr þegar við minntumst þín (fjálglega). En ekki öfunda ég þig af hitanum. Maður hlýtur að þurfa að drekka ansi mikinn bjór til að lifa þetta af, svona ef maður miðar við þá litlu reynslu að hafa stundum verið í svona mollu í viku eða hálfan mánuð í senn.
Stefán Þór Sæmundsson, 3.7.2008 kl. 15:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.