14.7.2008 | 21:49
Bonnie Prince Billy og fleira
Í dag þarf inngang að öllu. Þekkirðu ekki x? Hann gerði þetta og þetta og þetta? Ha? 1000 manns hlusta á 1000 tónlistarmenn og lesa 1000 rithöfunda. Gott eða slæmt? Ég veit það ekki. Flókið? Já. Fyrir 15 árum var netið varla til og í plötubúðum voru til x margir titlar. Í dag er enginn samnefnari; jú, kannski U2 og Madonna - ekki mikið meira.
Þegar við segjumst hafa farið á tónleika með Bonnie Prince Billy segir það fæstum nokkuð. Fáa myndi gruna að þar væri spámaður á ferðinni. En þannig er það.
Við fórum sem sagt á tónleika í Madrid með bandaríska tónlistarmanninum Bonnie Prince Billy. Krakkarnir voru í pössun hjá nýunnum vinum okkar hér í Madríd; þeim Hrafnhildi og Pétri og Siggu sem kann að leika.
Þetta var fullkomið kvöld. Við mættum hvorki seint né snemma á tónleikana. Við gengum inn - fórum á barinn og fundum okkur stað úti á gólfi - enginn risi fyrir framan okkur og - okkar maður hóf spilið um leið og bjórinn var hálfnaður.
Ég þekki líklega helming af því efni sem Will Oldham (aka Bonnie Prince Billy) hefur sent frá sér. Á þessum tónleikum spilaði hann hinn helminginn. En þvílík dásemd að verða vitni að frumflutningi á snilld.
Þarna voru ekki þreyttir menn að flytja þreytta slagara fyrir góðborgara á fótboltavelli heldur maður á hátindi ferils síns.
Og eitthvað heillandi við þá staðreynd að 1500 manns yfirgefi heimili sín á svipuðum tíma á fallegu kvöldi í 4 milljóna madrídborg og hittist eina kvöldstund á skrýtnu diskóteki og hlusti á mann með hljómsveit í 2 tíma. Síðan heldur hver sína leið heim. Á einhvern hátt snortinn.
Ég hef verið latur að skrifa að undanförnu - fátt gerist markvert við sundlaugarnar; við bjóðum góðan daginn og brosum góðlátlega við nágrönnunum - kveðjum og höldum inn. Eftir að hafa fylgt Grími hinum duglega á sundnámskeið lá leiðin í minnstu búð í heimi í Boadilla - þar kaupum við góðu mjólkina grænu og brauð. Konan í búðinni er almennileg - hún er frá Kólumbíu - hún sagðist vera á leið heim í frí í 20 daga - ég sagðist vera á leið heim í 5 vikur. Hún var glöð fyrir mína hönd. Enda triste að vera í útlöndum - allavega ef örlögin reka mann þangað. Við erum lukkunar fólk. Skammtaður tími í útlöndum er reynsla en ekki tragík.
Talandi um tragík. Við fórum í góðan laugardagsbíltór með nýgóðvinum okkar Vicente, Ingu og fjölskyldu upp í fjöllin. Fyrst skoðuðum við El Escorial sem var sumarhöll Felipe 2 og munkaklaustur. Á sextándu öld var þetta stærsta bygging í heimi? (Evrópu). Þar skoðuðum við meira að segja grafhýsi Spánarkonunga. Á leið niður í hvelfinguna var túristahópurinn beðinn um að fara um hljóðlega, þeir væru á helgum stað. En í hverju horni heyrðust hlátrasköll, skvaldur og slíkt. Sumir kunna sig ekki. Aldrei. Ég var ekkert sérstaklega strangur kennari en eitt var ljóst að væri ég að lesa upp ljóð eða úr Njálu eða kafla úr Kiljan - þá átti að þegja. Sumir kunna ekki að þegja. Og fáir kunna að hlusta.
Já, tragík. í framhaldi af El Escorial heimsóttum við yfirþyrmandi dapurlegan stað; Valle de los caídos (Dal hinna föllu). Minnismerki sem Franco reisti um fallna hermenn sína. Hrikalegt minnismerki sem tók mörg ár að reisa. Fasísk steinsteypa og stórmennskubrjálæði. Þetta minnismerki er hálf umdeilt enda dóu margir stríðsfangar við bygginguna og þetta er jú tákn sigurvegaranna. En staðurinn er ægifagur og hægt að komast upp að krossinum með nær lóðréttum sporvagni.
Maður drukknar í drasli; dagblöðum og keyptum hlutum. Af hverju rígheldur maður ekki bara um eitthvað eitt; penna, trompet eða tennisspaða? Fátt er hvimleiðara en dagblöð.
Nú er Íslandsförin að taka á sig mynd. Töluverðar líkur á að synt verði við Gróttu að kvöldi mánudagsins 21. júlí. Ha, þið sem lesið þetta, Maggi Teits og fleiri, ha? Reyndar skilst mér á Ása Angantýs að sjórinn sé leiðinlega mollulegur - það verður að hafa það. Ég hef verið að búa mig undir vosbúðina með setum í sundlaug hverfisins sem fær geirvörtur til að stökkva hæð sína í loft upp og aðra líkamsparta til að láta í minni pokann.
"Tangled up in blue"
Hendið inn leitarorðinu Unnur danssýning á youtube og skemmtið ykkur vel.
Grímur verður fimleikamaður eða ofurhetja. Einn morgunninn vaknaði hann og sagði: "Mig dreymdi að ég færi heljarstökk". Ég held það styttist. í íþróttum var ég seigur en laus við ofgnótt af hæfileikum. Grímur er seigur og efnilegur. Hann hefur axlirnar.
Tennis er íþróttin næstu 20 árin. Síðan tekur badminton við. Síðan boccia. Síðan mun einhver góðhjartaður slá mann í hausinn þegar maður er orðinn óþolandi gamall - með boccia-kúlu og vefja manni í badminton-net og sökkva manni í sjóinn á Hjalteyri. En það er eitthvað í það.
Annars langar mig að þakka Kára Árna fyrir allt badmintonið, höfuðstökkin, jakahlaupin, skotmennina, upphífingarnar, hástökkið, arabastökkin og blakið - og þakka Inga sturtu og þakka Kára aftur fyrir að láta mann hengja handklæðið yfir fötin - þið vitið hvað ég meina.
Ég hef verið að lesa nokkrar ævisögur í vetur - hálfgerð tilviljun reyndar; þetta eru gjafir flestar.
Ævisaga Guðmundar Böðvarssonar, Þórbergs og nú síðast Davíðs. Ég öfunda þá af einu að hafa ekki verið deyfðir af endalausri afþreyingu í formi sjónvarps og nets. Það er ævintýralegt hvað maður hefur látið afvegaleiða sig undanfarin 35 ár og sér ekki fyrir endann á því. Spurning um að lesa sér aðeins til um þetta fyrirbæri sjónvarp og hvað það hefur gefið okkur og hverju það hefur svipt okkur. En þetta er ekki auðveld gáta - sjónvarpið getur verið heillandi. Ég meina, Bogi Ágústsson.
Hei, ég er að hlusta á Bonnie og minni þig, minn kæri vin, að skila mér Master and Everyone. Eflaust skulda ég þér eitthvað. Og, tónleikarnir með Bonnie minntu mig á tónleikana með Nick Cave um árið á Broadway. Þetta var eiginlega á madrískri Broadway. Tvöfaldi viskíinn sem Hanna kom með var samt næstum því dropinn sem fyllti mælinn. Næstum því.
Jæja,
Athugasemdir
Jamm, Chivas var dropinn sem næstum fyllti mælinn, ég sá að fúlskeggjaðir menn táruðust og brostu á víxl...Bonnie Prince Billy greip salinn frá andart........
Hanna (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 21:59
Ég tek þetta allt saman til mín; Meistara Bonnie og mollusund. Við verðum þá bara að klæða af okkur hitann.
Magnús (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 14:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.