Afmæli a la Espanjóla

José spjallvinur minn átti afmæli í gær og mætti ég í mína fyrstu afmælisveislu á spænskri grundu.  Ég neita því ekki að ég var hálf stressaður á leið í bæinn; framundan mannamót, hræðilegt ókunnugt fólk sem skylmist með spænskum sveðjum - og ég þess meðvitaður að mín spænska sveðja er sljó og deig og hugsanlega bara kuti jafnvel bara naglaklippa. Á leiðinni niður á útstöð metró, Colonía Jardín, hlustaði ég á konseptálbúmið hans Gainsbourghs um Manninn með blómkálshausinn í botni og reyndi að finna fróun í sígaunareyktri röddu Serges. Ég skildi bílinn eftir hjá metró og tók túbuna inn á Plaza de Espanja og gekk upp á Callao inn á bókabúðina Fnac. Þangað höfum við oft lagt leið okkar en líklega aldrei klukkan 20 á föstudagskvöldi. Ef þið ímyndið ykkur bókabúð eitthvað í líkingu við Huld eða Eddu, gleymið því. Þessi bók er títönsk og stemningin þarna þetta kvöldið var eins og á Hótel Íslandi og Sálin að spila fyrir dansi fyrir háskólanema að fagna prófum. Ég svitnaði en fann bókina sem ég var að leita að og ætlaði til gjafar. Fannst mér ég reyndar að vera að falla á tíma þegar ég lenti á kassa á eftir manni sem var að kaupa 30 dvd-myndir og var ekki sáttur við afgreiðslumanninn sem vildi ekki taka við visanu hans nema að fá að sjá vegabréf. Löng saga stutt og hlaupið yfir leiðindi: mætti á veitingahúsið Jeronimo klukkan 21.20 á fullkomlega réttum tíma. 

Eitt leiðinlegasta karaktereinkenni Íslendinga getur verið hunz og svalheit - sem er kannski bara feimni þegar betur er að gáð. Þetta lýsir sér í fullkomnu sinnu- og áhugaleysi gagnvart nýju fólki í gefnum hópi. Íslendingar geta verið ansi hreint þurrir og hræddir og svalir. Og síðan taka menn til við drykkju og skána.

Í þessu hófi var mikið af vönduðu fólki. Ég var hálf hrærður. Ég reyndar virtist hafa smá forgjöf; hér var mættur til leiks fálkinn sjaldgæfi, Bjarkarbróðirinn, Sigurrósinn og Eiðursmárinn (reyndar ekki). Ég held ég hafi talað heldur mikið, mér var einhvern þrýst inn þetta hólf sendiherrans og varla að ég kæmist þaðan út allt kvöldið. Ég hélt langar ræður um Ísland, kosti og galla - bar saman löndin og fólkið usw. Fyrir mér var þetta reyndar bara ókeypis málakúrs, tækifæri til að smyrja talstöðvarnar og mynda orð á vörum sem hingað til höfðu verið falin, djúpt.

Ég spjallaði við kana frá Michigan, talið barst að tennis og jú, ég væri áhugsamur, og hann, hefði stundað íþróttina stíft og, hvernig á ég að koma orðum að því? Hann var svo líkur Birni Borg í útliti að grín um  möguleg tengsl hefðu verið fullkomlega taktlaus. Það var rosalegt. Skemmtilegur strákur og ekki ólílklegt að ég geti vélað hann í að kenna mér nokkur trix, hann hefur líka hæfileikann, enda ekki langt að sækja þá...

José varð 28 ára, systur hans tvær voru þarna líka, rétt um þrítugt. Þau búa enn öll í foreldrahúsum. Svona eru útlönd frábær. Svona eru tækifærin hér. Og þetta eru menntaðir krakkar og klárir. En ungt fólk þarf að bíta í súr epli. Lág laun, fá tækifæri og húsnæðisverð absúrd.

Vel var veitt í mat og drykk; klassíkt borð spænskt, með chorizo og ostum og eggjakökum og skinkum uws. Talaði við stelpu sem dýrkaði Björk og átti meira að segja Gling gló (hefði ég kunnað að segja það hefði ég sagt henni að pabbi Bjarkar væri formaður Rafiðnarsambandsins).

Ég lét mig hverfa þegar leikar stóðu hæst og menn ætluðu á diskótek; ég steig fæti inni i anddyrið og þá varð mér ljóst að sökum hávaða gæti ég hvorki átt samkipti á spænsku né ensku, ekki einu sinni íslensku. Olíubrákaður fálkinn lufsaðist á braut.

Að öðru:

Helgarnar eru ekki skemmtilegar - það breytist kannski - það er of lítið í gangi. Krökkunum leiðist og þá verður allt þungt í vöfum.  

Þar sem ég sat í hrúgu, fullkomlega flatur, kveikti ég á sjónvarpinu og þaðan bárust myndir úr Bláa lóninu og tónlistin var kunnugleg, Mannakorn; þarna með Ellen Kristjáns "...saknaði þíííín." Einhver svona túristaþáttur. Býsna ferskur. Mig langaði samt ekki á þessar slóðir, Brian Tracy gæti ekki selt mér Reykjavík.

Í þessari viku hefst veturinn fyrir alvöru: Grímur í tónlistarforskóla, Unnur í dansi, ég í Málaskóla flokksins. Ég held ég kunni eitt orð sem aðrir í mínum bekk munu ekki kunna: pichichi:markakóngur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér varð hugsað til ykkar. Var að koma af katalónsku myndinni Barcelona sem verið var að sýna í Regnboganum. Leikstjórinn hefur örugglega horft á ófáar íslenskar myndir enda sifjaspell og framhjáhöld meðal þess sem boðið var upp á.

Unnar (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 21:26

2 identicon

þú ert stemmingamaður Arnar, kannast samt svo vel við þessa lýsingu, fólk er áhugasamt um landið og þjóðina okkar, samt bara núna sem skólasystkini mín eru hætt að hlæja af mér þegar ég segi þeim hversu mörg við erum

brynja (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 01:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband