5.9.2008 | 09:53
Budejovické
Hjartað tók aukakipp við bjórhilluna í Carrefour í gær. Það var kominn ný bjór í neðstu hilluna; 1795, Budejovické pivo. Mér leið sem ég hefði skrúfast inn í aðra vídd og væri staddur með Gísla Halldórssyni á krá í Budejovické. Ætli Góði dátinn sé ekki sú bók sem Íslendingum þykir hvað vænst um, og þá í raun í upplestri Gísla?
Við erum varla búin að ná áttum eftir langt frí - Hönnu var skellt inn í raunveruleikann um leið og hún kom út og hefur verið að flengjast á milli borga í Evrópu síðustu daga.
Góð vika er í að krakkarnir byrji í skólanum og er það vel.
All andstyggileg gubbupest greip okkur Grím í byrjun vikunnar. Daginn eftir fórum niður í bæ og krakkarnir heimsóttu Siggu vinkonu sína á meðan ég rölti í bæinn. Ég var ekki tilbúinn að rölta í bæinn. Mér var illt í maganum. Þó hélt ég ferð minni áfram og skrönglaðist inn í bókabúðina Fnac. Þá var illa af mér dregið. Þá mundi ég að í bókabúðinni er vin. Lestrarherbergi. Ég fann einhverja bók og hélt þangað inn hress í bragði með óbragð í munni. En vei! Hvar ó hvar, hafði umsjónarmaður búðarinnar viti sínu glatað? Í klefa þessum, annars þægilegum, var klezmer-tónlist spiluð á töluverðum styrk. Það finnst mér að jafnaði ekki skemmtileg tónlist og við þessar aðstæður var hún óbærileg. Mér leið sem hressilegu klarinetti hefði verið sprautað í æð mér og væri á tilviljanakenndu ferðalagi um æðakerfið. Í kringum mig var fólk sem las í rólegheitum og virtist ekki heyra þessa tónlist.
Mikil borg er Madríd og gömul og hún er dásamleg á haustin og veturna. Sumar-Madríd er heit og þung.
Athugasemdir
Illt er að vita af þér utanlands, Arnar. Verra þó að vita af þér innanlands að hluta. Þá má ég ekki til þess hugsa ef ég vissi ekki af þér að neinu leyti. Þú ert skáldi góður og lífskúnstner.
Megi gæfan fylgja þér.
Þinn vinur,
Magnús Teitsson, lífskúnstner og konferenzráð
Magnús (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 02:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.