5.7.2008 | 09:15
Churro
Churro eða Churros er spænskt bakkelsi; undarlega freistandi. Löðrandi í fitu og frekar salt, síðan er hægt að panta það með súkkulaði. Karl ljótur, vinur minn, sem bjó um stund í Andalúsíu, nærðist nær eingöngu á þessu brauði. Enda var hann við það að horfalla á tímabili og var ráðlagt af læknum að drekka rjóma kvölds og morgna og graðga í sig churrosi yfir miðjan daginn.
Churro er líka nafn á einhvers konar flotholti sem krakkar notast við í sundkennslu. Grímur er einmitt á sundnámskeiði þessi dagana og syndir um með churros.
Við skruppum á bæjarhátíðina í gær, gripum með churros, eftirstöðvarnar voru étnar með barnaefninu áðan. Hvað er þetta með barnaefni? Hvílíkur grautur? Með veikum mætti reyna stöðvarnar að halda smá uppbyggilegheitum að börnunum (kannski er það bara til að friða foreldrana) en annars kafnar þetta í smábarnatísti einhverra sætra dýrmenna og síðan er Burger King, Playstation, Indana Jones og félagar auglýstir út í eitt.
Tæknin gefur og tæknin tekur. Þægindi? Þegar upp er staðið held ég ekki. Hugarró? Líklega ekki. Ég var að skipta um símafyrirtæki og nú fæ ég símtöl daglega frá gamla fyrirtækinu þar sem ég er spurður: Af hverju hættirðu með mér? Er ég ekki nógu góð? En ég get boðið þér góðan díl? Þetta er eins og að vera með Glen Close berjandi á baðherbergishurðina með öxi.
Eftir strembin dag settumst við krakkarnir niður út á svalir með klaka og bjór. Stundum grípur krakkana dansæði og það gerðist í gærkvöldi. Þá setjum við ekki Boney M á fóninn. Grímur vill rokk og þá dugar ekkert minna en Utangarðsmenn eða Ham. Í gær tóku þau létt spor við danslög á borð við Sigurður var sjómaður, Fuglinn er floginn og ég fékk eitt lag: Bjór með Fræbblunum.
Nú styttist í Íslandsferð. Mig vantar 3 daga til að verða heilbrúnn; ég er alltaf í frekar síðum sundbuxum og því eru efri lærin heldur hvít. Þetta þarf að laga. Ég hef bara einu sinni verið brúnn; það var eftir 35 daga túr á togara.
Ég lenti aldrei beint í sjávarháska. Reyndar var stöðugur stormur þennan túr sem ég fór á Hjalteyrinni á Dornh(svo?) banka um árið. Jú, reyndar mætti tala um sjávarháska. Kokteilsósan um borð í Akureyrinni var alltaf geymd við stofuhita og stundum fann maður æðarnar taka andköf en alltaf slapp það til og hefur eflaust bara styrkt mann. Eins man ég eftir túr þar sem vatnið bragðaðist eitthvað undarlega og ég drakk pilsner í 30 daga í röð. Jú, og hamborgaraveislurnar gengu nærri manni. Um tvítugt sporðrennir maður 3-4 hamborgurnum með bravúr og fer síðan í koju.
Hanna er búin að vera á Íslandi í viku. Hún útbjó mat fyrir sex daga og setti í frysti:
1. Falskur héri og grænar baunir. 2. Kjötbúðingur og stappa 3. Pylsur og egg 4. Bjúgu og stappa 5. Kjarnapizza með kokteilsósu. 6. buff stroganoff. Nú er dagur sjö og ég er ráðalaus. Best að kaupa bjúgu.
Athugasemdir
hrossabjúgu ku vera ódýr matur
Brynja (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 11:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.