25.9.2008 | 17:58
Menningarsvínahirðirinn
Stundum þarf að hrista fólk. Íslendinga þyrfti að hrista til á stundum og Spánverja líka, en ólíkar aðferðir þyrfti á liðið: "different strokes for different folks."
Um daginn var smá hóf hér úti í sameiginlegum garði - hljómar dansk og svona kolegi - en var það ekki en var allavega tilraun til að hrista eitthvað saman - en einhvern virkaði ekki. Ég spjallaði við þessa þrjá sem ég hef hingað til spjallað við í blokkinni. Við spjölluðum um þennan vinnudag hér á landi á og þeir voru sammála mér að þetta væri plága, menn hanga í vinnunni til átta sér og öðrum til ævintýralegra leiðinda og framleiðni er engin. Sá sem þykist ætla heim til sín klukkan sex er álitinn latur og stórskrýtinn.
Íslendingar eru illa haldnir af þeim misskilningi að allt í útlöndum sé frábært og það sé hálfgerð pína að búa á Íslandi. Þessi skoðun byggist á þremur þáttum: 1. áfengi er dýrt, 2. það er dýrt að éta á veitingastöðum 3. Á íslandi er sjaldan 28 stiga hiti og sól.
Já, já. En þessir hlutir skipta engu máli. Maður étur og drekkur heima hjá sér og trúið mér, eina óveðrið sem til er er 30 stiga hiti út í eitt.
Tíu hlutir sem gera ísland byggilegasta land í heimi:
1. Öryggi; fyrir utan tilviljanakenndar barsmíðar á fylleríi í Rvk kl. 03 um helgar þá er Ísland "öruggur staður til að vera á".
2. Anti-stéttaskipting: á Íslandi eru enn til svona götur, þótt líklega hafi fínum götum fjölgað, þar sem býr allskyns fólk: sjómaður, kennari, strætóbílstjóri, bæjarstjóri, málari, pípari. Í hverfinu okkar eru bara vel stæðir Spánverjar sem vinna í bisnessgeiranum, 35 plús með eitt barn í einkaskóla með barnapíu frá Rúmeníu.
3. Spontanitet: Hvernig líst þér á að vera með í fótbolta, við leigjum bara sal, okei?
4. Húmor: líst er eftir húmor, hér hef ég ekki fundið hann, ætli hann sé í Þýskalandi?
5. Var það ekki fleira? Ja, hérna hér.
En það þýðir ekki að segja Íslendingum að þeir hafi það fínt - og útlönd hafi upp á ekkert að bjóða. Þeir þurfa að finna þetta á eigin skinni. Í Íslendingasögunum þarf hetjan alltaf að fremjast í útlöndum, eyða vetri með Noregskonungi í mikilli sæmd og síðan þegar líður á vorið verður Íslendingurinn hljóður (heimþrá). Ég býst við að þetta sé óumflýjanlegt ferli. Það var fyndið nú í haust, í kjölfar árangurs og hömpunar silfurmannanna mættu tvær körfuboltahetjur sem höfðu verið í útlegð og sögðu hreint út að þeir væru búnir að fá nóg af þessu útlenska lífi, þeir vildu vera heima - og það var ekkert ófínt.
Íslendingar eru hins vegar snillingar í því að gera sér erfitt fyrir; þeir reisa sér einatt hurðarás um öxl. Kaupa sér höll þegar þeim nægir hús - kaupa sér dodge þegar þeim nægir justy - fara á holtið þegar þeim nægir slátur. Superbia. Superbia. Út í eitt.
Þegar allt kemur til alls þarf maður þrennt til að gleðja sitt hjarta: 1. vinnu sem er ekki mjög leiðinleg 2. bókasafn 2. sundlaug.
Á íslandi er allt þetta þrennt alls staðar til í ómældu magni - og má ég minna á að lengi vel var lítið um ófína vinnu - einn góður maður benti á að einungis væru til tvær gerðir vinnu: vel og illa unnin. Ef svo er komið að menn eru orðnir of fínir til að grípa til skóflu, skeina rassa, eða beinhreinsa fisk - þá vorkenni ég ekki neinum. En vissulega eru margir sem þurfa sína milljón á mánuði til að standa undir öllu sem þeir þykjast hafa rétt á.
Þegar allt kemur til alls þarf maður bara eldhúskrók, kaffi og sögur. Til hátíðarbrigða setur maður brennsa í kaffið og bætir kryddi í sögurnar.
Nú er liðið á annað ár - enn reima menn skóna sína á Kili.
Hingað í þetta hús hafa nánast öngvir nema Íslendingar stigið fæti - ekki er ég feiminn.
Ekki stendur á mér að bjóða fólki í kaffi.
Að öðru:
Hjörvar Pétursson talar um áhrifamátt Francisar Bacons í pistli í síðu sinni.
Ég er Bacon-maður. Ég er Beikonnari. Ég sá Painting 1946 (eða eitthvað því skylt) á safni í Köln og varð ekki samur á eftir. Ég bara sat. Sat hann? Sat'ann. Já. Nokkrum árum síðar sá ég fleiri verk á Tate og hef lesið ævisögu hans nokkrum sinnum. Á þessari síðu undir valmyndinni ljóð getið þið séð vísukorn sem ég samdi um Francis. Góða skemmtun. Fæstir vita líka að til er ágæt mynd um Francis Bacon sem heitir "Love is the devil" - Derek Jacobi leikur kallinn og sjá og sjá, james bond sjálfur leikur George greyið Dyer.
Og hverngi getur maður stillt sig:
Eiður Gracías
ég elska þig eiður smári
ég elska decode, Kári, not
Ég elska Kristínu Thomas (Scott).
og sjúklinginn enska í þínu hári.
Ég elska þig eiður smári, í dag
ég hef alltaf verið svag
fyrir ljóskum
í blöðunum var nóg af hamingjuóskum
því þú skoraðir, helvískur.
Þú bjargaðir deginum, Eiður
ó, mikið var kassinn þinn breiður
og himinninn yfir Camp Nou heiður
um stund gerði hamingjan sér hreiður
á hausnum þínum.
Hvað er að frétta af Guardiola
er hann framtíðin eða bara bóla
Og eruð þið í bandi, þið Zola?
Og Bojan, er hann með rödd eins og Sigurður Bjóla?
Og spænskan, hvernig gengur
ruglastu á ser og estoy lengur?
Og kaffið á Spáni, vá það er nú meira sullið
miklu mun skárra er frá Braga gullið.
Og hvað með katalónsku
gengur eitthvað?
nokkuð farinn að missa niður frónsku,
og hvað með flæmskuna?
sem minnir á gömlu slæmskuna
í hálsinum.
Í gær fékkstu uppreisn æru
alveg á tæru
dagblöðin full af eiði smára
kallinn farinn að skora eins og Margét Lára.
Ókei, ég missti mig smá
ég elska þig ekki beint
það er var ekki þannig meint.
En ég kann þig vel að meta á velli
og hvernig þú fagnaðir
eins og björn á siglingu út úr helli.
Athugasemdir
Snilldarfærsla.
Gunna sys (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.