Af Eiríki Guðmunds og fleiru

Í dag eru bara til tveir samnefnarar: Bubbi Morthens og Britney Spears. Ef tíu Íslendingar kæmu saman væri þetta einu nöfnin sem allir myndu þekkja vandræðalaust. Þetta finnst mér vera einhver áþreifanlegasta breytingin sem varð í kjölfar internetsprengingarinnar og fjölgunar sjónvarps og útvarpstöðva. Enginn þekkir lengur sömu hlutina. Allar samræður eru í raun einræður og upplýsingagjöf. Það er ekki hægt að koma sér saman um nein umræðuefni nema Bubba og Britney. Því er það svo að nafnið Eiríkur Guðmundsson segir ykkur líklega fátt eða ekkert (ég meina, ef þessir 20 lesendur þessa bloggs væru þverkskurður þjóðarinnar). Tíu prósent ykkar þekkja hann, giska ég á. Að hann hafi stýrt útvarpsþætti á besta tíma í 10 ár á rás eitt, vissuð þið það? Að þessa dagana haldi hann skáldlegar eldræður yfir rústunum, vissuð þið það?  Við lifum á vondum tímum - þar sem bestu raddir hins besta fólks týnast í kjaftavaðli. Undanfarin tíu ár hefur okkar besta fólk skrifað og sungið og talað og hitt naglann á höfuðið - nú heyrir maður í spekingum sem segja að fræðimenn og spekingar hafi sofið á verðinum á meðan þjóðin flaut að feigðarósi. Það er ekki rétt. Menn voru ekki að hlusta. Og eins og Eiríkur Guðmunds benti á í pistli í Víðsjá í gær eða fyrradag þá snérist umræðan um Sylvíu Nótt og brotthvarf Randvers Þorláks úr Spaugstofunni. Og annar góður punktur hjá honum; það var eins og Séð og heyrt væri komið með útibú í öllum fjölmiðlum. Hver man ekki eftir forsíðufréttum á mbl. um ástand Britneyjar og Amy Winhehouse? 

Mig langar að hrósa rúv. Mig langar að hrósa Eiríki Guðmunds, þeim í Speglinum, Hjálmari Sveins, Guðmundi Andra og öllum þeim sem eru að vanda sig.

Verst að þeir eru bara trúboðar meðal trúaðra; krakkavitleysingar á öllum aldri stinga hausnum áfram í afþreyingarsandinn og hækka bara í i-podinum og stela sér bara fleiri kvikmyndum og hafa það reglulega gott með dorritos-mylsnu í kjöltunni. 

Það er sorglegt að ekki sé til neinn almennilegur vefur sem segir og útskýrir fréttir og þjóðmál. Það er fyrirbærið útvarp sem heldur merkinu á lofti. Vefir mbl og vísis eru í raun bara sirkus þar sem óunnu efni er hent inn eftir því sem það berst. Skeggið á Brad Pitt blandast náttúruhamförum í Kína blandast úrslitum í bikarnum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru orð að sönnu. Ekki má gleyma greiningadeildum bankanna sem eru í besta falli auglýsingastofur eins og einhver spekingur benti á. Íslenst samfélag hefur algerlega sofið á verðinum. Segir sitt að vinsælasti stjórnmálaflokkurinn á góðæristímabilinu fór með okkur í stríð sem kostaði 600.000 manns lífið (Írak) og var kosinn til áframhaldandi stjórnarsetu í framhaldinu.

Unnar (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband