Guðmundur Böðvarsson

Guðmund uppgötvaði ég afar seint. Ég hélt að hann væri sveitó. Málið var bara að hann var bóndi og bjó í sveit en hann var ekki sveitó. Hann var reyndar alveg djöfulli magnaður. Og ef eitthvað er að marka ævisögu hans eftir Silju Aðalsteins, þá var hann líka góður gæi. Í menntaskóla lásum við um Rauða steininn. Það þótti mér leiðinlegt ljóð. Fylgd lásum við líka, það fer skánandi. Og síðan skoðuðum við líka ljóðið þarna um dvergandskotana í norður- og suðurey. Það er dálítið flott, sérstaklega núna, núna þegar menn eru búnir að svíkja sína huldumey.

Á þetta ljóð rakst ég gluggandi í best of Guðmundur í eldhúskróknum á Æsustöðum, hugsanlega étandi sviðalappir - örugglega bergjandi á rauðum víking.

 

Raddir sem aldrei hljóðna

Svo hljótt þaut mín jörð yfir himinsins nafnlausu vegi

að hjarta mitt fann ekki mismun á nóttu og degi,

í feiminni þrá, sem endalaust bíður og bíður.

Hann blekkti mig, tíminn, ég vissi ekki, hvernig hann líður.

 

Og svo flaug hann á burt með mitt vor yfir heiðar og hlíðar,

með höll mína, tign mína og ríki, ég vissi það síðar,

með hið fegursta og besta, sem aðeins af afspurn ég þekki

-og ég átti það, átti það allt, en ég vissi það ekki.

 

Nú undrast ég það, þar sem einn ég í skugganum vaki

að mín æska er liðin, er horfin, og langt mér að baki,

á einfaldan hátt, eins og auðfarinn spölur á vegi,

og þó undrast ég mest, að ég gekk þar, og vissi það eigi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband