"lei-lei-ðindin"

Hefði Róbert Zimmermann ekki verið amrískur júði heldur íslenskur lúði hefði hann ekki ort "lay, lady, lay" heldur "lei-lei-ðindin."

Ég er snillingur í að láta mér leiðast. Ég kann ekki með frelsi að fara. Kennsla hentar mér fullkomlega: að fá stundarskrá eins og aðrir þeir sem gista stofnanir um lengri eða skemmri tíma.

Ég er líka svo undarlega gerður að þurfa fólk í kringum mig. Hér er lítið um svoleiðis.

Málakúrsinn er fínn og er sæmilegt haldreipi í "lífinu". En þrátt fyrir hjákátlegar tilraunir til bjartsýni og jákvæðni er það nú bara svo að við búum á leiðinlegasta stað í heimi innanum leiðinlegasta fólk í heimi sem reyndar er aldrei heima því það er alltaf að vinna til að geta borgað barnapíum og hreinsifólki sem er hins vegar alltaf heima hjá þeim, en hins vegar aldrei heima hjá sér. ha.

Og svo, þegar rignir þá rignir. Ég er líka þannig gerður að til að virka nokkurn veginn eðlilegur þarf ég að fá mér tvo þrjá bjóra eða stunda helvítis íþróttir. Undanfarin ár er alltaf eitthvað að mér einhvers staðar. Ég held ég sé með hrörnunarsjúkdóm þann er elli heitir. Í fyrra var það öxlin nú er það hnéð og ég nýbúinn að kaupa kort í svakalegu gymmi með svakalegum guggum með svæsnustu kamelklaufir í hinum vestræna heimi. Ég var kominn í rosa gír í jóga - flottur kallinn, náði ekki alltaf að melta spænsku kennarans nógu vel; eitt sinn var ég til að mynda kominn úr að ofan í höfuðstöðu - á meðan aðrir voru í hundinum - mér fannst endilega að hún segði...

Já, lei-lei - ðindin.

það er líka frekar pirrandi að vera á dauðadeildinni og bíða úrskurðar; ekki um sekt eða sýknu; heldur: með hvaða græju verður maður drepinn; stól, sprautu eða hryggspennu? Nú, eða bara leiðindum. Engar meintar fréttir berast af meintum peningum sem meint við áttum í meintum sjóðum hjá meintum bönkum.

Dagarnir fara í leiðindi - maður fer inn á leiðinlegar vefsíður sem fjalla um leiðinlega hluti - Lei-lei-ðindi. Reyndar var Lay low ansi fín þegar hún hélt tónleika í MA um árið; en eins og margir krakkar nú til dags er hún heldur erlendis fyrir minn smekk.

Einu sinni var ég stoltur íslendingur og á flakkinu fékk maður dásamlega athygli; soldið spes að vera frá íslandi; "eigentlich so ganz interessant und irgendwie spannend, und so" Elfen und Geysire und die Sagas." Nú spyr fólk sem er farið að leggja við hlustir: "Du eres de Islandía, no?" Þá er ég farinn að segja "þetta er einhver misskilningur, ég er frá Islamabad." Og þá líður öllum betur.

 það eru líka góðar fréttir - búinn að kynnast stórskemmtilegum Svía. Þið verðið að fyrirgefa en ég hef bara kynnst skemmtilegum Svíum á ævinni. 

Skólanum hér lýkur 20. júní - þá verð ég búinn að pakka og vonandi á leið eitthvert í andskotanum.

það bætir ekki úr skák að lítið hefur verið að gera í þýðingunum og eigin tilraunir til að koma á framfæri eigin þýðingu á skáldsögu einni hafa gengið illa. Eins hafa tilraunir til að setja saman rímu ætlaða til útgáfu steytt á skeri því er leti, uppburðarleysi og aumingjaskapur heitir.

"Lei-lei-ðindin"

ég er líka leiður á öllu þessu snakki. það er bara talað - ekkert gert. Það er enginn að gera neitt.

Hryllileg myndin af Ger Haarde í El País um helgina. Það fer maður með fjöll á herðum sér.

"lei-lei -ðindin" mér tekst ekki einu sinni að virkja msn til að koma leiðindum snöggt og vel á framfæri við "vini" "mína".

 Rakst á dásamlega auglýsingu í Fréttablaðinu. Þar var til sölu múffa sem er kynlífsleikfang fyrir karla. Þið vitið að í stað þess að notast við pústurrör eins og maður gerir að jafnaði þá er komin sérhannaður gúmmíhólkur fyrir gjörning þenna. Sem er vel. Hins vegar verð ég að viðurkenna að mér hrýs nú hugur við að fara í bakaríið við Brúna og fá mér múffu. Ætli maður haldi sig ekki bara heima með hrökkbrauð. Það er öruggt. 

Hvað meir? Ef ég flytti heim og hefði ekki vinnu, þá gæti ég stofnað fyrirtæki og boðið upp á eftirfarandi þjónustu:

1) Bjarganir: ég er með skírteini frá Björgunarskóla sjómanna.

2) hraðlestur: rippoff aldarinnar, per se.

3) Tvífótatæklingar: áralöng reynsla af malarvellinum við KA-völlinn.

4) Mok: mokaði mold og möl á Vatnsveitinu og þorski á Halamiðum; bý yfir geysilegri tækni.

5) Dónaleg orð á ýmsum tungumálum plús einn brandari á þýsku: "Was nennt man eine Frau die Vögel an die Wand wirft? Sie ist schlecht zu vögeln.

6) Níðvísur: reynsla og þekking

7) Sandköku og kaffiítroðsla: áralöng reynsla í umönnun annarsheimsgamalmenna sem fólst í því að troða sandkökum og kaffi í heimilsfólk á þriggja tíma fresti.

8) Þýðingar: þýði létta texta og þykkar steikur með rassgatinu.

9) Smekkur og framkoma: Ég gæti tekið að mér að laga tísku og lýtaaðgerðaslys: til dæmis gæti ég rifið skyrtulöf upp úr buxum og sömuleiðis buxur úr sokkum ( en það kostar aukalega). Eins gæti ég tekið að mér litgreiningu: hvort átt þú að vera í rauðri, grænni, grárri eða blárri Millet-úlpu.

10) ég gædi tekyð að mér pórfaskalesstur.

En reyndar á ég mér draum. Okkur Birni Vigfúss varð tíðrætt um þetta: að vinna við afgreiðslu við munna Vaðlaheiðarganga. Taka við greiðslu. Horfa á sápu. Taka við greiðslu. Horfa á sápu. Taka við greiðslu. Borða sandköku. Taka við greiðslu. Drekka kaffi. Vilja taka við greiðslu: hringja á lögguna. Taka við greiðslu. Dotta. Dotta. Dotta. Taka við greiðslu. Gullúr. Gröfin.

Ég sakna Múrsins. Þar var oft eitthvað vitrænt á ferðinni. Ég les dr.gunna og hef lengi gert. En hann er stundum of sniðugur. Stundum þarf bara eitthvað þurrt, og satt og leiðinlegt.  Hvert skal leita?  Orð dagsins? Spurning um að líma bílabænina á ennið á sér. Eða á rassgatið á Cher.

 

 Annars bara stuð: leikur í kvöld Atletico vs. Liverpool. Ég ætla rétt að vona að allir þeir sem hafa smaðrað fyrir enskum fótbolta séu hættir því í ljósi undangenginna atburða. Áfram Atletico. 

Vonandi að Eiður sé ekki illa særður. Vonandi meiddi hann sig bara lítið. Vonandi. Ég meiddi mig ekki oft í fótbolta. Ég man samt eftir því að hafa meitt mig á Siglufirði, í fótbolta. Þá spiluðu menn og börn á völlum þeim er við möl voru kenndir. Ég missti eitt sinn yfirborð af læri á mölinni á Siglufirði. Kjötmöl. Blóðkjötmöl. Og handbolti á Húsavík. Fékk olnboga í gagnaugað og blóð frussaðist upp í stúku og á hvítklæddar kórstúlkur sem þar sátu, og á markatöfluna og á dómarann. Erlingur þjálfari sendi mig mig inn á bað með plástra til að loka sárinu og hélt ég síðan áfram leik. Ég skoraði 10 mörk - hef aldrei skorað jafn mörg mörk í leik. Þetta segir töluverða sögu; nú er ég töluvert vanbarinn og vel haldinn, hence, ekkert í gangi.

Finnst ykkur gaman að ferðast? Er það? Það er nefnilega leiðinlegt að ferðast. Það er miklu skemmtilegra að lesa um fjarlæg lönd. Fólk, þykir ykkur svoleiðis skemmtilegt? Ha, miklu skemmtilegra að horfa á fólk á vídjó. Tala við fólk, ha? Nei, tala um fólk.

Mig langar í sviðalappir.

Ég fór í búðina áðan og fékk mér myntkörfu. Það er miklu betra að vera með myntkörfu heldur en buddu. Það hringlar svo í buddum. Myntkörfur eru bólstraðar og ekki svona hávaði.

 

 Ég heyrði nýtt lag með Sálinni. Þeir eru greinlega búnir að svipta af sér klisjunum og textar Stefáns eru miklu beittari en áður:

 

Von

"Þótt úti rigni eldi

og brennisteini

og stjórnvöld brenni galdramanninn Reyni"

 

;;þá er von, þá er stuð,

hér sé guð, hér sé guð;;

 

þótt bankamannaher þig vilji feigan

og kjötiðnaðarmenn selji þér bitan seigan,

Og endalaust þá hækki helv. leigan.

 

;;þá er von, þá er stuð,

hér sé guð, hér sé guð;;

 

 Þótt mjölið það sé maðkað

og vítateigssvæðið traðkað

þá er flest í fínu lagi

þótt örli á sagi (til að drýgja hveitið).

;;þá er von...;;

 

Ef heilsan er í lagi- og þokkalega hreinn þinn kragi.

Og hægt að stóla á þig, Bragi. 

Þá verð ég í góðum gír

ekki síst yfir félagslega raunsærri mynd í salnum hjá MÍR.

 

;;nananana;;

Því ætla ég að skemmta mér

þar til ég fæ krabba eða alzheimer.

Því þegar öllu á botni er hvolft, þá fer sem fer,

ooohoho, trúið mér,

úhuhuh, trúið mér. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þar sem ég er ekki moggabloggari eins og þú (og get því ekki knúsað þig í boði þeirra sem bólstra á sér með okkur rasskinnarnar) langar mig að biðja þig að gera eftirfarandi:

Farðu fram í stofu. Eða inn í svefnherbergi. Taktu stærsta og mýksta púðann sem þið eigið (þið hljótið að eiga einhverslags púða - það er kvenmaður á heimilinu). Haltu honum þétt að brjósti þér.

Bíddu.

Svo hugsarðu þér að púðinn segi við þig: "Mér þykir mjög vænt um þig, Arnar." Þá máttu bíða enn um sinn, þakka fyrir sömuleiðis ef vill, svo gengurðu frá púðanum á sinn stað.

Þetta var rafrænt, open source, shareware, knús. Mér sýndist þú geta haft gott af því.

Talandi um að sakna Múrsins (sem hlýtur þá að vera efsta bókin á jólagjafaóskalistanum þínum): Ertu búinn að tékka á Dagblaðinu Nei?

Hjörvar (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 08:55

2 identicon

Kæri Arnar,

Vertu bara feginn að vera ekki á Íslandi, hér eru ekki bara "lei-lei leiðindi" heldur líka sárindi og illindi og alls herjar harðindi.

Knús

Heiðdís (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 11:31

3 identicon

Hann hressist von bráðar krakkar mínir, það verður múffa í jólapakkanum...oohoho, trúið mér......

Hanna (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 16:57

4 identicon

Elskulegi Arnar minn, margt gleðilegt eins og að þekkja bara skemmtilega svía, ég þekki marga skemmtilega en fleiri leiðinlega.  Allavega datt mér í hug að ef þú vilt fá einhvern í fyrirtækjarekstur með þér þá er ég til.  Ég kann bæði að búa til sigin fisk og saltfisk og get lagt hönd á plóginn með litagreiningu og get jafnvel gefið ráð til að forðast kameltær, taktu í höndina á þér vinur

Brynja (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 08:33

5 Smámynd: Guðjón H. Hauksson

Þú ert magnaður, Arnar! Ég skal senda þér kamelmúffu um jólin. Kannski sendir Brynja þér Kamelblóm.

Svo lengi sem hugurinn starfar eitthvað hérna megin reikar hann oft yfir til ykkar, kæru vinir.

Guðjón H. Hauksson, 24.10.2008 kl. 20:16

6 Smámynd: Stefán Þór Sæmundsson

Já, þú ert alveg rosalegur. Langar þig virkilega í sviðalappir? Gæti reyndar verið skemmtilegur tapas-réttur. Að öðru leyti virkar þú tiltölulega heilbrigður og bjartsýnn, sjálfum þér líkur og er það vel.

Stefán Þór Sæmundsson, 25.10.2008 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband