19.10.2008 | 10:19
Fyrsta færsla eftir fall Fróns
Undanfarnar tvær vikur hef ég því miður bara bloggað í hausnum á mér. Umfang undanfarinna atburða hefur verið mér um megn. Það er erfitt að skrifa í reiði; þá frekar fer maður í sund eða út að hlaupa. Ég hef synt töluvert að undanförnu.
Í erlendum netmiðlum hefur mátt sjá fyrirsagnir á borð við þessa: "Partýið búið". Sem gerir mann frekar pirraðan. Ekki kannast ég við að hafa verið í partýi. Ég vissi af því, sérstaklega í Reykjavík. En mér fannst það ekkert sjarmerandi. Ekki það að mér hafi verið boðið. Og greinar um allt þetta frábæra; íslenska eldhúsið; lundabringubiti á spjóti með dassi af títuberjasósu. blah. Ég var aldrei það að fram kominn af ást á íslenska eldhúsinu að ég yrði að hlaupa út með 20.000 kallinn og eyða honum á veitingahúsi. Og þrátt fyrir meinta velmegun hefur mér alltaf þótt mannsmorð að kaupa drykki á bar.
Að kalla partý og innkaup upp á krít velmegun eða uppgang hef ég aldrei skilið. Og hlaupa síðan í burtu og láta aðra borga enn síður.
Ég var lengi poll rólegur. Ég var með allt á hreinu. Og svei mér þá að ég hafi ekki bara grætt á háu vöxtunum. Og ég hugsaði með mér, þið getið sjálfum ykkur um kennt: af hverju þessi bílalán, af hverju myntkörfulán, ha? Og inni í mér var ég allt að því hróðugur. Ég hafði alltaf verið skynsamur. Á þessari stundu er hins vegar ekki ljóst hvort við munum tapa einni, tveimur, fjórum, sex eða átta milljónum af þeim ellefu sem við áttum eftir að hafa selt eitt stykki íbúð. Allt í einu kom í ljós að eitthvað sem hét peningamarkaðssjóður var líka af hinu illa.
Við höfðum ætlað okkur að flytja heim næsta sumar. Ég sé það ekki gerast. Óðaverðbólga og yndislegheit.
Og þið verðið að fyrirgefa. Mér finnst menn ansi bráðir með að bjóða hinn vangann, sáttahendur, hópknús og annan fíflaskap. Og að tala af bjartsýni um að allt verði betra og hreinna í hinni nýju uppbyggingu finnst mér viðbjóðslegt. Þannig tala þeir sem sluppu. Það þarf að byrja á því að laga til og draga til ábyrgðar. Óþolandi til þess að vita að alls staðar sé sama fólk við stjórnvölinn. Í Þýskalandi voru menn með brúna fortíð í öllum hornum langt fram á okkar dag.
Ég hef á tilfinningunni að nú sé skömmin ansi mikil; hver vill viðurkenna að hafa sett allan sparnaði í hlutabréf í banka?
Og fyndnast þykir mér þegar sagt er að við verðum fljót af rífa okkur upp; hér sé svo mikill mannauður - hah! Segðu mér annan. Og kúrsinn mannauðsstjórnun, hann skal heita mannSauðsstjórnun. Ég mæli með því að 6 kúrsar verði til B.S. - prófs í viðskiptafræði: Gagnrýnin hugsun 1-6. Kannski er mikilvægara að þeir sem fara ekki í viðskiptafræði taki þessa kúrsa.
Og tilmæli til íslenskrar málnefndar að lán (það að skulda) verði ekki lengur samhljóma orðinu lán (lukka). Lán (það að skulda) mætti kalla til að byrja með lúsifer eða belsebúbb. En hér með lýsi ég eftir lýsandi orði um fyrirbærið.
Litla Ísland þolir illa svona erjur og klofning. Fyrir tuttugu árum voru þeir sem borguðu hæstan skatt apótekarar, skipstjórar og maður sem átti fyrirtæki sem saxaði niður álegg (Síld og fiskur). Þessir menn áttu station-bíla, og þokkaleg einbýlishús. Þeir voru með á að giska 5 sinnum hærri laun en litli maðurinn. Fyrir sex-árum hófst ruglið. Þar sem kaupahéðnar fóru um með feita fokkfingur á lofti sögðu okkur með látæði sínu að éta skít. Þið þekkð þetta: liðið sem fékk allt í einu milljón á mánuði og það var svo mikill uppgangur að Miele-tækin í eldhúsinu voru aldrei tekin í notkun - það var líka svo smart að borða á Apótekinu og hvað þér hétu/heita þessir staðir. Skömm ykkar verður lengi á lofti.
Ég kannast samt varla við þetta Ísland, nýríka, toysarus, smáralindarleiðindaísland, ég bjó þar aldrei - því er gremjulegt að gamla góða Ísland hafi verið dregið niður í svaðið.
Og myntkörfulán! Stundum fer nýyrðasmíðin út í algera vitleysu. Maður sér fyrir sér indæla lautarferð; tágakarfa með vínberjum, rauðvíni, gæsalifrarkæfu og eplasíder. Kannski heldur ljóshærði hnokkinn á körfunni, og hann dansar og er glaður. Myntkörfulán - LÁN!
Athugasemdir
Sæll minn kæri nafli! Fáir útvaldir hafa dregið okkar fagra Frón í svaðið og eigum við svo að horfa upp á sömu mennina "redda" málunum!
Ég legg til að orðið fyrir að skulda verði hreinlega ÓLÁN!
Arri Boot (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 15:58
ég var með ævisparnaðinn í peningamarkaðssjóð (bara tilviljun að hann fór þangað frekar en á peningamarkaðsreikning) um 9 millj. Nú er ljóst að líklega eru ansi mörg ár af vinnu og sparnaði orðin að engu. Miðað við umræðuna undanfarna daga þá erum við heppinn ef við fáum 60% af því sem við lögðum inn .Finnst að ríkið ætti að tryggja að fólk fái allann sparnaðinn sinn til baka.
gogo (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 19:32
mér þykir vænt um þig Arnar og þína fjölskyldu, get lítið bætt við þessa færslu, er bara fegin að þú ert komin aftur í bloggheima og óska í barnaskap mínum að allt fari vel, þú hefur minn stuðning.
Brynja (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 20:13
Mér finnst fyndið þegar talað er um Rússalánið. Það hljómar betur en Bretavinnan. Það seinna á við vinnu en það fyrra ánauð.
Ef að ríkissjóður ætlar að ábyrgjast einhverjar innistæður umfram það sem honum ber lögum samkvæmt þá er það algert lágmark að stjórnendur bankanna fái þunga dóma. Forsendan fyrir því að greiða fólki til baka upphæðirnar eru þær að bankarnir hafi brotið af sér þegar þeir veittu ráðgjöf.
Unnar (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 17:42
Ó, þakka þér fyrir að vera snúinn aftur, Arnar.
Annars líður vanalega alltof langt á milli þess að ég muni eftir að tékka á þér - það var ekki fyrr en einhverntíma eftir hrunið sem ég sá hjá þér beikonfærsluna frá því um daginn.
Ég ræddi við móður mína í síma í gærkvöldi og hún var með komplexa yfir allri þessari reiði í þjóðfélaginu í dag - eyfirska framsveitaruppeldið sagði henni að það væri ljótt að reiðast. Og ég minnti hana á að til er nokkuð sem kallast réttlát reiði - við þurfum bara að huga að því hvernig hún er beisluð, svo hún koðni ekki niður í máttlausar mótmælastöður eða brjótist út á móti þeim sem síður skyldi.
Varðandi nýnefnið: Er ekki hægt að sækja eitthvað í fornbókmenntirnar eða þjóðsögurnar (eins og margir rembast nú við að rífa sig úr nábrókunum)? Það fyrsta sem mér dettur í hug er tilburður, það felur í sér hreyfinguna en er líka með miður geðsleg hugrenningatengsl við þjóðsagnaskrímslið.
Kærar kveðjur,
Hjörvar P.
Hjörvar (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.