af lögum

Í fríinu góða á Íslandi í ágúst var oft glatt á hjalla. Mikið hlegið. Mikið grín. Mikið gaman. Á síðakvöldum sátum við einatt í Lacoste bolum með ralph lauren-peysur sveipaðar um axlirnar - í kringum eldinn og átum sykurpúða - svei mér ef einhver var ekki með gítar og spilaði maría-maría. Svei mér ef hann endaði ekki í eldinum. Djók!

Það var mikið keyrt - vð keyrðum mikið - það við keyrðum mikið og það var hlustað og reyndar heldur mikið á plötuskrípi eitt sem pottþétt heitir. Margir héldu mikið upp á lag sem heitir því gróteska nafni "Þú komst við hjartað í mér" og fjallar um læknamistök. Djók!

Tvö lög vöktu einatt furðu mína er ég hlustaði nauðugurviljugur á disk þenna; fyrrnefnt hjartalag og síðan eitthvað kántrílag um rauðháls sem rekur sögu sína á barnum. Það er gaman að skoða texta laganna og bera saman - og spyrja sig hvor karltegundin er meira aðlaðandi og eins væri gaman að skoða þetta út frá pólitíkinni; ætli báðir karlarnir kjósi Obama eða kannski bara annar, eða hvorugur? Er jafnvel hugsanlegt að bæði lögin rúmist í einum og sama karlinum? Er það kannski heldur mótsagnakennt?

 

Þú komst við hjartað í mér

á diskóbar

ég dansaði frá circa tólf til sjö

við mættumst þar

með hjörtun okkar brotin bæði tvö.

 

Ég var að leita að ást

....

og þegar þú komst inn í líf mitt

breytist allt þú kom þú komst

við hjartað í mér.

 

og ég fann þig sem betur fer

 __________________________

Nú - þið þekkið þetta.  Þetta er hugþekk mynd af nýmóðins karli. Þessi piltur fæddur circa 12/7 82 er ólíkur föður sínum sem fæddist 1958. Hann fer á diskóbar, hann dansar, hann gengur um með brotið hjarta, hann er ekkert þangað til hann hittir hinn helming hjartans. Pabbi hans var pönkari og dansaði helst ekki; kannaðist heldur ekki við að vera með hjarta en viðurkenndi þó að hafa fengið brjóstsviða eftir að hafa drukkið bjórlíki ofan í hangikjöt, grænar og jafning.

Ég skal ekki segja hvort þessi manngerð sé það sem koma skal. Þessi manngerð er frábærlega skemmtileg yfir traustum cappuchino og hann veit að biscotti er óætt nema maður dýfi því í kaffið. - En annað mál er hvort hann er þrautgóður á raunastund - gæti hann dregið fram lífið á lúku af kaffibaunum og hálfri kexköku grafinn í fönn? Ég veit það ekki. 

 Hinn textinn er svona í lauslegri þýðingu:

 Rehab- Bartender

Barþjónn, nú fór ég alveg með það

braut skilorð í góðum fílíng.

Það var nótt þegar loks ég kom heim á hlað

það var læst svo ég gaf hurðinni góðan kýling.

 

Hún var að brjálast yfir gluggapósti

ég sagði: "þú ert dópuð" með þjósti

 Hún kallaði mig fífl og henti mér út

 sagði að ég væri ræfill og lamdi mig rosalega fast.

 

Og í ölæði gerði ég nokkuð

sem ég hefði betur látið ógert

og nú er ég hér hjá þér barþjónn,óguð

fyllibytta á flótta.

_________________

ég hef ekki þorað að lesa textann í heild sinni - en ég sé ekki betur en lagið fjalli um mann sem gerir eitthvað við konuna sem veldur því að hann er nú á flótta. Mér finnst hann ekki vera mjög sorgmæddur; hér eru engin brotin hjörtu. Hann virtist vera hálf fúll og einhvern veginn var þetta henni að kenna: þið vitið: you make me so angry, I don't wanna do those things but you make me...

Ég hef svosem ekkert gáfulegt um þetta að segja. Það var bara stuð að heyra þessi lög nokkurn veginn í sömu andrá. Ég hef á tilfinningunni að þessi þarna Palin sé meira gefin fyrir Bartender lagið og Obama er svona diskóbarsbrotinhjörtubæðitvö-gæi. 

Besti textinn á plötunni er líklega kósýkvöld þeirra baggalútsmanna. Eitt truflar mig þó við textann. Við hlustun finnst mér ég vera staddur í teppalagðri blokkaríbúð anno 1982 og öll stemningin er á þá leið (það segir til dæmis enginn rólegheit og kósý í dag). Því finnst mér fyrirbærið flísteppi sem kemur fyrir í einni hendingunni vera hálfgerð tímaskekkja; eins og þegar rolex-úr koma fyrir í miðaldamyndum. Það var líka eitthvað annað atriði sem ég er búinn að gleyma. Reyndar er líklegt að þeir hafi hent flísteppinu inn til að ná fram póstmódernískum núningi.

Guð blessi Islamabad. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

og guð blessi þig og hemma gunn

Brynja (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband