Ár

Í dag er ár liðið frá því að við fluttum til Madrídar. 15. júlí - 15. júlí.

Ég myndi opna kampavínsflösku ef ég ætti - reyndar hefði ég ekki lyst því ég er saddur.

Ég hef ekki drukkið kampavín á Spáni, við fáum bara kampavín þegar við heimsækjum Kolbein og Junko. Spurning um að heimsækja þau.

Vorum með spánska kunningja í heimsókn - þau sem eru á leið til Íslands - ýmislegt var rætt, til dæmis pílagrímsgangan góða til Santiago de Compostela. Frúin fór þessa leið fyrir einhverjum árum; 800 km á 30 dögum - David maður hennar benti á þann möguleika að hjóla þetta á 8 dögum sem er víst algengt og verð ég að segja að ég er mjög svag fyrir þeirri hugmynd. Næsta vetur myndi ég koma mér í þríþraut, takmarka svínafituát og skammta mér bjór í matskeið og mæta helmassaður í þröngum spandex-buxum í hjólreiðatúr. Það má skoða þetta.

Ár á Spáni - þung byrjun, svona svona fram að jólum - undanfarna mánuði eintóm gleði, þannig séð.

Börnin eiga skilið Fálkaorðuna fyrir framlag sitt til einhvers...

Við erum með öll nútíma þægindi - þó höfum við ekki haft fyrir því að kaupa okkur uppþvottavél - enda á mörkunum að vera nauðsyn. Það er til að mynda dásamlegt að hlusta á útvarpssöguna, Andrarímur, Spegilinn, Víðsjá meðan maður vaskar upp. Hlustaði á síðasta lestur Múrsins í Kína og þurfti að styðja mig við eggjaköku til að detta ekki í gólfið af hlátri. Næst síðasti kaflinn segir af heimsókn á Karókíbar og er hrein dásemd. Þetta er hógvær, góð og lúmskfyndin saga hjá Huldari.

Ár á Spáni -

Már á Smáspáni.

Márakjáni á Smámannaspáni. 

eyja, eyjapeyi - eyjaskeggi

að elta lonníettur og hlæja.

Velta sér upp úr elddögginni og hlæja.

En þá kemur skógarvitleysingurinn með dálkinn

og kveður:

Mýsla, mýslupísl,

þér ég hvísla, kyss döggina af  gráhárinu og smáfárinu.

En þá fannst mér sem ég vaknaði

og felldi tár. 

 

 

Annars man ég eftir mun betri stælingu á kvæðinu sem Ásgrímur Anganýs galdraði fram í menntaskóla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áráspáni-inápsárÁ, vá.

Við skulum fara í kapphlaup þegar þú kemur. Öl fyrir sigrarann...

Hlakka til að sjá ykkur!

Guðrún Arngrímsdóttir (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband